laugardagurinn 22. júní 2019

Listamaðurinn daglega í Selárdal

Listamaðurinn daglega á söguslóðum
Listamaðurinn daglega á söguslóðum

Kómedíuleikhúsið sýnir leikverkið Listamaðurinn með barnshjartað daglega í komandi viku. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson, leikstjórn annast Marsibil G. Kristjánsdóttir. Leikurinn verður sýndur á söguslóðum í kirkju Samúels í Selárdal. Það er alveg einstakt að upplifa sýningu á sögustað. Rétt er að geta þess að leikurinn verður aðeins sýndur þessa einu viku í Selárdal.

Miðasala stendur yfir á tix.is. Sýnt verður í kirkju Samúels í Selárdal daglega kl.16.00. Sýningar verða sem hér segir:

Mán 24. júní kl.16.00

Þri. 25. júní kl.16.00

Mið. 26. júní kl.16.00

Fim. 27. júní kl.16.00

Fös. 28. júní kl.16.00 NÆST SÍÐASTA SÝNING

Sun. 30. júní kl.16.00 LOKASÝNING 

 

Miðasala á tix.is og á sýningarstað.

laugardagurinn 1. júní 2019

Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins

Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins er brautryðjenda verkefni í leiklistarmálum á svæðinu. Kómedíuleikhúsið ætlar að koma sér upp sérstakri leiklistarmiðstöð undir starfsemi sína á Þingeyri og hlutum til þess styrk frá Öll vötn til Dýrafjarðar. Um er að ræða vinnuaðstöðu til æfinga á leikverkum okkar, skrifstofuaðstöðu Kómedíuleikhússins, aðstaða til hýsa leikmyndir okkar og búningasafn, og síðast en ekki síst aðstaða til að geta boðið uppá leiklistarnámskeið, fyrirlestra ofl.

Kómedíuleikhúsið hefur í dag ekkert fast æfingahúsnæði og því viljum við breyta og framtíðina sjáum við fyrir okkur í Dýrafirði. Okkar markmið er að vera leiðandi í leiklist á Vestfjörðum og því mun komandi leiklistarmiðstöð okkar hafa mikið að segja. Þangað munu koma atvinnulistamenn til að vinna með okkur að uppsetningum Kómedíuleikhússins. Einnig mun hingað streyma listafólk allsstaðar af landinu til að sækja námskeið og annað leiklistartengt s.s. fyrirlestra. Þetta verður ekki sýningaraðstaða enda höfum við glæst leikhús nú þegar á Þingeyri í Félagsheimilinu.

Stefnt er að því að hefja starfsemi okkar í Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins í ágúst komandi ef allt gengur eftir. Nú erum við á höttunum eftir hentugu húsnæði á leiklistar eyrinni Þingeyri.

Spennandi. 

mánudagurinn 20. maí 2019

Dimmalimm, Karíus og Baktus í leikferð

Dimmalimm, Karíus og Baktus, verða á Patró, Bíldó og Hólmavík á helginni
Dimmalimm, Karíus og Baktus, verða á Patró, Bíldó og Hólmavík á helginni

Á helginni komandi verður Dimmalimm á leikferð um Vestfirði ásamt þeim Karíusi og Baktusi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi tvö vinsælu barnaleikverk eru sýnd saman því á páskum voru leikirnir sýndir í leikhúsinu á Þingeyri við miklar vinsældir og aðsókn. Það er einmitt Leikdeild Höfrungs á Þingeyri sem stendur að sýningunni á Karíus og Baktus en leikstjóri er Elfar Logi Hannesson, leikarinn í Dimmalimm. 

Alls verða leikirnir tveir sýndir á þremur stöðum á Vestfjörðum nú um helgina. Leikurinn hefst á Patreksfirði kl.13.00. Sama dag kl.17.00 verður sýnt á Bíldudal. Leikferðinni líkur síðan á Hólmavík á sunnudeginum kl.15.00. Miðaverð er aðesins 3.900.- krónur en sérstakt fimm Dimmalimm tilboð er í boði. Ef þú pantar fimm miða borgar þú bara fyrir fjóra.

Miðasala á staðnum og í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 823 7665.

fimmtudagurinn 9. maí 2019

Dimmalimm í Laugardalshöllinni

Ævintýri Dimmalimm halda áfram
Ævintýri Dimmalimm halda áfram

Kómedíuleikhúsið, eitt leikhúsa, tekur þátt í hinni veglegu heimilssýningu Lifandi heimili 2019. Þetta risastóra sýning verður haldin í sjálfri Laugardalshöllinni helgina 17. - 19. maí. Það er nýjasta flaggskip Kómedíuleihússins sem verður okkar fulltrúi. Nefnilega Dimmalimm. Gestum gefst kostur á að kynna sér leiksýninguna sem og heilsa uppá Dimmalimm, svaninn og Pétur prins. 

Á laugardag og sunnudag verður Dimmalimm einnig á hátíðarsviði sýningarinnar. Sýnt verður brot úr þessari vinsælu ævintýrasýningu. 

þriðjudagurinn 7. maí 2019

Gísli Súri á Barnamenningarhátíð

Gísli mætir í Reykholt
Gísli mætir í Reykholt

Loksins verður verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson sýndur í Reykholti. Nánar tiltekið miðvikudaginn 8. maí kl. 11.30 í Reykholtskirkju. Er sýningin liður í Barnamenningarhátíð í Reykholti sem haldin er af Snorrastofu í samstarfi við fleiri aðila. 

Af hverju segjum við loksins hér í upphafi. Jú, sögumaðurinn í Gísla leiknum heitir einmitt Snorri og fyrirmyndin er Snorri í Reykholti. Ekki þó Sturluson heldur Jóhannesson. Snorrinn sá var kennari í Héraðsskólanum á Reykholti á síðustu öld. Kenndi hann m.a. Gísla sögu þar á meðal leikaranum Elfari Loga Hannessyni. Árið áður hafði hann fallið í Gísla sögu og varð því að taka Gísla sögu áfangann að nýju og viti menn og konur. Drengurinn flaug í gegnum Gísla prófið. Enda má segja að Snorri hafi ekki bara kennt söguna heldur og leikið hana sérstaklega bardagana. Svo áhrifamikil var túlkun kennarans að  hann var innblástur og í raun kveikjan af einleiknum Gísli Súrsson. 

Miðaverð er aðeins 1.000. krónur
Miðaverð er aðeins 1.000. krónur

Í tilefni af endurnýjun samstarfssamnings Kómedíuleikhússins og Ísafjarðarbæjar verður sérstök hátíðarsýning á Dimmalimm í Edinborgarhúsinu í dag kl.17.30.
Miðaverð er aðeins 1.000.- krónur.

Dimmalimm er án efa eitt ástsælasta ævintýri þjóðarinnar. Sagan er eftir listamanninn Mugg frá Bíldudal. Ævintýrið fjallar um prinsessuna Dimmalimm sem eignast góðan vin sem er stór og fallegur svanur. En einsog í öllum góðum sögum þá gerist eitthvað óvænt og ævintýralegt. Dimmalimm var frumsýnt í mars síðastliðnum í Þjóðleikhúsinu og gekk fyrir fullu húsi langt fram í apríl. Dimmalimm hefur nú þegar verið sýnd á landsbyggðinni bæði hér fyrir vestan og norðan. Seinna í maí fer Dimmalimm í leikferð með Karíus og Baktus um Vestfirði.

fimmtudagurinn 2. maí 2019

Dimmalimm tilnefnd sýning ársins

Verður Dimmalimm valin besta sýningin?
Verður Dimmalimm valin besta sýningin?

Hin stórskemmtilega Sögur verðlaunahátíð hefur nú birt tilnefningar sýningar um það besta á árinu á sviði leikhúss, skáldskapar, sjónvarps og tónlistar. Sýning okkar Dimmalimm er tilnefnd sem sýning ársins. Þessi tilnefning vermir mjög í okkar hjörtum því það eru jú börnin sem eru bestu dómararnir í þessari deild. Það eru svo börn á aldrinum 7. - 12. ára sem velja það besta í hverjum flokki og stendur kosning nú yfir. Hér geta börnin kosið 

https://www.surveymonkey.com/r/2LJLS3Z?fbclid=IwAR0WrHU-bEuCaI8xuQ2ysowi4Y5NTHipUOm6mZfRiSkznolMSE2osGKfKhI

 

Dimmalimm var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í mars síðastliðnum og var þar sýnd fyrir uppseldu húsi sýningu eftir sýningu. Nú er komið að því að Dimmalimm fari út á landsbyggðina og strax núna á helginni verður Dimmalimm sýnd á þremur stöðum. Á laugardag á Siglufirði. Það verður sérstakur hátíðarbragur á þeirri sýningu því hún er í boði Ungmennafélagsins Glóa sem fangar nú 25 ára afmæli sínu og hugsjónaapparatsins Ljóðaseturs Íslands. Sýnt er í Bláa húsinu og hefst kl.15.00. Einsog áður sagði er ókeypis inn og allir velkomnir.

Á sunnudag verður Dimmalimm á fjölunum á Blönduósi. Sýnt verður í Félagsheimilinu og hefst leikur kl.16.00.

Daginn eftir á mánudag verður Dimmalimm komin alla leið til Ísafjarðar. Ekki að ástæðulausu því þann góða dag verður endurnýjaður samstarfssamningur Kómedíuleikhússins við Ísafjarðarbæ. Af því tilefni verður sérstök hátíðarsýning á Dimmalimm í Edinborgarhúsinu kl.17.30. Í tilefni dagsins þökkum við fyrir bæjarbúum fyrir með því að selja miðann á aðeins 1.000.- krónur. Já, það er ævintýralegt verð á sýninguna á Dimmalimm í Edinborg og því um að gera að nýta þetta ævintýralega tilboð. 

Fjölmargar sýningar á landsbyggðinni eru fyrirhugaðar á Dimmalimm bæði núna í sumar og í haust. 

sunnudagurinn 28. apríl 2019

Leikritaútgáfa Kómedíuleikhússins

Dimmalimm er nýjasta leikrit okkar og fæst nú einnig á prenti
Dimmalimm er nýjasta leikrit okkar og fæst nú einnig á prenti

Kómedíuleikhúsið hefur síðan 2016 gefið leikverk sín út um leið og þau eru frumsýnd. Er leikhúsið eitt leikhúsa á öllu landinu sem þetta gjörir. Leikritin eru gefin út í heild sinni í veglegri leikskrá um hvert verk fyrir sig. Þannig geta leikhúsgestir kynnt sér handrit leiksins bæði fyrir sýningu, meðan á henni stendur eða þá bara að sýningu lokinni. Kómedíuleikhúsið er afskaplega stolt af þessari leikritaútgáfu sinni og ef eitthvað ætlum við bara að halda henni áfram.

Það er nú ekki á hverjum degi sem íslensk leikrit hafa og eða eru almennt gefin út svo einhver verður að bæta úr því. Við leggjum okkar verk á vogaskálarnar til eflingar leikritaútgáfu á Íslandi. 

Leikrit okkar fást á hverjum sýningarstað okkar hverju sinni. Einnig er hægt að panta þau með því að senda okkur tölvupóst komedia@komedia.is. 

Verðið er alveg sérstaklega kómískt eða aðeins 500.- krónur. Já, þú færð eitt stykki leikverk einn rauðan.

Svo er náttúrulega best að vera áskrifandi af leikritum Kómedíuleikhússins. Þannig færðu nýjustu verkin um leið og þau koma út. Auðvitað gerum við sérlega vel við okkar áskrifendur því þú færð tvö leikrit, leikskrár, á verði einnar. Þannig getur þú glatt fleiri í kringum þig með einstakri leikritagjöf. Ef þú vilt gerast áskrifandi af leikritum Kómedíuleikhússins þá sendu okkur póst á komedia@komedia.is

Þau leikrit sem koma hafa út eru:

 

Gísli á Uppsölum, 2016

EG, 2018

Sigvaldi Kaldalóns, 2018

Gísli Súrsson á ensku, 2019

Dimmalimm, 2019

 

Næsta leikrit kemur út í júní en það er Listamaðurinn með barnshjartað, 2019, en leikurinn verður einmitt sýndur á söguslóðum í Selárdal í júnílok. 

miðvikudagurinn 17. apríl 2019

Dimmalimm og Karíus og Baktus á Þingeyri á páskum

Dimmalimm og Karíus og Baktus á páskum á Þingeyri
Dimmalimm og Karíus og Baktus á páskum á Þingeyri

Dimmalimm og Karíus og Baktus

Félagsheimilið Þingeyri

Miðasala á tix.is

Miðasölusími: 823 7665

Sýnt í Félagsheimilinu

Fös. 19. apríl kl.14.00

Fös. 19. apríl kl. 16.00

Lau. 20. apríl kl. 13.00

Lau. 20. apríl kl. 15.00

laugardagurinn 13. apríl 2019

Leikhúspáskar á Þingeyri

Dimmalimm fer vestur um páskana
Dimmalimm fer vestur um páskana

Það verður mikið um að vera í leikhúsinu á Þingeyri á páskunum. Alls verða þar sýnd þrjú leikrit þar af tvö úr smiðju Kómedíuleikhússins. Okkar nýjasta sýning sem hefur slegið í gegn í Þjóðleikhúsinu og verið sýnd fyrir uppseldu húsi fimm sýningar í röð Dimmalimm mætir á eyrina. Dimmalimm verður sýnt ásamt hinu vinsæla leikriti Karíus og Baktus í uppfærslu Leikdeildar Höfrungs. Alls verða fjórar sýningar á þessari klassísku barnatvennu leikhússins. Tvær sýningar verða á föstudaginn langa kl. 14.00 og kl. 16.00. Einnig verða tvær sýningar á laugardag kl.13.00 og kl.15.00. 

Á páskadag kl.16.00 verður síðan hin ástsæla sýning Sigvaldi Kaldalóns sýnd í leihúsinu á Þingeyri. 

Miðasala á allar sýningar stendur yfir allan sólarhriginn á tix.is

Miðasölusími: 823 7665

Eldri færslur