þriðjudagurinn 26. febrúar 2019

Vigdís Hrefna er Dimmalimm

Það er glæstur hópur listamanna sem kemur á nýjustu leiksýningu Kómedíuleikhússins, Dimmalimm. Um er að ræða brúðuleiksýningu með einum leikara og er óhætt að segja að öllum göldrum leikhússins sé beitt í sýningunni. Það er hin vinsæla og einlæga leikkona Vigdís Hrefna Pálsdóttir sem gefur Dimmalimm röddina. Vigdisi þarf vart að kynna fyrir landmönnum hún hefur verið á fjölum Þjóðleikhússins síðustu ár og hlotið verðskuldaða athygli fyrir leik sinn. 

Miðasala á Dimmalimm í Þjóðleikhúsinu er hafin á tix.is. Frumsýnt verður laugardaginn 16. mars kl.14.00. Næstu sýningar verða svo laugardagana tvo þar á eftir.

Rétt er að taka fram að aðeins verða þessar þrjár sýningar í Þjóðeikhúsinu því er um að gera að tryggja sér miða sem allra fyrst. 

föstudagurinn 22. febrúar 2019

Dimmalimm á samning í Þjóðleikhúsinu

Í vikunni gerðist sá kómíski viðburður að Dimmalimm ritaði undir samning við Þjóðleikhúsið. Þar sem Dimmalimm er prinsessa þá var nú ekki annað við hæfi en sjálfur Þjóðleikhússtjóri, Ari Matthíasson, ritaði undir samninginn. Meðfylgjandi mynd var tekin við þessa hátíðlegu stund í Þjóðleikhúsinu.

Leikritið um Dimmalimm verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 16. mars komandi og hefst miðasala í næstu viku. Aðeins örfáar sýningar eru áætlaðar á Dimmalimm í Þjóðleikhúsinu og því um að gera að vera kvikk að krækja sér í miða þegar miðasala hefst í komandi kómískri viku á tix.is 

þriðjudagurinn 19. febrúar 2019

Arnar Jónsson í Kómedíuleikhúsið

Röddin
Röddin

Kómedíuleikhúsið vinnur nú að sinni 44 uppfærslu. Að vanda er það hinn vestfirski sagnaarfur sem gefur efnið. Reyndar er um góðkunninga Kómedíu að ræða eða ævintýrið Dimmalimm. Sem hefur verið okkur sérlega hugleikið sem og höfundur þess hinn bílddælski listamaður Muggur. Dimmalimm verður frumsýnt 16. mars í Þjóðleikhúsinu en þar hafa æfingar staðið yfir síðan í janúar. Dimmalimm er einleikur þar sem aðalpersónurnar, Dimmalimm, svanurinn og Pétur eru brúður úr smiðju listakonunnar Marsibil G. Kristjánsdóttir. Það er Elfar Logi Hannesson sem leikur og stjórnar brúðunum í ævintýrinu. Sögumaður í Dimmalimm er engin annar en Arnar Jónsson einn dáðasti leikari þjóðarinnar. Arnar hefur rödd sem hæfir ævintýrinu vel enda óhætt að segja að hann sé bara röddin í dag. 

Arnar þarf ekkert að kynna fyrir landsmönnum. Hefur leikið frá því hann var 10 - 11 ára patti fyrir norðan. Hóf ferilinn hjá LA og síðan leikið í öllum helstu leikhúsum landsins fleiri tugi hlutverka oftar en ekki í aðalrullunni. Arnar hefur einnig leikið í fjölmörgum kvikmyndum en hann lék einmitt vin okkar Gísla Súrsson í samnefndri kvikmynd, 1981. Fólki á besta aldri er sérlega minnstæð túlkun hans á heimilisföðurnum Halldóri í sjónvarpsþáttunum Fastir liðir einsog venjulega. 

Við bjóðum Arnar velkominn til starfa og hlökkum einlæglega til samstarfsins við röddina. 

Dimmalimm var samin fyrir Dimmalimm
Dimmalimm var samin fyrir Dimmalimm

Dimmalimm á sér mjög sérstaka sögu. Þannig var að listamaðurinn Guðmundur Thorsteinsson, kallaður Muggur, var á ferðalagi vorið 1921. Hann var reyndar oft á faraldfæti og nú var stefnan sett á Ítalíu. Þar hugðist Muggur vinna að stóru verki, altaristöflu með myndefninu Kristur læknar sjúka, en það efni hafði verið honum hugleikið allt frá árinu 1916. Áður en að verki skal unnið ætlar Muggur að heimsækja systur sína Guðrúnu og Gunnar Egilsson eiginmann hennar sem þá búa á Ítalíu. Þau eiga litla dóttur sem heitir Helga sem er alltaf kölluð Dimmalimm og er mjög góð vinkona Muggs. Hún er þá þriggja ára gömul. Mugg langar mikið að færa frænku sinni eitthvað alveg sérstakt og er að velta þessu fyrir sér um borð í flutningaskipinu sem hann ferðaðist með til Ítalíu.

Hummm og ha! Hverju hafa nú litlar prinsessur eins og Helga, Dimmalimm, gaman af? Hvað með ævintýri? Þau eru alltaf svo skemmtileg. Prinsessa sér frosk verður vinur hans og svo allt í einu breytist hann í prins. En hvernig væri nú að hafa svan í staðinn fyrir frosk? Helga á líka lítinn frænda sem heitir Pétur, hann gæti verið prinsinn sem breytist í svan. Þannig mótast hugmyndin í kollinum á Muggi og hann byrjar að teikna myndir, skrifa texta við þær og úr verður ævintýrið Sagan af Dimmalimm.

Þegar skipið kom að landi var Dimmalimm tilbúin og Muggur kom færandi hendi til litlu frænku sinnar. Maður getur rétt ímyndað sér hve glöð hún Helga litla Dimmalimm hafi verið að fá ævintýri að gjöf sem er sérstaklega samið fyrir hana. Og það sem meira er hún og frændi hennar, Pétur, eru í aðalhlutverkunum. Það gerist bara ekki betra. Það getur greinilega allt gerst í ævintýrunum.

Sem betur fer var ævintýrsins vel gætt en það var aðeins á lausum blöðum þegar Muggur gaf það sinni Dimmalimm. Foreldrar hennar voru svo séðir að láta binda verkið inn og þannig varðveittist það. Löngu, löngu seinna eða árið 1942 var ævintýrið um Dimmalimm loks gefið út á bók. Sú útgáfa þótti alveg sérlega vel heppnuð þar sem hinir einstöku litir Muggs nutu sín vel. Bókin hefur verið endurútgefin oft og mörgum sinnum. Ekki bara á íslensku heldur á allskonar tungumálum ensku sem pólsku, þýsku dönsku og frönsku. Þannig hafa ekki bara hin íslensku börn glaðst og heillast af ævintýrinu Dimmalimm í gegnum árin heldur og börn margra, margra landa. Það er fallegt og um leið svo ævintýralegt.

mánudagurinn 11. febrúar 2019

Bjössi Thor semur tónlistina í Dimmalimm

Bjössi mun munda gítarinn í Dimmalimm
Bjössi mun munda gítarinn í Dimmalimm

Hinn landskunni gítaristi og músíkant þjóðar Björn Thoroddsen, frá Bíldudal, vinnur nú hjá Kómedíueikhúsinu. Verkefnið er að semja tónlist við hina hugljúfu og ævintýralegu sýningu Dimmalimm. Leikritið verður frumsýnt í mars í Þjóðleikhúsinu. Þetta er í annað sinn sem Bjössi semur tónlist fyrir Kómedílulleikhússins en síðast samdi hann sælla minninga músík við sögulega stykkið EG. Bjössa þarf vart að kynna en samt ætlum við að gera það hér enda aldrei góð vísa of oft kveðin.

 

Björn Thoroddsen (Bjössi Thor) hefur sl ár verið einn af atkvæðamestu jazztónlistarmönnum  á Íslandi og hlotið ýmsar viðurkenningar á sínum ferli m.a. jazztónlistarmaður ársins 2003.  Björn hefur unnið með mönnum á borð við Al De Meola, Robben Ford og Tommy Emmanuel en Robben Ford er stjórnandi og útgefandi síðustu plötu Bjössa. Björn hefur verið aðalflytjandi og stjórnandi á Guitarama, alþjóðlegri gítarhátíð sem farið hefur víða um heim. Bjössi heldur tónleika reglulega í N-Ameríku og Evrópu.

þriðjudagurinn 5. febrúar 2019

Þröstur Leó leikstýrir

Æfingar standa nú yfir á barnaleikritinu Dimmalimm. Frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu í mars. Það er að vanda einvalalið listamanna sem koma að sýningunni. Gaman er að geta þess að þrír þeirra koma frá Bíldudal og sá fjórði úr þar næsta þorpi eða frá Patreksfirði. Þar að auki er ævintýrið Dimmalimm eftir Bílddælinginn Guðmund Thorsteinsson sem var aldrei kallaður annað en Muggur.

Höfundar leikgerðar eru Bílddælingarnir Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson. Sá síðarnefndi er einnig leikstjóri sýningarinnar og er þetta í þriðja sinn sem Þröstur leikstýrir hjá okkur. Fyrst var það sýningin sem gerði allt viltaust og sýnd var fyrir uppseldum sölum trekk í trekk nefnilega Gísli á Uppsölum. Nú síðast leikstýrði Þröstur síðan Sigvalda Kaldalóns sem enn er í sýningu. 

Þröstur Leó útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1985 og fór þaðan beint í leikhúsið við tjörnina. Hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó lék hann fjölmörg hlutverk og einnig þegar leikhúsið flutti sig yfir á Listabrautina og hét eftir það Borgarleikhúsið. Meðal sýninga hans með Leikfélaginu má nefna; Dagur vonar, Þrúgur reiðinnar, Hamlet, Svar við bréfi Helgu, Fanný og Alexander og Fólkið í kjallaranum. Þröstur hefur einnig leikið í fjölmörgum sýningum Þjóðleikhússins má þar nefna Þetta er allt að koma, Koddamaðurinn, Bakkynjur, Grandavegur 7 og Dýrin í Hálsaskógi. Þröstur hefur leikið í feikilega mörgum kvikmyndum. Meðal annars Jón Leifs í Tárum úr steini og föður Nóa í Nóa albínóa í samnefndri mynd.

Þröstur Leó hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verk sín bæði Grímu- og Edduverðlaunin.

fimmtudagurinn 31. janúar 2019

91 - 7730

Gísli spilaði fullt bingó
Gísli spilaði fullt bingó

Liður í okkar endurskipulagningu til framtíðar er að horfa bæði í fram og aftur spegilinn góða. Hvað höfum við? Hvað höfum við gert vel? Hvað hefur gengið miður? Hvað má bæta? Hvað er sem sé okkar besti vinur og viðfangsefni þessa kómísku daga.

Við höfum allt frá upphafi gætt vel að því að skrá niður allar sýningar á okkar verkum. Með sérstakt sýningarbókhald þar sem skráð er hvaða leikverk sé sýnt og hvar og hve margir áhorfendur. Þannig getum við mjög auðveldlega skoðað hvert leikár fyrir sig og kemur það sér einstaklega vel þegar tiltekt er. Leikárið 2016 - 2017 var okkur til að mynda einstaklega gott. Það var einmitt árið sem við frumsýndum Gísla á Uppsölum. Sýning sem fyllt hvert leikhús um land allt. Enda sýna tölurnar það. Við vorum með tvær aðrar leiksýningar í gangi umtalað leikár Íslendingasagnaleikina Gísla Súrsson og Gretti. Í það heila sýndum við 91 sýningum á þessum þremur leikjum og samanlagður fjöldi áhorfenda á þessar sýningar var 7730 manns. Gott ef þetta er ekki bara met hjá okkur. Leikárið áður var fjöldi áhorfenda rétt yfir fjögur þúsund enda voru þá aðeins færri sýningar eða 74. 

Leikhús rekstur er sannarlega einsog Bingó bara spurning hvort maður nái að spila allt spjaldið eða bara part af því leikár hvert. Auðvitað er stefnan ávallt sett á fullt spjald og það gerum við áfram leggjum ávallt allt okkar í leikárið hverju sinni. 

sunnudagurinn 27. janúar 2019

Sumar stundir í leikhúsi eru yndislegri en aðrar

Svona byrjar leikdómur leikrýnara kvennablaðsins: Sumar stundir í leikhúsi eru yndislegri en aðrar. Og ritar svo áfram: og hér greinir frá einni slíkri: Kómedíuleikhúsið heiðrar um þessar mundir höfuðborgarbúa með Gísla sínum Súrssyni á sviði Tjarnarbíós og það er leikhússtund sem enginn ætti að missa af sem hefur á annað borð gaman af leikhúsi í sinni tærustu mynd.

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson er sýndur hefur verið 330 sinnum fékk hér enn einn dóminn og það í topp deildinni. Einsog fram kemur að ofan þá er Gísli nú reglulega á fjölunum í Tjarnarbío Reykjavík. Sýnt er á ensku og eru þrjár sýningar núna í komandi febrúar. Einnig er gamana að geta þess að leikurinn er nú aftur sýndur í skólum um land allt og er það sérlega vel því það er orð margra að þeir hafi loksins fattað söguna þegar þeir sáu leikritið Gísli Súrsson. 

Hér að neðan eru fleiri ummæli leikrýnara Kvennablaðsins:

 

,,Hér er við hæfi að benda sérstaklega Leiklistarráði og öðrum þeim stofnunum sem styrkja leikhús í í landinu að sjá með eigin augum þá list sem vex fyrir vestan eins og lítið blóm – og þarfnast vissulega alúðar og aðhlynningar þeirra sem halda um sjóði og styrki."

 

,, gerist ekki nema fyrir hina sérstöku töfra leikhússins."

 

,,sagnasnilld Elfars Loga"

 

,,Hérna verður list leikhússins hvað tærust í Gísla sögu í meðförum Kómedíuleikhússins: alls kyns fígúrur, skapaðar af hugmyndaauðgi úr tré og málaðar í litum íslenskra miðalda eru persónur sögunnar og Elfar Logi ljáir hverri þeirra sérstaka rödd, skapgerð og ryþma þannig að fyrir augum okkar birtast heilu fjöldasenurnar á stundum þar sem ægir saman fólki og röddum. Elfar Logi heldur vel utanum atburðarásina, leikurinn er fjörlegur og spennandi og allar persónur sem við sögu koma skýrt fyrir að hvergi er neinu ruglað saman – frekar að sagan verði hreinlega skiljanlegri en þegar hún er lesin af bók"

 


föstudagurinn 25. janúar 2019

Dimmalimm fer á svið

Á frábærum föstudegi sem er um leið Bóndadagur þá færum við stórtíðindi úr herbúðum Kómedíuleikhússins. Þrír Bílddælingar hafa tekið sig saman og gert splunkunýja leikgerð uppúr ævintýri Bílddælingsins Guðmundar Thorsteinssonar eða Muggs. Hið Bílddælska tríó skipa þeir Þröstur Leó Gunnarsson sem mun annast leikstjórn, Björn Thoroddsen er höfundur tónlistar og loks Elfar Logi Hannesson sem mun leika. Æfingar eru þegar hafnar og er stefnt á frumsýningu um miðjan mars í Þjóðleikhúsinu.

Einsog unnendum Kómedíu er kunnugt þá er listamaðurinn Muggur í miklu uppáhaldi hjá okkur. Fyrsti stór einleikur okkar var einmitt Muggur er fjallaði um æfi þessa fjölhæfa listamanns. Árið 2006 frumsýndum við svo leikritið Dimmalimm sem er þriðja mest sýnda leikrit okkar og loks árið 2012 var það ævintýraleikurinn Búkolla ævintýraheimur Muggs. Síðast nefndi leikurinn er byggður á þeim þjóðsögum og ævintýrum sem Muggur myndskreytti. Til gamans má geta þess að sá leikur er einmitt í 5 sæti yfir mest sýndu leiki okkar. Ekki má svo gleyma því að árið 2017 gáfum við út barnabókina Muggur saga af strák. Söguleg skálduð barnasaga um æskuár Muggs á Bíldudal. 

Við erum ákaflega spennt fyrir að færa þetta vinsælasta ævintýri þjóðarinnar á svið á nýjan leik og það í splunkunýrri leikgerð. 

miðvikudagurinn 23. janúar 2019

Sex vinsælustu

Gísli alls ekki súr á topp sex
Gísli alls ekki súr á topp sex

Kómedíuleikhúsið hefur sett á svið 43 leiki. Alls störfðu 162 listamenn að þeim verkum. Erum þar að tala um fjölbreytt störf listamanna allt frá leikurum til leikmyndahönnuðu og ljósameistara og allt þar á millum og kring. Þetta eru sérlega háar tölur sérstaklega þegar miðað er við atvinnuleikhús er starfar á landsbyggðinni. Allur gangur er á því hvort listamennirnir eru búsettir á Vestfjörðum sem vinna að okkar sýningum en alla jafna leitum við til þeirra starfandi listamanna sem eru á svæðinu hverju sinni. Þá sérstaklega þeim sem eiga tenginu við leiklistina.

Þó við gefum ávallt allt okkar í hverja uppfærslu þá er allur gangur á því hverning sýningarnar ganga. Þegar verkið er tilbúið er það ávallt í höndum áhorfenda hvernig til hafi tekist. Til gamans höfum við tekið saman lista yfir 6 mest sýndu leikverk Kómedíuleikhússins:

 

Kómedíuleikhúsið – vinsælustu sýningarnar

Leikrit  Sýningarfjöldi

 

1.  Gísli Súrsson 330

2.  Gísli á Uppsölum 83

3. Dimmalimm 74

4. Grettir 61

5. Búkolla – Ævintýraheimur Muggs 45

6. Heilsugæslan 36

Eldri færslur