þriðjudagurinn 5. febrúar 2019

Þröstur Leó leikstýrir

Æfingar standa nú yfir á barnaleikritinu Dimmalimm. Frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu í mars. Það er að vanda einvalalið listamanna sem koma að sýningunni. Gaman er að geta þess að þrír þeirra koma frá Bíldudal og sá fjórði úr þar næsta þorpi eða frá Patreksfirði. Þar að auki er ævintýrið Dimmalimm eftir Bílddælinginn Guðmund Thorsteinsson sem var aldrei kallaður annað en Muggur.

Höfundar leikgerðar eru Bílddælingarnir Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson. Sá síðarnefndi er einnig leikstjóri sýningarinnar og er þetta í þriðja sinn sem Þröstur leikstýrir hjá okkur. Fyrst var það sýningin sem gerði allt viltaust og sýnd var fyrir uppseldum sölum trekk í trekk nefnilega Gísli á Uppsölum. Nú síðast leikstýrði Þröstur síðan Sigvalda Kaldalóns sem enn er í sýningu. 

Þröstur Leó útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1985 og fór þaðan beint í leikhúsið við tjörnina. Hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó lék hann fjölmörg hlutverk og einnig þegar leikhúsið flutti sig yfir á Listabrautina og hét eftir það Borgarleikhúsið. Meðal sýninga hans með Leikfélaginu má nefna; Dagur vonar, Þrúgur reiðinnar, Hamlet, Svar við bréfi Helgu, Fanný og Alexander og Fólkið í kjallaranum. Þröstur hefur einnig leikið í fjölmörgum sýningum Þjóðleikhússins má þar nefna Þetta er allt að koma, Koddamaðurinn, Bakkynjur, Grandavegur 7 og Dýrin í Hálsaskógi. Þröstur hefur leikið í feikilega mörgum kvikmyndum. Meðal annars Jón Leifs í Tárum úr steini og föður Nóa í Nóa albínóa í samnefndri mynd.

Þröstur Leó hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verk sín bæði Grímu- og Edduverðlaunin.