Ár frumsýninga
Hve lífið getur verið kómískt og skemmtilegt. Allt í einu er bara árið búið. Ekki nóg með það heldur er nýtt ár þegar byrjað. Það er við hæfi að við hér í atvinnuleikhúsi Vestfjarða tyllum okkur við tölvuappartið og setjum niður helstu fréttir annó 2019.
Frumsýnt í Þjóðleikhúsinu
Þetta var sannlega frumsýningarár. Því alls voru þrjú ný leikverk frumsýnd á árinu. Fyrst var það Dimmalimm sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu 16. mars. Gaman er að geta þess að Kómedíuleikhúsið hefur átt farsælt samstarf við Þjóðleikhúsið síðustu ár og aldrei að vita nema framhald verði á því. Sýningunni var afskaplega vel tekið og eftir að ævintýrinu sleppti í Þjóðleikhúsinu var farið í leikferð um landið. Alls var Dimmalimm sýnt 33 sinnum á árinu og sýningar halda áfram á nýja árinu. Fyrsta sýning þessa árs verður 19. janúar í Hofi á Akureyri.
Frumsýnt á Siglufirði
28. september var önnur frumsýning ársins, Með fjöll á herðum sér. Ljóðaleikur er tileinkaður er skáldinu Stefáni Herði Grímssyni. Flytjendur voru bræðurnir Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir. Leikurinn var unnin í samstarfi við Ljóðasetur Íslands á Siglufirði. Við frumsýndum einmitt fyrir norðan nánar tiltekið í hinum frábæra sal Gránu á Síldarminjasafninu. Eftir það var skundað til borgarinnar og sýnt í Hannesarholti. Leikurinn verður áfram á fjölunum á þessu ári m.a. í Bókasafni Kópavogs núna í janúar.
Frumsýnt á Tálknafirði
Það er engin vitleysa að við séum kölluð leikhús landsbyggðarinnar. Við ekki bara ferðumst um landið árið um kring heldur einnig frumsýnum við um land allt. Þriðja leikverk síðasta árs var Leppalúði og var það frumsýnt á Tálknafirði 13. nóvember. Eftir það var farið í heljar mikla leikferð um landið og þegar árinu lauk hafði leikurinn verið sýndur nærri 20 sinnum. Þetta er þriðja jólaleikritið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið frá stofnun. Viðtökur á Leppalúða voru frábærar og því höfum við sett stefnuna á það að færa árlega upp jólaleikrit og sýna það á landsbyggðinni. Hvað er betra til að stytta biðina en skella sér á jólaleikrit.
Leiklistarmiðstöð
Kómedíuleikhúsið hefur lengst af verið rekið úr heimahúsi. En árið 2019 varð breyting þar á þegar við gerðum samning við okkar góða bæ, Ísafjarðarbæ, um afnot af húsnæði að Vallargötu 3. Rýmið sem um ræðir hafði staðið hlutverka og ljóslaust í nærri tvo áratugi. Það eru engar ýkjur að segja að þetta hafi verið okkur mjög kærkomið og mun auka starfsemi okkar til muna. Nú þegar hefur eitt leikrit verið æft þar, Leppalúði, og núna í janúar er það æft leikritið Iðunn og eplin. Auk þess hafa verið haldin grímunámskeið fyrir Grunnskólann á Þingeyri í Leiklistarmiðstöðinni og fyrir jól var sagan Aðventa lesin af íbúum Þingeyrar. Það má því segja að Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins að Vallargötu 3 Þingeyri sé að verða að einskonar leiksamfélagi.
81 á 27
Árið 2019 var mjög ferðavænt ár. Alls sýndum við á 27 stöðum á landinu á árinu og í það heila voru sýningarnar 81 talsins. Móttökur voru hvarvetna dásamlegar. Á mörgum stöðum á landinu eru að myndast áhorfendakjarnar sem mæta duglega á sýningar okkar. Fyrir það erum við þakklát.
Ísafjarðarbær & Uppbyggingasjóður Vestfjarða
Geta skal þeirra sem leggja okkur lið. Við eigum orðið gott bakland um land allt. Við viljum bara auka það og styrkja á nýja árinu. Og það ætlum við að gjöra með því að vera áfram dugleg að ferðast um landið með sýningar okkar. Tvo trúfasta styrktaraðila eigum vér og eru það Ísafjarðarbær og Uppbyggingasjóður Vestfjarða. Án þeirra væri starfsemi okkar sjálfhætt.
Sjáumst í leikhúsinu ykkar um land allt á árinu 2020. Vegni ykkur öllum allt að sólu.
Þess óskar Kómedíuleikhúsið leikhús landsbyggðarinnar