mánudagurinn 15. júní 2020

Iðunn og eplin á 17 júní

Ókeypis í leikhús á ísó
Ókeypis í leikhús á ísó

Kómedíuleikhúsið sýnir leikritið Iðunn og eplin við Byggðasafnið á Ísafirði merkisdaginn 17. júní komandi. Sýningin hefst kl.14.00 og er aðgangur ókeypis. Leikritið Iðunn og epliln var frumsýnt í Grunnskóla Flateyrar fyrr í vetur og hefur síðan verið sýnt víða í skólum. Einsog nafnið gefur til kynna er hér sótt í hinn norræna goðaheim. Heimdallur, varðmaður goða og gyðja, segir okkur sögur úr Ásgarði. Að þessu sinni er það sagan af því þegar Iðunni og gulleplum hennar var rænt. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson, leikstjórn, leikmynd, brúður og grímur gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir.

Sýningin á 17. júní er liður í tvíhliðasamningi Kómedíuleikhússins við Ísafjarðarbæ. 

fimmtudagurinn 7. maí 2020

Kómedíuleikhúsið í áskrift

Kómedían í áskrift
Kómedían í áskrift

Nú getur þú komið í bakland Kómedíuleikhússins með því að styrkja leikhúsið með mánðarlegu framlagi. Það er einfalt að koma í áskrfit þú ferð bara inná fjármögununarsíðuna karolinafund.com og þar getur þú valið þér upphæð að vild. Einsog við segjum í leikhúsinu þá eru öll hlutverkin jafn mikilvæg. Það eru ýmsir möguleikar í áskriftinni þannig getur gerst:

Hvíslari fyrir 990.- kr. á mánuði

Miðasölustjóri fyrir 1.980.-kr mánuði

Leikmyndahönnuður fyrir 4.125.-kr á mánuði

Ljóshönnuður fyrir 5.280.- kr. á mánuði

Leikstjóri fyrir 8.910.- kr. á mánuði

Leikari fyrir 16.500.- kr á mánuði

 

Með því að leggja okkur lið þá eruð þið að efla eina atvinnuleikhús Vestfjarða með einstökum hætti. Mikið rosalega þykir okkur vænt um það.

 

Komedu í Kómedíuleikhúsáskrift á www.karolinafund.com 

miðvikudagurinn 29. apríl 2020

Við sýnum þar sem engin býr

Við sýnum þar sem engin býr
Við sýnum þar sem engin býr

Á einstökum tímum þarf að grípa til einstakra ráða. Þema þessa leikhússumars verður að sýna þar sem engin býr. Munum við hefja leik 4. júní í Haukadal í Dýrafirði, þar sem engin býr, og sýna Gísla á Uppsölum. Í lok júní sýnum við í öðrum íbúalausum dal í Selárdal í Arnarfirði. Þar sýnum við Listamaninn með barnshjartað í kirkju listamannsins. Miðasala hefst í maí.

Nú er bara spurningin. Ætli einhver mæti?

fimmtudagurinn 23. apríl 2020

Gleðilegt leikhússumar

Gísli á Uppsölum snýr aftur í sumar
Gísli á Uppsölum snýr aftur í sumar

Gleðilegt sumar öll sem eitt. Mikið er nú gott að sumarið sé komið þó það sé bara á dagatalinu, tíðin verið frekar erfið í vetur og svo þessi kóvítans veira. Hinn fyrsti dagur sumars lofar góðu hér á leikhúseyrinni, það er bjart og maður sér meira að segja yfir fjörð það hefur nú ekki alltaf verið þannig síðustu misseri. 

Kómedíuleikhúsið tekur sumrinu sérlega fagnandi og mun leikhúsið okkar yða að lífi í sumar. Þá tökum við í notkun okkar eigið leikhús, Gíslastaði í Haukadal Dýrafirði. Líklega er þetta minnsta atvinnuleikhús á Íslandi tekur aðeins 25 í sæti. Opnunarsýning leikhússins verður endurfrumsýning á einu af allra vinsælustu verkum okkar, Gísli á Uppsölum. Leikur sem var sýndur 83 sinnum bæði í Þjóðleikhúsinu og um land allt. Gísil á Uppsölum snýr aftur fimmtudaginn 4. júní á Gílsastöðum. Miðasala hefst í maí. Gísli á Uppsölum verður síðan á fjölunum alla fimmtudag í júní á Gíslastöðum Haukadal Dýrafirði.

Gleðilegt leikhússumar. 

þriðjudagurinn 14. apríl 2020

Saga Kómedíuleikhússins í stuttu máli 1

1. KÓMEDÍA VERÐUR TIL.
Árið 1997 er Kómedíuleikhúsið stofnað í Reykjavíkurborg af tveimur nýútskrifuðum (sumir segja útskúfuðum) leikurum. Fyrsta verkefni leikhússins var Kómedía ópus eitt frumsýnt um haustið. Sumarið eftir tveir stuttir trúðaleikir sýnir. Eftir það taka við stórkómískir tímar annar helmingurinn flytur af landi meðan hinn flytur útá land og tekur leikhúsið með sér.

Á tilboði hjá útgefanda
Á tilboði hjá útgefanda

Kómedíuleikhúsið hefur gefið út nýja vestfirska leiksögubók, Leiklist og list á Þingeyri. Höfundur bókarinnar er Elfar Logi Hannesson, leikari, en hann ritaði einmitt Leiklist á Bíldudal sem við gáfum út 2015. Bókin fæst nú á sérstöku hátíðarverði hjá okkur á litlar 2.900.- krónur. Pantanir berist á netfangið komedia@komedia.is 

Í þessari nýju leiklistar og listabók rekur Ellfar Logi Hannesson á fróðlegan og ferskan hátt hina einstöku leiklistar- og listasögu Þingeyrar. Fer reyndar víðar því allur Dýrafjörðurinn er undir enda falla vötn öll þangað hvort heldur það er í listinni eða lífinu. Leiklistarsagan er sögð allt frá landnámi Dýrafjarðar til nútímans. Víða er leitað fanga í listasögu svæðisins enda stendur listin á gömlum merg á öllum sviðum listanna.

Elfar Logi hefur áður ritað leiklistarsögu Bíldudals enda hefur hann að markmiði að skrá leiklistarsögu allra þorpa og bæja á Vestfjörðum. Í þessu riti bætir hann um betur með því að rekja einnig listasögu Þingeyrar. Leiklist og list á Þingeyri er önnur bókin í þessari vestfirsku leiklistarbókaröð Kómedíuleikhússins. 

fimmtudagurinn 13. febrúar 2020

Iðunn og eplin nýtt íslenskt leikverk

Iðunn og eplin er brúðu og grímusýning. Gestir fá að spreyta sig á grímuleik að sýningu lokinni.
Iðunn og eplin er brúðu og grímusýning. Gestir fá að spreyta sig á grímuleik að sýningu lokinni.

Það var hátíðardagur á Flateyri í gær, 12. febrúar, þá frumsýndi Kómedíuleikhúsið nýtt íslenskt leikrit Iðunn og eplin í Grunnskóla Flateyrar. Var þetta í fyrsta sinn sem Kómedíuleikhúsið frumsýndi á Flateyri en leikritið Iðunn og eplin er hinsvegar 47 uppfærsla Kómedíuleikhússins. Einsog nafnið gefur til kynna er hinn geggjaði goðaheimur undir í þessu nýja leikverki. Varðmaður goðanna Heimdallur er mættur til jarðar til að segja frá hinum norrænu goðum og lífinu í þeirra höll, Valhöll. Svo dregur til tíðinda þegar Iðunni er rænt og ekki nóg með það heldur einnig gulleplum hennar. Sem eru í raun töfraepli. Einu sinni í mánuði á stóra epladeginum fá goðin epli Iðunnar en nú stefnir í að goðinn verði bara gömul og grá því Iðunni og eplunum hefur verið rænt. Auðvitað var það Loki lævísi sem átti hlut að máli. Hvernig fer þetta eiginlega?

Önnur sýning á goðafræðistykkinu Iðunn og eplin var í morgun, 13. febrúar, á leikhúseyrinni í Grunnskóla Þingeyrar. Í næstu viku verða fjórar sýningar á leiknum fyrir æskuna á Ísafirði. 

Að vanda stefnum við á leikferð með Iðunn og eplin um landsbyggðina í framhaldinu á sýningunum hér vestra. 

Það er Uppbyggingasjóður Vestfjarða sem styrkir uppfærsluna á Iðunn og eplin. 

laugardagurinn 18. janúar 2020

Dimmalimm í Hofi

Dimmalimm á sviði
Dimmalimm á sviði

Hin ástsæla sýning Dimmalimm verður sýnd í Hofi Akureyri núna á sunnudag 19. janúar. Aðeins örfá sæti laus þegar þetta er ritað svo tryggið þér miða strax í dag á miðasöluvefnum tix.is 

Leikritið Dimmalimm var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í mars 2019. Síðan þá hefur leikurinn verið sýndur víða um land en sýningin í Hofi er sú 34. Dimmalimm er án efa eitt ástsælasta ævintýri þjóðarinnar. Samið og myndskreytt svo einlæglega og fagurlega af bílddælska listamanninum Guðmundi Thorsteinssyni eða Muggi. 

Fleiri sýningar á Dimmalimm eru fyrirhugaðar á árinu svo fylgist vel með hér á heimasíðunni okkar. Hér eru alltaf einhverjar ævintýralegar fréttir.

mánudagurinn 6. janúar 2020

Annáll Kómedíuleikhússins 2019

Ár frumsýninga
Ár frumsýninga

Hve lífið getur verið kómískt og skemmtilegt. Allt í einu er bara árið búið. Ekki nóg með það heldur er nýtt ár þegar byrjað. Það er við hæfi að við hér í atvinnuleikhúsi Vestfjarða tyllum okkur við tölvuappartið og setjum niður helstu fréttir  annó 2019. 

 

Frumsýnt í Þjóðleikhúsinu

Þetta var sannlega frumsýningarár. Því alls voru þrjú ný leikverk frumsýnd á árinu. Fyrst var það Dimmalimm sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu 16. mars. Gaman er að geta þess að Kómedíuleikhúsið hefur átt farsælt samstarf við Þjóðleikhúsið síðustu ár og aldrei að vita nema framhald verði á því. Sýningunni var afskaplega vel tekið og eftir að ævintýrinu sleppti í Þjóðleikhúsinu var farið í leikferð um landið. Alls var Dimmalimm sýnt 33 sinnum á árinu og sýningar halda áfram á nýja árinu. Fyrsta sýning þessa árs verður 19. janúar í Hofi á Akureyri.

 

Frumsýnt á Siglufirði

28. september var önnur frumsýning ársins, Með fjöll á herðum sér. Ljóðaleikur er tileinkaður er skáldinu Stefáni Herði Grímssyni. Flytjendur voru bræðurnir Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir. Leikurinn var unnin í samstarfi við Ljóðasetur Íslands á Siglufirði. Við frumsýndum einmitt fyrir norðan nánar tiltekið í hinum frábæra sal Gránu á Síldarminjasafninu. Eftir það var skundað til borgarinnar og sýnt í Hannesarholti. Leikurinn verður áfram á fjölunum á þessu ári m.a. í Bókasafni Kópavogs núna í janúar.

 

Frumsýnt á Tálknafirði

Það er engin vitleysa að við séum kölluð leikhús landsbyggðarinnar. Við ekki bara ferðumst um landið árið um kring heldur einnig frumsýnum við um land allt. Þriðja leikverk síðasta árs var Leppalúði og var það frumsýnt á Tálknafirði 13. nóvember. Eftir það var farið í heljar mikla leikferð um landið og þegar árinu lauk hafði leikurinn verið sýndur nærri 20 sinnum. Þetta er þriðja jólaleikritið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið frá stofnun. Viðtökur á Leppalúða voru frábærar og því höfum við sett stefnuna á það að færa árlega upp jólaleikrit og sýna það á landsbyggðinni. Hvað er betra til að stytta biðina en skella sér á jólaleikrit.

 

Leiklistarmiðstöð

Kómedíuleikhúsið hefur lengst af verið rekið úr heimahúsi. En árið 2019 varð breyting þar á þegar við gerðum samning við okkar góða bæ, Ísafjarðarbæ, um afnot af húsnæði að Vallargötu 3. Rýmið sem um ræðir hafði staðið hlutverka og ljóslaust í nærri tvo áratugi. Það eru engar ýkjur að segja að þetta hafi verið okkur mjög kærkomið og mun auka starfsemi okkar til muna. Nú þegar hefur eitt leikrit verið æft þar, Leppalúði, og núna í janúar er það æft leikritið Iðunn og eplin. Auk þess hafa verið haldin grímunámskeið fyrir Grunnskólann á Þingeyri í Leiklistarmiðstöðinni og fyrir jól var sagan Aðventa lesin af íbúum Þingeyrar. Það má því segja að Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins að Vallargötu 3 Þingeyri sé að verða að einskonar leiksamfélagi. 

 

81 á 27

Árið 2019 var mjög ferðavænt ár. Alls sýndum við á 27 stöðum á landinu á árinu og í það heila voru sýningarnar 81 talsins. Móttökur voru hvarvetna dásamlegar. Á mörgum stöðum á landinu eru að myndast áhorfendakjarnar sem mæta duglega á sýningar okkar. Fyrir það erum við þakklát. 

 

Ísafjarðarbær & Uppbyggingasjóður Vestfjarða

Geta skal þeirra sem leggja okkur lið. Við eigum orðið gott bakland um land allt. Við viljum bara auka það og styrkja á nýja árinu. Og það ætlum við að gjöra með því að vera áfram dugleg að ferðast um landið með sýningar okkar. Tvo trúfasta styrktaraðila eigum vér og eru það Ísafjarðarbær og Uppbyggingasjóður Vestfjarða. Án þeirra væri starfsemi okkar sjálfhætt. 

 

Sjáumst í leikhúsinu ykkar um land allt á árinu 2020. Vegni ykkur öllum allt að sólu.

Þess óskar Kómedíuleikhúsið leikhús landsbyggðarinnar 

fimmtudagurinn 2. janúar 2020

Jóla- og þrettándaskemmtun Ísafirði

Komum saman og kveðjum jólin
Komum saman og kveðjum jólin

Ísafjarðarbær býður öllum til jóla- og þrettándaskemmtunnar sunnudaginn 5. janúar kl. 14:00 á sal Grunnskólans á Ísafirði. Aðgangur er ókeypis. 

Fjölbreytt skemmtan fer fram:
Álfadrottningin og álfakóngurinn syngja og spila lög að hætti stundarinnar.
Sýnt verður brot úr jólaleikritinu Leppalúði.
Dansdeild Listaskóla Rögnvaldar sýnir brot úr dansleiknum Litla stúlkan með eldspýturnar
Flutt verða álfa- og þrettándaljóð og hver veit nema Grýla mæti á svæðið með Hurðaskelli uppáhaldsson sinn.
Steini mætir með stóra heita súkkulaði pottinn sinn og þar fer engin ofan í heldur fá allir heitt súkkulaði!

Það er Kómedíuleikhúsið sem hefur umsjón með Jóla og þrettándaskemmtun fjölskyldunnar. 

Eldri færslur