sunnudagurinn 22. júlí 2018

Sumarfrí

Gísli snýr aftur í ágúst
Gísli snýr aftur í ágúst

Þar kom að því. Eftir sérlega annasamt og gott leikár tökum við sumarfrí. Meðan við hlöðum okkar listrænu rafhlöðu notum við tímann til að huxa og plana komandi leikár. Það er næsta víst að það verður sérlega kómískt.

Snúum aftur til leiks 14. ágúst með sýningu á Gísla Súrssyni fyrir nemendur Háskólaseturs Vestfjarða. Gaman er að geta þess að þetta er 326 sýning á verðlaunaleiknum vinsæla. Enn kómískara að geta þess að í þessari sömu viku miðs ágústmánaðar snýr annar Gísli aftur. Nefnilega Gísli á Uppsölum sem verður sýndur á Bláberjadögum í Súðavík. 

Við hlökkum til að kynna nýtt leikár fyrir ykkur. Njótum stundar og tíðar, hvernig sem viðrar. 

mánudagurinn 2. júlí 2018

Lokasýning á EG

Á helginni lýkur sýningum á leik okkar EG. Leikurinn sá fjallar um athafna- og hugsjónamanninn Einar Guðfinnsson í Bolungavík. Leikurinn var frumsýndur í lok maí síðastliðinn og hefur verið sýndur fyrir fullu húsi allar götur síðan. Nú er komið að lokum og verður síðasta sýning á laugardaginn komandi 7. júlí kl.17.00. Næst síðasta sýning verður sama dag kl.16.00 og því verða ekki nema 10 mín á milli sýninga. Það er vel við hæfi að leikurinn kveðji nú á helginni því þá fer einmitt fram hin vinsæli Markaðsdagur í Bolungavík sem er reyndar orðin að helgarhátíð í vikinni fögru. 

Miðasasla á síðustu tvær sýningar á EG er þegar hafin og gengur sérlega vel. Miðasala í Einarshúsi í Bolungavík og miðasölusíminn er 456 7901.

EG hefur fengið afrabragðsviðtökur áhorfenda og við hæfi að þeir hafi lokaorðið hér:

,,Þetta er falleg og hjartnæm sýning."
Annska Arndal

,,Þessir rúmlega 120 km. sem eknir voru gagngert til að sjá þessa sýningu voru sko algjörlega þess virði. Frábær sýning og vel gerð."
Jónína Hrönn Símonardóttir

,,Algjörlega frábær sýning, mæli með henni."
Gunnhildur Björk Elíasdóttir

,,Þetta er frábær sýning sem ég mæli óhikað með."
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.

fimmtudagurinn 21. júní 2018

Geisli komin út

Geisli hefur að geyma einstaka sögu þorps
Geisli hefur að geyma einstaka sögu þorps

Kómedíuleikhúsið hefur gefið út bókina Geisli Bíldudal 1946 - 1960 úrval. Hér er á ferðinni einstök útgáfa er inniheldur úrval úr blaðinu Geisla er gefið var út á Bíldudal um miðja síðustu öld. Geisli var í raun safnaðarblað ritstýrt af hinum mæta klerki Jóni Kr. Ísfeld. Það var hinsvegar ekki bara kristilegt efni í Geisla heldur og fréttir úr þorpinu. Klerkur hafði fjölbreytt og gott fréttanef því víst var þorpslífið fangað í hverju tölublaði með fréttum af veðri, atvinnumálum, gestakomum í þorpið, giftingum, mannamótum og öllu mögulegu. Geisli gefur sannlega einstaka mynd af þorpi á Vestfjörðum í einn og hálfan áratug.

Þessi bók inniheldur úrval úr Geisla en þó er öllu kristilegu efni sleppt þó það sé nú allt gott og sérlega blessað. 

Geisli fæst hér hjá Kómedíuleikhúsinu. Pantanir berist á netfangið komedia@komedia.is

Einnig er Geisli til sölu í verslunum Eymundsson um land allt.

Til gamans má geta þess að Geisli er 20 verkið sem við gefum út. 

mánudagurinn 28. maí 2018

2 sýningar á EG í vikunni

EG slær í gegn í Einarshúsi
EG slær í gegn í Einarshúsi

Okkar 42 verk var frumsýnt í liðinni viku í Einarshúsi Bolungavík. Um er að ræða kraftmikla- og sögulega sýningu er fjallar um hugsjóna og athafnamanninn Einar Guðfinnsson, eða EG. Nú þegar hafa verið sýndar þrjár sýningar á EG við fanta fínar viðtökur og aðsókn. Í þessari viku verða tvær sýningar á EG og eru þegar örfá sæti laus á aðra þeirra. Fyrri sýningin verður á fimmtudag 31. maí kl.20.00. Seinni sýningin verður á Sjómannadag, sunnudaginn 3. júní kl.17.00. Miðasala er í blússandi gangi í Einarshúsi sími 456 7901. Sýnt verður í Einarshúsi og er rétt að geta þess að ólíkt öðrum sýningum Kómedíuleikhússins sem jafnan hafa verið ferðasýningar þá verður EG aðeins sýnt í Einarshúsi Bolungavík.

Leikari í EG er Elfar Logi Hannesson sem einnig er höfundur leiksins ásamt Rúnar Guðbrandssyni sem jafnframt leikstýrir. Magnús Arnar Sigurðarson hannar lýsingu og höfundur tónlistar er Björn Thoroddsen.

EG er 42 verkefni Kómedíuleikhússins.

þriðjudagurinn 22. maí 2018

EG uppselt á frumsýningu

Uppselt á frumsýningu en miðasala hafin á næstu sýningar
Uppselt á frumsýningu en miðasala hafin á næstu sýningar

Kómedíuleikhúsið frumsýnir brakandi ferskan og nýjan einleik, EG, miðvikudaginn 23. maí. Um er að ræða verk um hinn einstaka athafnamann Einar Guðfinnsson í Bolungarvík. Sýnt verður á söguslóðum eða í Einarshúsi í Bolungarvík. Nú þegar er orðið uppselt á frumsýninguna. En miðasala er í blússandi gangi á 2. sýningu sem verður fimmtudaginn 24. maí og einnig á 3. sýningu sunnudaginn 27. maí kl.16.00. Miðasala fer fram í Einarshúsi Bolungarvík. Miðasölusíminn er 456 7901.
EG er einstakur einleikur um athafnamanninn og föður Bolungavíkur Einar Guðfinnsson. Ungur að árum hóf Einar útgerð á sexæringi. Hugurinn hans stefndi hátt og áður en yfir lauk hafði hann byggt upp mörg fyrirtæki í útgerð og margþættum rekstri. Hér er á ferðinni kraftmikil leiksýning þar sem róið er á ýmis mið og gjarnan teflt á tæpasta vað.
Höfundar leiksins eru þeir Elfar Logi Hannesson og Rúnar Guðbrandsson. Sá fyrrnefndi er í hlutverki Einars en Rúnar leikstýrir. Höfundar tónlistar er Björn Thoroddsen en lýsingu hannaði Magnús Arnar Sigurðsson. Það er hið vestfirska Kómedíuleikhús sem setur EG á senu. 
EG er 42 verkefni Kómedíleikhússins sem var stofnað árið 1997. 

mánudagurinn 23. apríl 2018

Lokasýning á Gísla á Uppsölum

Gísli yfirgefur senuna á fimmtudag
Gísli yfirgefur senuna á fimmtudag

Þá er bara komið að því. Lokasýning á hinum vinsæla leikverki Gísli á Uppsölum verður núna í vikunni. Gísli hefur nú verið sýndur um land allt og kannski táknrænt að sýningin verði í Þorlákshöfn. Þangað fór nú söguhetjan aldrei. En betra seint en ekki. Lokasýningin á Gísla á Uppsölum verður semsagt í Versölum í Þorlákshöfn á fimmtudag 26. apríl og hefst kl.20.00.

Verður þetta 83 sýning á leiknum sem gerir hana að þeirri næst sýningarmestu í sögu Kómedíuleikhússins. Annar Gísli þessi súri á metið með 320 sýningar og er hvergi nærri hættur. Við í Kómedíuleikhúsinu erum skýjum ofar með þær viðtökur sem landsmenn hafa sýnt okkar Gísla á Uppsölum. Ykkar orð eru okkar bestu laun. Gangi ykkur allt að sólu. 

föstudagurinn 20. apríl 2018

Uppselt á Gísla á Uppsölum

Ævintýrið í kringum sýningu okkar á leikritinu Gísli á Uppsölum hefur verið með hreinum ólíkindum. Leikurinn hefur nú verið sýndur yfir 80 sinnum um land allt en nú fer fjörinu að ljúka. Næst síðasta sýning sem jafnframt er sú 82 er núna á helginni og það er uppselt. Já, ekkert öðruvísi með það maður minn, einsog vinur okkar Hemmi Gunn hefði orðað svo snildarlega. Síðasta tækifæri til að sjá sýninguna um Gísla á Uppsölum verður fimmtudaginn 26. apríl og það í Þorlákshöfn. Sýnt verður í Versölum. Eftir það tekur við nýtt leikhúsævintýri því 17. maí frumsýnum við nýjan sögulegan einleik EG. Leikurinn verður aðeins sýndur á söguslóð eða í Einarshúsi í Bolungarvík. 

föstudagurinn 13. apríl 2018

80 sýning á Gísla á Uppsölum

Gísli í 80 sinn
Gísli í 80 sinn

Leikritið vinsæla um Gísla á Uppsölum hefur sannlega slegið í gegn. Nú er Gísli kominn austur og var fyrst sýndur í Egilsbúð Neskaupstað. Núna á laugardag, 14. apríl, verður Gísli á fjölunum í Valhöll Eskifirði. Er það jafnframt 80 sýning á leiknum. Hverjum hefði nú dottið það í hug að sýningarnar yrðu svona margar og víða. 

Nú fer hver að verða síðastur að sjá þessa vinsælu sýningu því það eru aðeins tvær sýningar eftir og er uppselt á aðra þeirra. En laust á lokasýninguna sem verður í Versölum Þorlákshöfn fimmtudaginn 26. apríl kl.20.00. 

mánudagurinn 9. apríl 2018

Lokasýningar á Gísla á Uppsölum

Nokkur þúsund manns hefur sótt sýninguna
Nokkur þúsund manns hefur sótt sýninguna

Leikæntýri Gísla á Uppsölum hefur sannlega verið sögulegt. Fáa óraði fyrir því að leikurinn yrði svo víðförull yrði ekki bara sýndur í Þjóðleikhúsinu heldur og um land allt. En sú var og raunin en nú fer sýningum á Gísla á Uppsölum loks að ljúka. Lokasýningar verða núna í apríl hvar leikurinn verður sýndur á fimm stöðum á jafnmörgum stöðum.

Á helginni heldur Gísli í annan gang austur á land. Leikurinn hefst á föstudag í Egilsbúð á Neskaupstað. Daginn eftir verður Gísi mættur í Valhöll á Eskifirði. Sunnudaginn 22. apríl verður Gísli sýndur í afmælisveislu ónefnds rakara í Reykjavíkurborg. Allra síðasta sýning verður síðan 26. apríl í Versölum í Þorlákshöfn og verður það jafnframt 82 sýning á einleiknum Gísli á Uppsölum. 

Kómedíuleikhúsið vill nota tækifærið og þakka þeim nokkur þúsund áhorfenda sem hafa komið á sýningu okkar um Gísla á Uppsölum. 

þriðjudagurinn 3. apríl 2018

320 sýning á Gísla Súrssyni

320 sinnum Gísli Súrsson en samt enn ferskur
320 sinnum Gísli Súrsson en samt enn ferskur

Það er orðin gömul en þó ekkert þreytt saga að fáum leyst vel á það í upphafi þegar við ákváðum að gera leiksýningu uppúr Gísla sögu Súrssonar. Hvað þá að það ætti að vera einleikur. Engin hafði trú á því að þetta ætti eftir að virka. Leika einhverja eldgamla og afdankaða Íslendingasögu um einhvern súran víking. En er það ekki einmitt þegar fæstum lýst vel á hugmyndina sem ráð er að frankvæma hana. Það höfum við í Kómedíuleikhúsinu sannlega gjört og vitið bara hvað á morgun verður 320 sýning á einleiknum Gísli Súrsson. 

Miðvikudaginn 4. apríl verður heldur betur söguleg stund í Haukadal. Þá verður verðlaunaleikritið Gísli Súrsson sýnt í 320 sinn. Uppelst er á sýninguna sem er á ensku en til gamans má geta þess að síðustu ár höfum við mun oftar sýnt leikinn á ensku en á frummálinu. Svona er nú leikhúsið ævintýralegt og óvænt. Þú veist aldrei áður en þú leggur af stað hvert leikurinn mun leiða þig. Eina sem þú getur gert er að smæla og feta hina einstöku leikhússlóð hverju sinni. Það höfum við sannlega gert með sýningu okkar Gísli Súrsson sem hefur verið á fjölunum síðan í febrúar 2005. Við höfum verið svo lánsöm að fá að ferðast um land allt með sýninguna og mörgum sinnum útfyrir landsteinana. Gísli hefur meira að segja verið sýndur í fæðingarþorpi sínu Súrnadal í Noregi. Í dag er leikurinn langoftast sýndur á öðrum söguslóðum hins Súra nefnilega í Haukadal í Dýrafirði. Nánar tiltekið á Gíslastöðum æva gömlu félagsheimili, þó ekki þúsund ára, en hefur verið breytt svo listilega að innan í víkingaskála. 

Það er mikið framundan hjá Gísla Súra í Haukadal í sumar fjölmargir hópar eru þangað væntanlegir. Gestir munu ekki bara sjá verðlaunaleikritð heldur og feta í spor sögupersónanna. Því hver ferð endar með sögugöngu um Haukadal. 

Að sjálfsögðu stefnum við að þvi að sýna okkar Gísla Súrsson eigi sjaldnar en 400 sinnum helst oftar. Hver hefði trúað því?

Eldri færslur