sunnudagurinn 28. apríl 2019

Leikritaútgáfa Kómedíuleikhússins

Dimmalimm er nýjasta leikrit okkar og fæst nú einnig á prenti
Dimmalimm er nýjasta leikrit okkar og fæst nú einnig á prenti

Kómedíuleikhúsið hefur síðan 2016 gefið leikverk sín út um leið og þau eru frumsýnd. Er leikhúsið eitt leikhúsa á öllu landinu sem þetta gjörir. Leikritin eru gefin út í heild sinni í veglegri leikskrá um hvert verk fyrir sig. Þannig geta leikhúsgestir kynnt sér handrit leiksins bæði fyrir sýningu, meðan á henni stendur eða þá bara að sýningu lokinni. Kómedíuleikhúsið er afskaplega stolt af þessari leikritaútgáfu sinni og ef eitthvað ætlum við bara að halda henni áfram.

Það er nú ekki á hverjum degi sem íslensk leikrit hafa og eða eru almennt gefin út svo einhver verður að bæta úr því. Við leggjum okkar verk á vogaskálarnar til eflingar leikritaútgáfu á Íslandi. 

Leikrit okkar fást á hverjum sýningarstað okkar hverju sinni. Einnig er hægt að panta þau með því að senda okkur tölvupóst komedia@komedia.is. 

Verðið er alveg sérstaklega kómískt eða aðeins 500.- krónur. Já, þú færð eitt stykki leikverk einn rauðan.

Svo er náttúrulega best að vera áskrifandi af leikritum Kómedíuleikhússins. Þannig færðu nýjustu verkin um leið og þau koma út. Auðvitað gerum við sérlega vel við okkar áskrifendur því þú færð tvö leikrit, leikskrár, á verði einnar. Þannig getur þú glatt fleiri í kringum þig með einstakri leikritagjöf. Ef þú vilt gerast áskrifandi af leikritum Kómedíuleikhússins þá sendu okkur póst á komedia@komedia.is

Þau leikrit sem koma hafa út eru:

 

Gísli á Uppsölum, 2016

EG, 2018

Sigvaldi Kaldalóns, 2018

Gísli Súrsson á ensku, 2019

Dimmalimm, 2019

 

Næsta leikrit kemur út í júní en það er Listamaðurinn með barnshjartað, 2019, en leikurinn verður einmitt sýndur á söguslóðum í Selárdal í júnílok.