þriðjudagurinn 26. mars 2013

Súðavíkursamningur

Kómísk stemning í Súðavík
Kómísk stemning í Súðavík
1 af 2

Í dag var gleðidagur í herbúðum Kómedíuleikhússins. Við fórum til Súðavíkur og hittum þar fyrir sveitarstjórann sjálfan Ómar Má og páruðum undir verkefnasamning við Súðavíkurhrepp. Hér er á ferðinni geggjaður samningur fyrir báða aðila og næsta víst að báðir munu hagnast. Þessi verkefnasamningur Kómedíuleikhússins við Súðavíkurhrepp er fyrir yfirstandandi ár og felur í sér eftirtalin verkefni:

Ein leiksýning fyrir leik- og grunnskóla Súðavíkur.

Ein uppákoma í Melrakkasetrinu fyrir alla fjölskylduna.

Ein uppákoma á Bláberjadögum fyrir alla fjölskylduna.

Ein uppákoma á Miðaldahátíð í Heydal um er að ræða bókmenntadagskrá með leikrænu ívafi.

 

Samningur sem þessi skiptir miklu máli í rekstri og lífi Kómedíuleikhússins. Það er nú sjaldan verra að vera búinn að negla niður föst verkefni á viðkomandi ári og hvað þá fram í tímann.

Þess má geta að við sendum samskonar erindi um verkefnasamning á bæjar- og sveitarfélög á Íslandi. Súðavíkurhreppur var fyrstur til að svara og samþykkja. Tvö sveitarfélög eru í viðræðum við okkur. Eitt bæjarfélag sagði strax nei og nokkur hafa ekki svarað. Einsog lesa má hér eru spennandi tímar framundan og þið getið rétt ýmindað ykkur að menn bíða spenntir dag hvern við hina kómísku bréfalúgu. Skyldi eitthvað detta inn á morgun?

miðvikudagurinn 13. mars 2013

Leikhúspáskar á Ísó

Föstudagurinn langi verður sannarlega langur í leikhúsinu á Ísafirði. Þann dag mun Kómedíuleikhúsið standa fyrir sérstökum Leikhúspáskum í Hömrum Ísafirði. Alls verða þrjár sýningar sýndar þann daginn á tveimur leikverkum úr smiðju Kómedíu. Veislan hefst með sýningu á ævintýraleiknum vinsæla Búkolla - Ævintýraheimur Muggs kl.14. Hér er á ferðinni ævintýralega sýning fyrir börn alveg frá 2 - 92 ára og uppúr. Þremur tímum síðar eða kl.17 verður nýjasta leikverk Kómedíuleikhússins sýnt Sigvaldi Kaldalóns. Önnur sýning verður síðan kl.20. Leikverkið um Sigvalda Kaldalóns hefur fengið frábærar viðtökur og hefur verið uppselt á allar sýningar til þessa. Miðasala á allar sýningar er þegar hafin í Vestfirzku verzluninni á Ísafirði. Einnig er hægt að panta miða í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 891 7025.

fimmtudagurinn 7. mars 2013

Engin Sigvaldi Kaldalóns á föstudag

Sigvaldi Kaldalóns hefur slegið í gegn fyrir vestan
Sigvaldi Kaldalóns hefur slegið í gegn fyrir vestan

Því miður verðum við að aflýsa fyrirhugaðri sýningu á Sigvalda Kaldalóns sem átti að var á morgun föstudag vegna veikinda. En örvæntið eigi. Næsta sýning á leikritinu Sigvaldi Kaldalóns verður um páska nú í lok mars mánaðar. Sýnt verður föstudaginn langa 29. mars kl.17 í Hömrum Ísafirði. Miðasala á sýninguna er þegar hafin í Vestfirzku verzluninni og í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 891 7025. 

Miðaverð á sýninguna er aðeins 2.900.- kr. 

mánudagurinn 4. mars 2013

Act alone tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson hefur verið á dagskrá Act alone
Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson hefur verið á dagskrá Act alone

Hin alvestfirska og einleikna leiklistarhátíð Act alone var í dag tilnefnd til Eyrarrósarinnar. Þetta er sannarlega stór dagur í vestfirsku leiklistarlífi. Act alone var fyrst haldin á Ísafirði árið 2004 og verður því tíunda hátíðin haldin í ár. Act alone hefur sannarlega farið sínar eigin leiðir og vakið óskipta athygli enda líklega ein flottasta listahátíð landsbyggðarinnar. Kómedíuleikhúsið hefur sýnt nokkrum sinnum á Act alone auk þess sem leikhússtjóri vori er stofnandi og listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

Tvö önnur frábær verkefni á landsbyggðinni eru tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár. Það eru Skaftfell miðstöð myndlistar á Austurlandi og Eistnaflug þungrokkshátíð á Neskaupsstað. Eyrarrósin verður afhend í næstu viku, 12. mars í Hofi á Akureyri. 

Kómedíuleikhúsið óskar Act alone sem og Vestfirðingum öllum til hamingju með þennan merkisdag í Vestfirskri leiklistarsögu. 

fimmtudagurinn 28. febrúar 2013

Sigvaldi á sunnudag

Dagný Arnalds og Elfar Logi Hannesson á frumsýningu
Dagný Arnalds og Elfar Logi Hannesson á frumsýningu

Sérstök aukasýning verður á leikritinu Sigvaldi Kaldalóns um helgina. Verkið var frumsýnt um síðustu helgi og sýnt tvívegis fyrir troðfullum Hömrum. Sigvaldi Kaldalóns verður á fjölunum í Hömrum núna á sunnudag 3. mars kl.20. Miðasala á sýninguna er þegar hafin og stendur yfir í Vestfirzku verzluninni á Ísafirði. Einnig er hægt að panta miða í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 891 7025. 

Leikritið Sigvaldi Kaldalóns fjallar um ár Sigvalda í Djúpinu. En þar bjó hann í ein ellefu ár og starfaði sem læknir í hinu afskekkta og víðferma læknishéraði sem var öll Snæfjallaströndin og alla leið í Ögurhrepp að Æðey ógleymdri. Þrátt fyrir mikið annríki í læknisstörfunum gaf hann sér tíma til að semja lög eiginlega gott betur en það því hann samdi ein 100 lög á þessum rúma áratug. Mörg þessara laga koma við sögu í sýningunni má þar nefna perlur á borð við Ég lít í anda liðna tíð, Þótt þú langförull legðir og Vorvísur. Það er Dagný Arnalds sem sér um tónlistarflutning og söng í sýningunni. Höfunndur og leikari er Elfar Logi Hannesson. 

Sigvaldi Kaldalóns er 33 uppfærsla Kómedíuleikhússins en nánast öll verkefni leikhússins tengjast sögu Vestfjarða. 

mánudagurinn 25. febrúar 2013

Uppselt alla helgina á Sigvalda

Frá frumsýningu ljósmyndina tók Matthildur HelgaogJónudóttir
Frá frumsýningu ljósmyndina tók Matthildur HelgaogJónudóttir

Um helgina frumsýndi Kómedíuleikhúsið leikritið Sigvaldi Kaldalóns. Óhætt er að segja að vel hafi verið tekið í sýninguna því uppselt var á báðar sýningar helgarinnar. Því hefur verið ákveðið að blása til aukasýningar um næstu helgi. Sýnt verður sunnudaginn 3 .mars og hefst sýningin kl.20. Miðasala er þegar hafin og fer fram í Vestfirzku verzluninni á Ísafirði. Einnig er hægt að panta miða í miðasölusíma Kómedíu 891 7025.

Leikritið Sigvaldi Kaldalóns fjallar um ár þessa ástsæla listamanns fyrir vestan nánar tiltekið í Ísafjarðardjúpi. Þar dvaldi hann í ein ellefu ár sem læknir. Þessi tími var um margt merkilegur í ævi doktorsins og tónskáldsins bæði hvað varðar listina og lífið. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson. Dagný Arnalds gerir allt í senn leikur, syngur og spilar einsog engill. 

föstudagurinn 22. febrúar 2013

Frumsýningardagur en samt komin aukasýning

Frumsýning á nýju íslensku leikverki í kvöld
Frumsýning á nýju íslensku leikverki í kvöld

Runnin er upp frumsýningardagur. Í kvöld frumsýnir Kómedíuleikhúsið nýtt íslenskt leikrit Sigvaldi Kaldalóns. Sýnt er í Hömrum á Ísafirði og nú þegar er orðið uppselt. En engar áhyggjur það er önnur sýning á sunnudag kl.20 en sá dagur ber einmitt upp á þeim stórgóða Konudegi. Enn eru laus sæti á þá sýningu. Einnig hefur verið bætt við einni aukasýningu eftir viku. Nánar tiltekið sunnudaginn 3. mars kl.20. Sala á báðar sýningarnar er þegar hafin og stendur yfir í Vestfirzku verzluninni á Ísafirði. Einnig er hægt að bóka miða í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 891 7025.

Rétt er að geta þess að í tengslum við sýninguna er boðið upp á einstaka veislu í mat og menningu í samstarfi við hinn rómaða veitingastað Húsið. Boðið er uppá tveggja rétta að hætti Hússins og leikhúsmiða á aðeins 5.800.- kr. 

Það er Elfar Logi Hannesson sem er höfundur leikverksins um Sigvalda Kaldalóns og bregður hann sér einnig í hlutverk doktorsins og tónskáldsins ástsæla. Listakonan Dagný Arnalds sér um hljóðfærleik, söng og leik. Leikritið fjallar um ár Sigvalda í Ísafjarðardjúpi en þar dvaldi hann í ellefu ár og var sá tími mjög sögulegur og ekki síður skapandi. Á þessum tíma samdi hann um 100 lög og eru mörg þeirra enn vinsæl meðal þjóðarinnar. Lögin eru sungin á allrahanda mannamótum alveg frá skírn til giftingar og loks grafar. 

mánudagurinn 18. febrúar 2013

Miðasala á Sigvalda Kaldalóns er hafin

Kómedíuleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt leikverk Sigvaldi Kaldalóns í Hömrum á Ísafirði núna á föstudag kl.20. Önnur sýning verður á sunnudag sem er Konudagur og hefst sú sýning einnig kl.20. Aðeins verða þessar tvær sýningar í Hömrum og rétt er að geta þess að sætin eru ekki mörg. Enda hefur Hömrum verið umbyllt fyrir Sigvalda og fer sýningin fram á gólfinu en ekki uppá senunni sjálfri. 

Miðasala á báðar sýningarnar á Sigvalda Kaldalóns er hafin í Vestfirzku verzluninni á Ísafirði. Miðaverð er aðeins 2.900.- kr og að sjálfsögðu er posi á staðnum. Kómedíuleikhúsið hefur farið í samstarf við hið vinsæla stað Húsið á Ísafirði. Saman bjóðum við uppá einstaka veislu í mat og menningu. Tveggja rétta að hætti Hússins og leiksýning á aðeins 5.800.- kr. Miðasölusími Kómedíuleikhúsins er 891 7025. 

föstudagurinn 15. febrúar 2013

Drakúla í fyrsta sinn á hljóðbók

Kómedíuleikhúsið hefur gefið út nýja hljóðbók sem vissulega sætir nokkrum tíðindum. Í fyrsta sinn á Íslandi kemur út á saga Bram Stoker um greifann Drakúla út á hljóðbók. Drakúla Makt myrkranna er sannarlega saga sem hefur haft meiri áhrif en menn kannski kæra sig um. Sagan var fyrst gefin út á Íslandi um þar síðustu aldamót og vakti vissulega strax athylgi og hefur spenna fyrir sögunni atarna síðst minnkað.

Drakúla Makt myrkranna fæst á heimasíðu Kómedíuleikhússins og er frí heimsending um land allt. Hljóðbókin fæst einnig í fjölmörgum verslunum um land allt m.a. í Eymdunsson og Vestfirzku verzluninni.  

miðvikudagurinn 13. febrúar 2013

Veisla í mat og menningu

Veisla í mat og menningu
Veisla í mat og menningu

Það styttist í fyrstu frumsýningu Kómedíuársins sem er á nýju íslensku leikverki um tónskáldið ástsæla Sigvalda Kaldalóns. Frumstýnt verður föstudaginn 22. febrúar í Hömrum og það er sannarlega ástæða til að fara að hlakka til. Því boðið verður sannarlega upp á mikla veislu í mat og menningu. Já, þú last rétt, mat. Í tenglsum við sýninguna býður hinn rómaði veitingastaður Húsið uppá matarveislu fyrir sýningu. Við erum að tala um tveggja rétta veislu að hætti Hússins. Verðið fyrir þessa einstöku veislu í mat og menningu er bara grín eða aðeins 5.800.- Önnur sýning á Sigvalda Kaldalóns verður sunnudaginn 24. febrúar sem ber upp á hinum frábæra Konudegi. Væri nú ekki vitlaust hjá karlpeningnum að bjóða sínum betri helming í veislu í mat og menningu í tilefni dagsins. 

Forsala á báðar sýningarnar hefst mánudaginn 18. febrúar kl.12.12 í Vestfirzku verzluninni. Miðasölusími er 891 7025. 

Eldri færslur