Kómedíuleikhúsið með ókeypis leiklistarnámskeið
Hin árlega hátíð Veturnætur hefst í Ísafjarðarbæ á morgun og stendur alveg fram yfir helgi. Kómedíuleikhúsið tekur þátt í hátíðinni með þremur viðburðum. Á föstudag kl.15 verður ókeypis leiklistarnámskeið fyrir börn í Ísafjarðarbæ. Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 6 - 10 ára og fer fram í aðstöðu leikhússins í Tónlistarskóla Ísafjarðar, gengið inn í portinu fyrir aftan Hamra. Farið verður í leiki, spuna og allskonar sprell.
Á laugardag verður mikið um að vera í herbúðum Kómedíuleikhússins. Dagurinn hefst með Vestfirskum húslestri kl.13.15 þar sem fjallað verður um fossa með því m.a. að flytja ljóð um þá. Um kveldið verður svo fyrsta frumsýning leikársins. Þá verður flutt nýtt íslenskt leikrit Fjalla-Eyvindur. Frumsýningin verður um margt sérstök því hún mun fara fram utandyra. Nánartiltekið í Garðinum við Húsið á Ísafirði. Fjörið hefst kl.20.30 þegar áhorfendum gefst geggjað tækifæri að búa sig undir útiveruna með gómsætri súpu að hætti Hússins. Sýningin verður síðan í Garðinum og að henni lokinni verður slegið upp dansiballi með kontrý sveitinni Crazy Horse.
Það er sannarlega ástæða til að taka vel á móti vetrinum og hvað er þá betra en að gera það með list og menningu.