fimmtudagurinn 6. febrúar 2014

Fjalla-Eyvindur á Eyvindarstofu

Fjalla-Eyvindur fer yfir fjöll og fjörðu og alla leið á Blönduós
Fjalla-Eyvindur fer yfir fjöll og fjörðu og alla leið á Blönduós

Á Blönduósi er einstök stofa sem nefnist Eyvindarstofa. Einsog nafnið gefur til kynna er stofan helguð mesta útilegumanni allra tíma á Íslandi sjálfum Fjalla-Eyvindi. Kómedíuleikhúsið hefur nú fengið boð um að sýna leik sinn Fjalla-Eyvind í Eyvindarstofu á Blönduósi. Sýningin á Fjalla-Eyvindi verður laugardaginn 22. febrúar. Það verður sérlega gaman að sýna leikinn í Eyvindarstofu og gaman væri að sjá sem flesta á þessari sýniningu. 

Við ætlum að taka barnaleikritið vinsæla Búkollu með okkur norður í febrúar. Tvær sýningar verða í grunnskóla Fjallabyggðar bæði á Siglufirði og Ólafsfirði. 

Ómar Már Jónsson sveitastjóri Súðavíkurhrepps og Elfar Logi Hannesson Kómedíuleikhússtjóri undirrita verkefnasamninginn.
Ómar Már Jónsson sveitastjóri Súðavíkurhrepps og Elfar Logi Hannesson Kómedíuleikhússtjóri undirrita verkefnasamninginn.

Í gær var undirritaður verkefnasamningur milli Kómedíuleikhússins og Súðavíkurhrepp. Samskonar samningur var í gildi á síðasta ári og var mikil ánægja með það samstarf. Verkefnasamningurinn við Súðavíkurhrepp felur í sér fjölmörg verkefni sem Kómedíuleikhúsið mun sýna víða í hreppnum á árinu. Samningur sem þessi er mikið fagnaðarefni fyrir Kómedíuleikhúsið og þökkum við Súðavíkurhrepp fyrir traust og trú í okkar garð. Rekstur leikhús getur oft verið skrautlegur stundum er mikið að gera og stundum minna líkt og í hvaða fyrirtæki sem er. Því er verkefnasamningur sem þessi mikilvægur fyrir starfsemi atvinnuleikhús Vestfjarða á ársgrundvelli. 

Verkefnin í samningi Kómedíuleikhússins við Súðavíkurhrepp árið 2014 eru:

 

Ein leiksýning fyrir leik- og grunnskóla Súðavíkur.

Ein uppákoma í Melrakkasetri Íslands.

Ein uppákoma á Bláberjadögum.

Ein uppákoma á Miðaldahátíð í Heydal um verslunarmannahelgina. 

mánudagurinn 20. janúar 2014

Fjalla-Eyvindur í Einarshúsi Bolungarvík

Fjalla-Eyvindur í Einarshúsi Bolungarvík á fimmtudag
Fjalla-Eyvindur í Einarshúsi Bolungarvík á fimmtudag

Enn og aftur skundar Fjalla-Eyvindur yfir fjöll og fjörðu. Eða kannski fer hann bara göngin, Bolungarvíkurgöngin. Já, næsti viðkomustaður Fjalla-Eyvindar er einmitt Bolungarvík. Leikritið vinsæla verður sýnt í Einarshúsi í Bolungarvík núna á fimmtudag, 23. janúar, og hefst kl.20. Miðaverð er 2.000.- krónur og það er posi á staðnum.

Leikritið um Fjalla-Eyvind hefur vakið mikla lukku frá því það var frumsýnt í lok síðasta árs. Æfingar á leiknum hófust að nýju nú í janúar. Sýningin í Einarshúsi á fimmtudag er 6. sýningin á leiknum. Leikritið Fjalla-Eyvindur fjallar um einn mesta útlaga allra tíma Eyvind Jónsson er nefndur hefur verið Fjalla-Eyvindur. Það er óhætt að segja að kappinn sá hafi verið karl í krapinu því hann var í útlegð í heila fjóra áratugi. Hann fór víða m.a. vestur í Jökulfjörðu þar sem hann hitti lífsförunaut sinn hana Höllu sína. Ástin var slík að hún fylgdi manni sínum í útlegðinni. Þó efnið sé háalvarlegt og dramatískt er hér um léttan gamanleik að ræða en þó skín alvaran yfirleitt best þegar fengið er við grínið. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson. Guðmundur Hjaltason samdi tónlistina og Marsibil G. Kristjánsdóttir gerði leikmynd og annaðist leikstjórn. 

fimmtudagurinn 16. janúar 2014

Fjalla-Eyvindur í Kaupfélaginu Suðureyri

Fjalla-Eyvindur í Kaupfélaginu Suðureyri á föstudag
Fjalla-Eyvindur í Kaupfélaginu Suðureyri á föstudag

Enn heldur Fjalla-Eyvindur áfram ferð sinni yfir fjöll og fjörðu. Að þessu sinni verður leikritið um þekktasta útlaga þjóðarinnar sýnt í Kaupfélaginu á Suðureyri. Sýnt verður núna á föstudag, 17. janúar, og hefst leikurinn kl.20. Miðaverð er aðeins 1.900.- kr og það er posi á staðnum.

Fjalla-Eyvindur er nýasta leikrit Kómedíuleikhússins og var frumsýnt í lok síðasta árs. Leikurinn hefur fengið afar góðar viðtökur enda er hér um að ræða sögulega sýningu um mikinn kappa. Fjalla-Eyvindur var í útlegð í ein fjörtíu ár á hinni myrku og erfiðu átjándu öld. Hann fór víða m.a. til Vestfjarða þar sem hann kynntist lífsförunauti sínum henni Höllu frá Jökulfjörðum. Slík var ástin að hún fór með honum í útlegðina og voru þau á flakki um landið í tvo áratugi. Þó um háalvarlega sögu sé að ræða þá er leikritið Fjalla-Eyvindur létt og skemmtilegt stykki. Jafnval bara gamanleikur. Enda er nú gamanleikurinn jafnan sterkasta vopnið í harmleiknum. 

þriðjudagurinn 14. janúar 2014

Fjalla-Eyvindur í Holti Önundarfirði

Sýningar hefjast að nýju á Fjalla-Eyvindi.
Sýningar hefjast að nýju á Fjalla-Eyvindi.

Sýningar á Fjalla-Eyvindi nýjasta leikverki Kómedíuleikhússins hefjast að nýju nú strax á nýju ári. Sýnt verður á hinni árlegu Kvöldvöku í Friðarsetrinu Holti Önundarfirði. Kvöldvakan fer fram núna á miðvikudag og hefst kl.20. Kvöldvakan hefur verið haldin í nokkur ár ávallt sama dag sem ber einmitt upp á afmælisdegi ljóðskálds Önundarfjarðar Guðmundar Inga Kristjánssonar. Miðaverði er styllt mjög í hóf eða aðeins 2.000.-kr. Innfalið í miðaverði er leiksýningin og svo að sjálfsögðu kaffi og rjómapönnukökur að lokinni sýningu. Það er posi í miðasölunni svo nú er bara um að gera að skella sér. 

Í ár er 300 ára afmæli mesta útlaga allra tíma Fjalla-Eyvindar. Af því tilefni verður hið vinsæla leikrit sýnt í Holti Friðasetri. Fjalla-Eyvindur er án efa frægasti útilegumaður allra tíma hér á landi. Enda var kappinn sá í útlegð í eina fjóra áratugi. Hann var í raun einfaldur sveitapiltur en þótti strax í föðurgarði öðruvísi en jafnaldrar sínir. Hann var mikill hæfileikamaður smiður góður, fimur mjög og meira að segja læs. Einnig þótti hann eigi ómyndarlegur. Samt varð hann að halda á fjöll eftir að hafa verið grunaður um þjófnað. Já, aðeins grunaður aldrei var neitt sannað. Svo kynntist hann Höllu sinni. Hér er þessi saga túlkuð á nýjan, óvæntan og líklega svolítið kómískan máta.

Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson. Tónlist gerði Guðmundur Hjaltason og leikstjórn annaðist Marsibil G. Kristjánsdóttir. 

föstudagurinn 10. janúar 2014

Kómedíuleikhúsið tilnefnt til Eyrarrósarinnar

Kómedíuleikhúsið hefur frumsýnt um 40 leikverk sem öll tengjast vestfirskri sögu og menningu.
Kómedíuleikhúsið hefur frumsýnt um 40 leikverk sem öll tengjast vestfirskri sögu og menningu.

Þær ánægjulegu fréttir voru að berast að Kómedíuleikhúsið er tilnefnt til hinna flottu Eyrarrósar verðlauna. Þessi verðlaun sem nú verða afhent í tíunda sinn eru veitt fyrir framúrskarandi menningarverkefna á landsbyggðinni. Kómedíuleikhúsið er alveg í skýjunum með þessa miklu viðurkenningu. Alls eru tíu verkefni tilnefnd sem er við hæfi á tíu ára afmæli verðlaunanna. Þann 23. janúar verður tilkynnt hvaða þrjú verkefni hljóta viðurkenningu og í febrúar verður svo sjálf Eyrarrósin afhent. 

Þessi tilnefning til Eyarrósarinnar er mikil viðurkenning fyrir okkur í Kómedíuleikhúsinu. Leikhúsið hefur starfað í 16 ár og á þeim tíma hefur það sett upp um 40 leikverk. Verkin eru nokkuð einstök því öll byggja þau á vestfirskri sögu og menningu. Kómedíuleikhúsið er einnig fyrsta atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum. 

Það er glæsilegur listi tilnefndra til Eyrarrós og mikill heiður að fá að vera á meðal allra þessara frábæru menningarverkefna á landsbyggðinni. Sem sýnir um leið hve glæst menningarlífið er á landsbyggðinni. 

Þessir eru tilnefndir til Eyarrósarinnar í ár:

 

Kómedíuleikhúsið

Skrímslasetrið

Áhöfnin á Húna 

Verksmiðjan Hjalteyri

Hamondhátíðin á Djúpavogi

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri

Tækniminjasafn Austurlands

Reitir á Siglufirði

Listasetrið Bær í Skagafirði

Þjóðahátíð Vesturlands

 

Til hamingju öll og megi ykkur ganga sem allra best. 

mánudagurinn 6. janúar 2014

Hvað boðar nýtt kómískt ár?

Sýningar á Fjalla-Eyvindi hefjast að nýju í janúar
Sýningar á Fjalla-Eyvindi hefjast að nýju í janúar

Gleðilegt ár kæru landsmenn. Síðasta ár var bara mjög skemmtilegt og sérlega kómískt, allavega hér í herbúðum okkar í Kómedíuleikhúsinu. Síðasta frétt síðasta ár var einmitt skýrsla liðins ár hinn árlegi annáll Kómedíuleikhússinns. Vissulega var árið 2013 mjög viðburðaríkt hjá okkur en nóg af því nú er það nýja árið. Það er óhætt að segja að nýja árið byrji vel þrátt fyrir örlæti veðursins hér vestra. Já, það er bóksaflega allt á kafi í snjó hér á Ísafirði. En það er bara flott að fá allan þennan snjó og svo er bara að vona að allur þessi snjór bara haldi sér. Það er miklu skemmtilegra en að snjórinn sé alltaf að koma og fara. Þetta slabb er ekkert sem gaman er af. Úr vetrarveðri í leikhúsfréttir.

Núna á fyrsta mánuði ársins hefjast æfingar að nýju á útilegumannastykkinu Fjalla-Eyvindur. Verkið var frumsýnt í október í fyrra og hefur fengið þessar fínu viðtökur. Fyrsta sýning á Fjalla-Eyvindi á nýju ári verður í Holti í Önundarfirði 15. janúar. Einnig er fyrirhuguð sýning á Eyvindi fjallanna í Einarshúsi í Bolungarvík í janúar. Í hinum ágæta febrúarmánuði mun Fjalla-Eyvindur fara yfir fjöll alla leið norður í land. Laugardaginn 22. febrúar verður leikurinn sýndur á hinni einstöku Eyvindarstofu á Blönduósi. Barnaleikritið Búkolla verður einnig með í för og mun heimsækja nokkra skóla fyrir norðan. Í mars verður síðan farið í leikferð um suðurland með Búkollu og verðlaunaleikinn Gísla Súrsson. 

Það er að vanda bjartsýni í herbúðum Kómedíuleikhússins þrátt fyrir veðurofsan og mikið um ferðalög á nýju frábæru ári. Loks má geta þess að undirbúningur fyrir fyrstu frumsýngu árins er hafin. Um er að ræða barnaleikrit sem hefur heitið Halla og er byggt á samnefndri ljóðabók eftir Stein Steinarr. Frumsýnt verður í byrjun apríl á Ísafirði. 

Halla verður eina leikritið sem frumsýnt verður á nýja árinu hjá Kómedíuleikhúsinu. Enda erum við með svo mörg verk ennþá í sýningu að það er bara engin leið að hætta að sýna. Þetta eru fjögur leikverk Búkolla, Fjalla-Eyvindur, Gísli Súrsson og loks Sigvaldi Kaldalóns. Öll þessi verk verða á fjölunum út þetta ár og því verður mikið um sýningarhald á nýju ári. 

fimmtudagurinn 26. desember 2013

Annáll Kómedíuleikhússins 2013

Sigvaldi Kaldalóns sló í gegn
Sigvaldi Kaldalóns sló í gegn

Sextán bráðlega sautján. Já, litli króinn er að verða lögráða. Kómedíuleikhúsið atvinnuleikhús Vestfjarða hefur vissulega farið í gegnum ýmislegt á þessum sextán árum líkt og í lífi hvers og eins. Árið 2013 hefur verið sérlega kómískt og viðburðaríkt. Síðasta tala ártalsins hefur verið í aðalhlutverki á árinu því við frumsýndum einmitt þrjú ný íslensk leikverk og gáfum út þrjár nýjar hljóðbækur. Skulum ekkert vera að orðlengja formála þessa annáls neitt frekar heldur greina frá verkefnum ársins sem senn er að kveðja.

Fyrsta frumsýning Kómedíuleikhússins á hinu hreint ágæta ári 2013 fjallaði um einn dáðasta listamann þjóðarinnar. Til samstarfs þessarar uppfærslu fengum við í liðið hina einstöku listakonu Dagný Arnalds. Úr varð einstök, falleg og einlæg sýning um tónskáldið og lækninn Sigvalda Kaldalóns. Leikurinn fjallaði um ár Sigvalda í Ármúla í Ísafjarðardjúpi einu afskekktasta læknishéraði þessa lands. Þar dvaldi hann í ellefu ár og vissulega voru þetta viðburðarík ár. Ekki bara í læknastarfinu heldur og ekki síður í listinni því þarna urðu fjölmargar söngperlur hans til. Höfundur leiksins Elfar Logi Hannesson var einnig í hlutverki Sigvalda. Dagný Arnalds var í hlutverki danskrar hjúkrunarkonu auk þess að sjá um allan undirleik og söng. Leikstjórn annaðist Marsibil G. Kristjánsdóttir. Leikritið Sigvaldi Kaldalóns var frumsýnt í Hömrum á Ísafirði og var afar vel tekið. Alls urðu sýningar 11 ekki aðeins í Hömrum heldur og á Þjóðlagahátíð á Siglufirði sem og í næsta nágrenni Ármúla eða á Dalbæ á Snæfjallaströnd. Stefnt er að því að taka leikritið upp á komandi ári og fara þá jafnvel alla leið í höfuðborgina og taka þar upp sýningar.

Önnur frumsýning ársins fór fram í Heydal í Mjóafirði. Um var að ræða einleik um Borgarey í Ísafjarðardjúpi og fékk heitið Gullkistan í Djúpinu. Þessi nafngift er ekki útí hött því eyjan hefur einmitt hlotið þetta viðurnefni. Þó Borgarey sé ekki stór þá hefur margt sögulegt þar gerst. Frumsýningin var á árlegri Miðaldahátíð í Heydal og er þetta þriðja árið sem Kómedíuleikhúsið sýnir á þessari einstöku hátíð. Höfundur og leikari var hinn kómíski leikari Elfar Logi Hannesson og hans betri helmingur, Marsibil G. Kristjánsdóttir, sá um leikstjórn. Gaman er að geta þess að sýningin var hluti af verkefnasamningi sem leikhúsið gerði við Súðavíkurhrepp. Ekki var bara þetta góða verkefni þar á blaði heldur og fleiri sýningar í hreppnum. Samningur sem þessi er afskaplega góður fyrir báða aðila og gekk samstarfið vel. Nú er verið að skoða hvort penninn verði ekki tekinn upp að nýju og párað undir annan samning við Súðavíkurhrepp. Samskonarsamningur var og gerður við Vesturbyggð á árinu.

Þriðja og síðasta frumsýning ársins var einnig söguleg enda hefur sagan verið í sérstöku uppáhaldi hjá Kómedíuleikhúsinu allt frá upphafi, sérlega allt sem tengist okkar eigin sagnahéraði sem eru Vestfirðir allir. Nú var tekin fyrir saga eins frægasta útlaga allra tíma sjálfs Fjalla-Eyvindar. Sú saga er heldur betur merkileg og ef ekki bara kómísk. Þar er það ekki bara lítill neisti sem verður að miklu báli heldur virðist hin góða mjólkurafurð ostur hafa í sér samskonar verkun. Frumsýning leikritsins Fjalla-Eyvindur var sérlega einstök en þó vel við hæfi að hætti þessa mikla konungs hinna íslensku fjalla. Já, frumsýningin fór fram undir berum himni nánar tiltekið í Garðinum við Húsið á Ísafirði. Frumsýningin bar upp á hinni árlegu hátíð Veturnætur á Ísafirði í lok október. Enn og aftur var það Elfar Logi sem sá um handrit og leik. Höfundur tónlistar var Guðmundur Hjaltason og Marsibil G. Kristjánsdóttir leikstýrði. Verkið var sýnt tvívegis á Ísafirði og svo var ein sýning á Þingeyri. Nú þegar hafa verið bókaðar nokkrar sýningar á Fjalla-Eyvindi á komandi ári. Strax 15. janúar 2014 verður Fjalla-Eyvindur á fjölunum á Holti í Önundarfirði á árlegri hátíð sem þar er haldin í tilefni af afmælisdegi önfirska skáldsins Guðmundar Inga Kristjánssonar. Fjalla-Eyvindur mun fara yfir mun fleiri fjöll á árinu m.a í hans fæðingarhrepp á sérstakri hátíð sem haldin verður í tilefni af því að árið 2014 verða 300 ár liðin frá fæðingu kappans.

Eldri góðkunningjar kómískir voru einnig á fjölunum árið 2013. Hinn sívinsæli Gísli Súrsson fór mikinn að vanda og var sýndur bæði á íslensku og ensku. Þó allar sýningarnar hafi verið ánægjulegar þá stóð uppúr að sýningin var sýnd á æskuslóðum söguhetjunnar nefnilega Súrnadal í Noregi. Alls hafa nú verið að sýndar 258 sýningar á þessum margverðlaunaða verki. Þegar hafa verið bókaðar margar sýningar á komandi ári og þá einkum á ensku sem er sérlega ánægjulegt og sýnir að listin er orðinn mikilvæg í okkar sístækkandi ferðaþjónustu. Ævintýraleikurinn Búkolla – Ævintýraheimur Muggs fór og víða m.a. í fæðingarbæ Muggs á Bíldudal. Loks var jólasýning okkar vinsæla Bjálfansbarnið og bræður hans sýnd og er þetta þriðja árið í röð sem verkið er á jólafjölunum.

Einsog í öllum alvöru uppgjörum er svo rétt að koma hér með einhverjar samlagðar tölur í þetta uppgjör. Þó ekki verði farið yfir í monnípeninga uppjörið enda er það að vanda kómískt. Alls sýndi Kómedíuleikhúsið 64 sýningar árið 2013. Við erum mjög ánægð með þessar tölur og erum sérlega þakklát okkar fjölmörgu áhorfendum um land allt sem hafa gert þessa tölu svo háa. Sú velvild sem við höfum fundið frá landsmönnum er alveg einstök án ykkar væri þessu ævintýri löngu lokið og komið útí mýri. Enn stöndum við þó og stefnum að því að gera enn betur á nýju spennandi ári.

Loks er rétt að geta hér ævintýris sem hófst fyrir nokkrum árum. Hugmyndina átti listakonan Marsibil G. Kristánsdóttir þegar hún gaukaði að leikhússtjóranum hvort væri ekki sniðugt að gefa út einsog eitt stykki hljóðbók. Nú eru hljóðbækur okkar orðnar þrettán. Þúfan orðin að stórum hól sem endar kannski bara á fjalli. Árið 2013 gáfum við út þrjár hljóðbækur. Þjóðlegi sagnaarfurinn hefur ávallt verið í aðalhlutverki hljóðbókaútgáfu okkar. Tvær nýjar hljóðbækur í þeirri seríu bættust við á árinu. Í vor komu út Skrímslasögur og fyrir jólin voru það Álfa- og jólasögur. Lítið hliðarskref frá hinu þjóðlega stefi var tekið í upphafi árs þegar við gáfum út hina umdeildu íslensku þýðingu á sögu Bram Stoker Drakúla. Sala hljóðbóka okkar hefur gengið vel og viljum við sérstaklega þakka sölustöðum okkar um land allt fyrir það. Síðast en ekki síst hlustendum okkar en sífellt stækkar hópurinn enda er svo notalegt að láta lesa fyrir sig.

Á árinu gáfum við út lítið jólaljóðakver Um jólin. Hér er á ferðinni fjölbreytt ljóð um jólin og er víða komið við. Ort er um jólabaksturinn, um Þorlák helga sem Þorláksmessa er kennd við, um vestfirsku jólavættina, skötuna og margt fleira. Ljóðin eru eftir Þórarinn Hannesson, forstöðumann ljóðaseturs Íslands, en Marsibil G. Kristjásdóttir myndskreytti. Um jólin var mjög vel tekið og er fyrsta upplag bókarinnar á þrotum.  

Einsog þú lesandi góður hefur þegar áttað þig á þá hefur árið 2013 verið sérlega kómískt. Margt fleira mætti nefna sem gerðist á þessu sextánda ári Kómedíuleikhússins en förum nú að ljúka þessu. Við þökkum styrktaraðilum okkar fyrir að hafa trú á okkur og vonumst til að þið séuð einnig ángæð með okkur. Áhorfendur góðir um land þið eruð öll frábær og takk fyrir frábærar stundir í leikhúsinu í gegnum árin.

Rétt er að hætta nú að horfa í baksýnisspegilinn og horfa fram á veginn. Hér eru nefnd nokkur kómísk verkefni sem hleypt verður útí lífið árið 2014:

Halla, barnaleikrit byggt á samnefndri ljóðabók Steins Steinarrs.

Þrjár þjóðlegar hljóðbækur koma út þar á meðal ein á ensku.

Og svo margt annað kómískt sem of snemmt er að segja frá.

 

Óskum ykkur öllum frábærs nýs árs og hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu á nýju kómísku ári. 

miðvikudagurinn 18. desember 2013

Elfar Logi les Jóladraum til minningar um Sissu

Sissa var frábær stúlka og hennar er sárt saknað
Sissa var frábær stúlka og hennar er sárt saknað

Núna á sunnudag 22. desember mun leikhússtjóri vor, Elfar Logi Hannesson, lesa hina frábæru sögu Charles Dickens Jóladraumur. Lesturinn fer fram á veitingastaðnum Húsið á Ísafirði og er til minningar um Sissu. Sigrún Mjöll Jóhannesdóttir eða Sissa lést 3. júní 2010 af völdum fíkniefna. Sérstakur minningarsjóður Sissu hefur verið stofnaður og er tilgangur sjóðsins að styrkja skapandi verkefni ungmmenna á aldrinum 12 - 18 ára sem eru í áfengis og eða vímuefnameðferð á meðferðaheimilum á Íslandi. Styrkjum úr sjóðnum er úthlutað á afmælisdegi Sissu 22. desember ár hvert. 

Hurðaskellir hinn vinsæli jólasveinn mun mæta á Húsið kl.14 og sunnudag með eitthvað gott í poka. Þegar hann kveður mun Elfar Logi hefja lesturinn á Jóladraum Charles Dickens. Lesturinn mun standa yfir í 3-4 klukkutíma. Gestir þurfa þó ekkert að örvænta þurfa ekkert að vera allan tíma sem lesturinn stendur yfir. Heldur bara koma við og hlusta á þessa fallegu sögu og heiðra þannig minningu Sissu.

Rétt er að benda þeim sem vilja leggja Minningarsjóði Sissu lið á reikningsnúmer sjóðsins, munum að margt smátt gerir alveg helling þegar saman kemur:

 

Reikningur: 596 26 2

Kennitala: 550113 1120

mánudagurinn 16. desember 2013

Jólin að seljast upp

Um jólin hefur fengið frábærar viðtökur og er alveg að seljast upp
Um jólin hefur fengið frábærar viðtökur og er alveg að seljast upp

Kómedíuleikhúsið gaf út fyrir skömmu jólaljóðakverið Um jólin í samstarfi við Þórarinn Hannesson, forstöðumann Ljóðaseturs Íslands. Þórarinn er höfundur ljóðanna en Marsibil G. Kristjánsdóttir myndskreytir.  Kverinu hefur verið afarvel tekið og styttist í að upplagið klárist. Það er nú ekki á hverjum degi sem ljóðabækur seljast svona hratt og vel. Kverið hefur líka fengið afskaplega góðar viðtökur enda er hér á ferðinni fjölbreytt og vönduð ljóð um jólin. Meðal ljóða í Um jólin er heljarmikill ljóðabálkur um vestfirsku jólasveinana en þeir hafa ekki sést á meðal manna í hundrað ár ef ekki meir. Þessir eiga svo ekkert rauð föt og eru lítið tengdir hinum þrettán sem við sjáum í dag. Nöfn þeirra eru og óvenjuleg einsog Bjálfansbarnið, Lækjaræsir og Reykjarsvelgur. 

Höfundur ljóðanna, Þórarinn Hannesson, hefur víða komið við og lesið úr bókinni fyrir. Einnig hefur hans bróðir, Elfar Logi, verið að lesa úr jólakverinu hér vestra síðustu tvær vikur og áfram verður lesið. Það ljóð sem hefur kannski vakið mesta kátínu á þessum upplestrastundum er kvæðið Jólabaksturinn sem byrjar svo:

Mömmukökur, mömmukossar, 

marengsbotnar, kókostoppar.

Kattartungukökur ljúfar

kætast allir litlir stúfar.

 

Ekki laust við að bragðlaukarnir taki kipp þegar nöfn þessara kræsinga eru nefnd. Jólaljóðakverið Um jólin fæst í verslunum Eymundsson um land allt, í Mál og menningu, Vestfirzku verzluninni, Hamonu á Þingeyri og loks hjá Kómedíuleikhúsinu. 

Eldri færslur