föstudagurinn 21. mars 2014

Þjóðlegu hljóðbækurnar

Þjóðlega hljóðbóka útgáfa Kómedíuleikhússins hefur heldur betur gengið vel. Nú þegar höfum við gefið út tólf Þjóðlegar hljóðbækur og á þessu ári bætast þrjár nýjar við í safnið. Útgáfan er einsog nafnið gefur til kynna helguð hinu þjóðlega sagnaarfi þjóðarinnar. Þjóðsögur og ævintýri sem eru algjörar perlur sem bara verði betri með hverju árinu. Fyrsta Þjóðlega hljóðbókin sem við gáfum út var Þjóðsögur úr Vesturbyggð. Síðan hafa ellefu Þjóðlegar hljóðbækur komið á markað. Meðal þeirra má nefna Bakkabræður og kímnisögur, Þjóðsögur frá Hornströndum og Jökulfjörðum, Draugasögur, Galdrasögur, Skrímslasögur og nú síðast Álfa-og jólasögur.

Þjóðlegu hljóðbækurnar fást í verslunum um land allt m.a. í Eymundsson. Einnig er hægt að panta Þjóðlegu hljóðbækurnar á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is 

Þrjár nýjar Þjóðlegar hljóðbækur koma út á þessu ári. Í næsta mánuði kemur fyrsta hljóðbók okkar á ensku en það er Fairy- and Folktales. Úrval ævintýra og þjóðsagna í þýðingu Guðjóns Ólafssonar en lesari er Elfar Logi Hannesson. Í sumar sendum við frá okkur Þjóðsögur úr Eyjafirði og fyrir jól verða það Tröllasögur.

Vertu nú soldið þjóðlegur og náðu þér í Þjóðlega hljóðbók. 

sunnudagurinn 16. mars 2014

Vík í Mýrdal og svo Selfoss

Búkolla, Fjalla-Eyvindur og Gísli Súrsson á ferð um Suðurland
Búkolla, Fjalla-Eyvindur og Gísli Súrsson á ferð um Suðurland

Við erum á blússandi leikferð með þrjár leiksýningar. Í dag sýndum við Fjalla-Eyvind í heimasveit söguhetjunnar. Sýnt var í hinu stóglæsilega félagsheimili á Flúðum. Þétt setinn var bekkurinn og mikið hlegið. Á morgun, mánudag, sýnum við Búkollu og verðlaunaleikinn Gísla Súrsson fyrir framtíðina á Vík í Mýrdal. Nemendur grunnskólans munu mæta galvaskir í morgunsárið yngri deildin skemmtir sér með Búkollu og félögum. Eldri deildin mun síðan horfa á Gísla Súrsson. Á þriðjudag verður Gísli Súrsson aftur á fjölunum og þá í Sunnulækjaskóla á Selfossi. 

Síðan skundar kómíska bifreiðin heim á Ísafjörð þar sem æfingar halda áfram á nýju íslensku leikverki Halla. Um er að ræða barnaleikrit byggt á samnefndri ljóðabók eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Halla verður frumsýnd í sal Listasafnsins á Bókasafninu á Ísafirði laugardaginn 12. apríl.

sunnudagurinn 16. mars 2014

Fjalla-Eyvindur fer hein í dag

Fjalla-Eyvindur í heimasveitinni
Fjalla-Eyvindur í heimasveitinni

Leikrtið vinsæla um Fjalla-Eyvind verður sýnt á heimaslóðum í dag. Sýnt verður í félagsheimilinu á Flúðum og hefst leikurinn kl.14. Það er sérlega skemmtiegt að sýna verkið á æskuslóðum Eyvindar en sýningin í dag er einmitt liður sveitunga hans í að fagna 300 ára afmæli söguhetjunnar. 

Fjalla-Eyvindur hefur fengið afbragsðs góður viðtökur frá því verkið var frumsýnt síðla síðasta árs. Fjölmargar sýningar eru fyrirhugaðar á Fjalla-Eyvind á árinu og jafnvel enn fleiri á söguslóðum Eyvindar. Jafnvel á hálendinu það væri nú gaman. 

þriðjudagurinn 11. mars 2014

Fjalla-Eyvindur á Hólmavik

Fjalla-Eyvindur á Café Riis á fimmtudag
Fjalla-Eyvindur á Café Riis á fimmtudag

Kómedíuleikhúsið brunar enn og aftur yfir heiðar með sinn Fjalla-Eyvind. Nú er áfangastaðurinn Hólmavík. Sýnt verður á Café Riis á fimmtudag 13. mars og hefst sýningin kl.20. Miðaverð er aðeins 2.000.-kr og það er posi á staðnum. Leikritið um Fjalla-Eyvind hefur fengið afbragðsgóðar viðtökur en þetta er áttunda sýningin á leiknum. Saga Fjalla-Eyvindar á sannarlega erindi enn þann dag í dag en gaman er að geta þess að í ár er 300 ára fæðingarafmæli þessa mesta útlaga þjóðarinnar.

Gaman er að segja frá því að sama kveld verður opnuð sögusýningin Vestfirsk leiklist. Sýningin verður í Hnyðju og verður formlega opnuð strax að lokinni sýningu á Fjalla-Eyvindi eða kl.21.07. Leiklistin verður sannarlega í aðalhlutverki á Hólmavík fimmtudaginn 13. mars. 

þriðjudagurinn 4. mars 2014

Halla nýtt barnaleikrit

Halla ljóðbók Steins Steinarrs verður að barnaleikriti
Halla ljóðbók Steins Steinarrs verður að barnaleikriti

Undirbúningur fyrir fyrstu frumsýningu ársins er hafin. Að vanda sækjum við í hinn vestfirska sagnabrunn í efnisvali. Vestfirska skáldið Steinn Steinarr hefur verið Kómedíuleikhúsinu hugleikinn áður hafa verið settar upp tvær Steins sýningar. Fyrst einleikurinn Steinn Steinarr og svo tvíleikurinn Búlúlala - Öldin hans Steins. Allt er þegar þrennt er. Nýjasta leikverk okkar er barnaleikritið Halla sem er byggt á samnefndri ljóðabók eftir Stein Steinarr. 

Barnaleikritið Halla verður frumsýnt laugardaginn 12. apríl í sal Listasafnsins á Ísafirði. Einnig verða tvær sýningar um pásakana á Ísafirði laugardaginn 19. apríl kl.16.30 og kl.17.30. Sýningarnar eru í samstarfi við Safnahúsið á Ísafirði. 

Dansarinn Henna-Riikka Nurmi er í hlutverki Höllu en afa hennar leikur Elfar Logi Hannesson. Þau eru einnig höfundar leikgerðar ljóðasögunnar um Höllu. Tónlist semur Guðmundur Hjaltason og Marsibil G. Kristjánsdóttir gerir leikmynd, búninga og annast leikstjórn. 

Barnaleikritið Halla verður einnig sýnt á höfuðborgarsvæðinu í apríl. Sýnt verður í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði helgina 26. og 27. apríl. 

föstudagurinn 28. febrúar 2014

Gísli Súrsson á Gíslastöðum í júní

Gísli Súrsson á Gíslastöðum Haukadal alla miðvikudaga og fimmtudaga
Gísli Súrsson á Gíslastöðum Haukadal alla miðvikudaga og fimmtudaga
1 af 2

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson hefur notið mikilla vinsælda allt frá því það var frumsýnt árið 2005. Síðan eru liðnar 258 sýningar. Þegar er búið að bóka fjölmargar sýningar á verkinu í sumar bæði á íslensku og ensku. Í sumar verður Gísli Súrsson á heimaslóðum þegar boðið verður uppá opnar sýningar allan júní mánuð. Sýnt verður á Gíslastöðum Haukadal í Dýrafirði einmitt á staðnum þar sem kappinn settist að hér á landi. Gísli Súrsson verður sýndur bæði á ensku og íslensku. Ensku sýningarnar verða alla miðvikudaga í júní og sú fyrsta verður miðvikudaginn 4. júní kl.20. Íslensku sýningarnar verða alla fimmtudaga í júní og sú fyrsta verður fimmtudaginn 3. júní kl.20. Miðaverð á sýninguna er aðeins 2.500.- kr. Miðasala á allar sýningar er þegar hafin í síma: 891 7025. Hópar geta einnig pantað sýninguna á Gísla Súrssyni á Gíslastöðum hvenær sem er í allt sumar. 

Gíslastaðir Haukadal Dýrafirði eru vel í sveit sett aðeins 6. mín. akstur frá Þingeyri. 

mánudagurinn 24. febrúar 2014

Vel lukkuð leikferð um Norðurland

Fjalla-Eyvindur fékk frábærar viðtökur á Eyvindarstofu
Fjalla-Eyvindur fékk frábærar viðtökur á Eyvindarstofu

Kómedíuleikhúsið var á leikferðalagi um Norðurland liðna helgi. Tvær leiksýningar voru í skotti hinni kómísku bifreið, Búkolla - Ævintýraheimur Muggs og nýjasta sýning okkar Fjalla-Eyvindur. Búkolla var sýnd fyrir nema grunnskóla Fjallabyggðar og var sýnt bæði á Ólafsfirði og Siglufirði. Mikið stuð var á sýningunum og viðtökur mjög góðar. Á laugardag vorum við komin til Blönduós og þar tók Fjalla-Eyvindur við. Sýnt var á hinni einstöku Eyvindarstofu á Blönduósi og var aðsókn á sýninguna ljómandi góð. 

Kómedíuleikhúsið hefur ávallt verið duglegt að ferðast um landið með sýningar sínar. Það er sérlega ánægjulegt hve vel hefur verið tekið í verk okkar og hve víða við höfum sýnt um landið. 

Í mars fer kómsíka bifreiðin aftur af stað í leikferð. Þá verða þrjár leiksýningar á ferðinni. Áðurnefndar Búkolla og Fjalla-Eyvindur. Í hópinn bætist svo verðlaunasýningin Gísli Súrsson. Bókanir á sýningum standa enn yfir en þegar eru bókaðar sýningar á Hólmavík, Hvolsvelli, Flúðum og Vík í Mýrdal. 

Getum bætt fleiri sýningarstöðum á þessu leikferðalagi. Áhugasamir sendi tölvupóst á komedia@komedia.is einnig er hægt að hringja í síma 891 7025. Tökum öllum tilboðum fagnandi. 

laugardagurinn 22. febrúar 2014

Fjalla-Eyvindur á Eyvindarstofu í kveld

Fjalla-Eyvindur sýndur á Eyvindarstofu Blönduósi í kveld.
Fjalla-Eyvindur sýndur á Eyvindarstofu Blönduósi í kveld.

Leikritið Fjalla-Eyvindur verður sýnt í kveld, laugardag, á Eyvindarstofu á Blönduósi. Miðasala og borðapantir eru í fullum gangi á Eyvindarstofu í síma: 453 5060. Leiksýningin hefst kl.20 en tilvalið er að gera meira úr kveldinu og fá sér að borða fyrir leiksýningu. Eyvindarstofa er í hjarta Blönduós þar sem sögu þessa mikla útlaga er gerð skil á glæsilegan hátt. Auk þess að geta fræðst um sögu Eyvindaren stofan sjálf er hönnuð í stíl Eyvdindarhellis á Hveravöllum. 

Leikritið um Fjalla-Eyvind hefur verið sýnt víða um Vestfirði en þetta er í fyrsta sinn sem leikurinn er sýndur utan Vestfjarða. Í verkinu er saga þesssa mikla útlaga rakinn á léttan og skemmtilegan hátt. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson, tónlist er eftir Guðmund Hjaltason en leikmynd og leikstjórn annast Marsibil G. Kristjánsdóttir.

laugardagurinn 22. febrúar 2014

Fjalla-Eyvindur á Eyvindarstofu í kveld

Fjalla-Eyvindur sýndur á Eyvindarstofu Blönduósi í kveld.
Fjalla-Eyvindur sýndur á Eyvindarstofu Blönduósi í kveld.

Leikritið Fjalla-Eyvindur verður sýnt í kveld, laugardag, á Eyvindarstofu á Blönduósi. Miðasala og borðapantir eru í fullum gangi á Eyvindarstofu í síma: 453 5060. Leiksýningin hefst kl.20 en tilvalið er að gera meira úr kveldinu og fá sér að borða fyrir leiksýningu. Eyvindarstofa er í hjarta Blönduós þar sem sögu þessa mikla útlaga er gerð skil á glæsilegan hátt. Auk þess að geta fræðst um sögu Eyvindaren stofan sjálf er hönnuð í stíl Eyvdindarhellis á Hveravöllum. 

Leikritið um Fjalla-Eyvind hefur verið sýnt víða um Vestfirði en þetta er í fyrsta sinn sem leikurinn er sýndur utan Vestfjarða. Í verkinu er saga þesssa mikla útlaga rakinn á léttan og skemmtilegan hátt. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson, tónlist er eftir Guðmund Hjaltason en leikmynd og leikstjórn annast Marsibil G. Kristjánsdóttir.

þriðjudagurinn 18. febrúar 2014

Búkolla og Fjalla-Eyvindur fyrir norðan á helginni

Fjalla-Eyvindur verður sýndur á Eyvindarstofu Blönduósi á laugardag
Fjalla-Eyvindur verður sýndur á Eyvindarstofu Blönduósi á laugardag

Kómedíuleikhúsið hefur allt frá upphafi ferðast mikið um landið með leiksýningar sínar.Enda hafa langflestar sýningar okkar verið hugsaðar sem ferðasýningar. Um helgina förum við í leikferð um Norðurland. Verðum með tvær leiksýningar að þessu sinni. Hina vinsælu ævintýrasýningu Búkolla - Ævintýraheimur Muggs sem hefur verið sýnd um þrjátíu sinnum. Með í för er einnig nýjasta leiksýning okkar Fjalla-Eyvindur en þetta er í fyrsta sinn sem sýningin verður sýnd utan Vestfjarða. 

Föstudaginn 21. febrúar verður Búkolla sýnd í grunnskólum Fjallabyggðar. Sýnt verður bæði á Siglufirði og Ólafsfirði. Daginn eftir eða laugardaginn 22. febrúar verður Fjalla-Eyvindur í aðalhlutverki. Þessi ný vinsæli útilegumannaleikur verður sýndur á hinni frábæru Eyvindarstofu á Blönduósi. Þar er sögu  útileguhjónanna Eyvindar á Höllu gerð skil. Það er tilvalið að gera meira úr kveldinu og fá sér að borða fyrir sýningu á Eyvindarstofu. Miðasala og borðapantanir eru þegar hafnar á Eyvindarstofu í síma: 453 5060. 

Rétt er að benda á heimasíðu Eyvindarstofu www.eyvindarstofa.is 

Eldri færslur