mánudagurinn 9. desember 2013

Bjálfansbarnið í Simbahöllinni á Þingeyri

Loksins koma vestfirsku jólasveinarnir aftur til byggða
Loksins koma vestfirsku jólasveinarnir aftur til byggða

Kómedíuleikhúsið sýnir jólaleikritið vinsæla Bjálfansbarnið og bræður hans á Þingeyri á laugardag 14. desember. Sýnt verður í hinu frábæra kaffihúsi Simbahöllinni. Kaffihúsið opnar kl.15 með gómsætum veitingum. Leiksýniningin sjálf hefst svo klukkutíma síðar eða kl.16. Miðaverð er aðeins 1.500.- kr fyrir börn á öllum aldri. 

Jólaleikritið Bjálfansbarnið og bræður hans fjallar um vestfirsku jólasveinana. Nútímamaðurinn hefur lítið heyrt af þessum sveinum enda hafa þeir ekki komið til byggða í ein hundrað ár. Það má því búast við miklu stuði þegar Bjálfansbarnið og bræður hans mæta til leiks að nýju og mjög líklegt að þeir muni mála bæinn rauðan að hætti bræðra sinna. Þetta eru þriðju jólin í röð sem jólaleikritið Bjálfansbarnið er sýnt. Leikritið hefur fengið frábærar viðtökur enda er hér á ferðinni fjörugt jólaleikrit fyrir börn á öllum aldri. 

miðvikudagurinn 4. desember 2013

Útgáfuveisla Kómedíuleikhússins á föstudag

Kápur nýju verkanna.
Kápur nýju verkanna.

Kómedíuleikhúsið tekur þátt í jólabókaflóðinu í ár og sendir frá sér tvö verk. Fyrst ber að nefna ljóðakverið Um jólin sem inniheldur fjölbreytt jólaljóð sem ætti að koma öllum í rétta jólaskapið og ekki síður stytta biðina fyrir jólin. Höfundur ljóðanna er Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands, og Marsibil G. Kristjánsdóttir, listakona frá Þingeyri, myndskreytir bókina. Einnig gefur Kómedíuleikhúsið út hljóðbókina Álfa- og jólasögur með upplestri Elfars Loga Hannessonar, leikara. Hér er á ferðinni vönduð útgáfa í Þjóðlegu hljóðbóka röðinni sem hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár. Álfa- og jólasögur er tólfta Þjóðlega hljóðbókin. 

Á föstudag ætlar Kómedíuleikhúsið að fagna þessari útgáfu sérstaklega og slá í veislu. Fjörið verður í Vestfirzku verzluninni og hefst kl.16. Bæði verkin verða á sérstöku tilboðsverði af því tilefni. Lesið verður úr ljóðabókinni og hlustað á brot af hljóðbókinni. Boðið verður uppá jólalegar veitingar í þessari tvöföldu útgáfuveislu. 

Allir velkomnir. 

Álfa- og jólasögur í næstu verslun
Álfa- og jólasögur í næstu verslun

Tólfta Þjóðlega hljóðbókin er komin í verslanir um land allt. Að þessu sinni eru í aðalhlutverki Álfa- og jólasögur úr þjóðsagnasafni þjóðarinnar. Vissulega hafa álfar og hvað þá jólasveinar verið á vappi á Íslandi mun lengur en elstu menn muna. Hér er úrval bestu sagna úr báðum þessum þjóðsagnaflokkum safnað saman á einni hljóðbók. Sögurnar á Álfa- og jólasögur hljóðbókinni eru alls 35. Hljóðbókin er þegar komin í verslanir um land allt en útsölustaðir okkar eru fjölmargir nægir að nefna Mál og menning, Hamona Þingeyri, Vestfirzka verzlunin á Ísó og verslanir Eymundsson um land allt. 

Útgáfuröð Kómedíuleikhússins sem við nefnum Þjóðlegu hljóðbækurnar hafa notið mikilla vinsælda. Einsog áður sagði er Álfa-og jólasögur tólfta Þjóðlega hljóðbókin. Sú fyrsta kom út árið 2007 og nefnist Þjóðsögur úr Vesturbyggð. Þjóðlegu hljóðbækurnar bera nafn með rentu því hér er um að ræða vandaða útgáfu á okkar þjóðlega fróðleik gömlu góðu þjóðsögunum. Meðal annarra Þjóðlegra hljóðbóka sem hafa komið út má nefna: Þjóðsögur frá Hornströndum og Jökulfjörðum, Draugasögur, Bakkabræður og kímnisögur, Skrímslasögur og Galdrasögur. 

þriðjudagurinn 26. nóvember 2013

Ný jólaljóðabók Um jólin

Jólaljóð um Grýlu, jólabaksturinn og meira að segja um skötuna
Jólaljóð um Grýlu, jólabaksturinn og meira að segja um skötuna

Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Þórarinn Hannesson, forstöðumann Ljóðaseturs Íslands, hefur gefið út nýja jólaljóðabók. Þetta einstaka jólaljóðakver heitir Um jólin og hefur að geyma fjölbreytt jólaljóð. Hér er kveðið um jólatréð, jólabaksturinn, Grýlu og karlana hennar, vestfirska jólavætti, þrettándann, skötuna sem margir snæða á Þorláksmessu og Þorlák helga sem Þorláksmessa er kennd við. Ættu ljóðin að veita börnum á öllum aldri jafnt skemmtun sem fróðleik. 

Höfundur jólaljóðanna í jólakverinu Um jólin er Þórarinn Hannesson og er kverið glæsilega myndskreytt af Marsibil Kristjánsdóttur frá Þingeyri. Gaman er að geta þess að bæði hafa þau verið útnefnd bæjarlistamenn í sínum héruðum. Þórarinn var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2013 og Marsibil var bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2009. 

Jólaljóðakverið fæst í verslunum Eymundsson um land allt sem og völdum verslunum um land allt. 

föstudagurinn 22. nóvember 2013

Krummi krúnkar á Bókasafni Ísafjarðar

Fjallað verður um krumma og lesin ljóð
Fjallað verður um krumma og lesin ljóð

Vestfirskur húslestur verður núna á laugardag á Bókasafninu á Ísafirði. Að þessu sinni verður fjallað um fuglinn krumma. Þessi fugl hefur sannarlega farið sínar eigin leiðir og komið víða við sögu. Á Ísafirði fílar krummi sig vel enda er hér mikið af honum og sumir vilja nú meina að þetta sé okkar bæjarfugl. Á Vestfirskum húslestri á laugardag mun Björn Baldursson fjalla um krumma og Elfar Logi Hannesson mun flytja ljóð um krumma sem sannarlega eru mörg og margvísleg. Vestfirskur húslestur hefst kl.13.30 á laugardag og að vanda er aðgangur ókeypis. Heitt verður á könnunni og jafnvel einhverjir góðir sætir molar með.

Vestfirskur húslestur er samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Bókasafnsins á Ísafirði. 

miðvikudagurinn 20. nóvember 2013

258 sýning á Gísla Súra í dag

Gísli Súrsson býður Menningarmálaráðherra tilboð
Gísli Súrsson býður Menningarmálaráðherra tilboð

Maður veit aldrei áður en maður leggur af stað hve oft maður getur sýnt hverja leiksýningu. Sumar taka fljótt af meðan aðrar ganga af stað og sumar ganga og ganga. Ekki voru þó margir sem reiknuðu með einhverju langhlaupi á sýningu sem væri byggð á sögu Gísla Súrssonar. En síðan eru liðin mörg ár og í dag verður verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson sýndur í 258 sinn. Að sjálfsögðu er þetta algjört met hjá Kómedíuleikhúsinu næsta sýning úr okkar röðum er Dimmalimm sem gekk um 100 sinnum. 

Það er ánægjulegt að þessi 258 sýning á Gísla Súrssyni skuli einmitt fara fram í grunnskóla. En það var einmitt eitt af markmiðum okkar þegar við hófum þetta óvænta langsviðshlaup að ná til æskunnar og þá sérstaklega þeirra sem eru að læra söguna og eða aðrar Íslendingasögur. Elstu bekkir grunnskóla landsins erum einmitt að lesa þessar eldgömlu Íslendingasögur. Vissulega er það ekkert létt enda langt síðan þær voru ritaðar en magnaðar eru þær. Soldið flóknar kannski, margar söguhetjur, nöfnin svipuð Þorgrmímur, Þorkell, Þórdís, já það er mikið á æskuna lagt að þurfa að bögglast í gegnum þetta. Þá er nú gott að hafa kost á því að sjá þessar sögur í leikritsformi. Enda höfum við frétt af því að krakkarnir og reyndar bara almenningur allur hafi loksins ,,fattað" Gísla sögu eftir að hafa séð leikritið okkar. Seljum það ekkert dýrara höfum bara frétt þetta einsog ritað er hér að framan.

Ekki er síður skemmtilegt að 258 sýningin á Gísla Súrssyni verður í Árbæjarskóla en sá skóli hefur pantað þessa sýningu á hverju ári frá því við frumsýndum. Sem var árið 2005. 

Það væri kannski ekki svo vitlaus hugmynd til Menningarmálaráðherra. Væri bara ekki málið að fá leikritið Gísla Súrsson í alla grunnskóla landsins? Við erum alveg til í að veita góðan afslátt ef gengið yrði til samninga enda væri hér um magnkaup að ræða og þá fær maður ávallt betri samning en ef minna er verslað. 

fimmtudagurinn 14. nóvember 2013

Fjalla-Eyvindur í pásu en bara fram í janúar

Fjalla-Eyvindur verður 300 ára á komandi ári
Fjalla-Eyvindur verður 300 ára á komandi ári

Sýningar á nýjasta verki Kómedíuleikhússsins Fjalla-Eyvindur hafa gengið afskaplega vel. Þegar hafa verið sýndar þrjár sýningar. Frumsýningin eftirminnilega í Garðinum við Húsið á Ísafirði í lok október. Í nóvember hafa svo verið sýningar bæði á Ísafirði og á Þingeyri á báðum stöðum var vel mætt. Nú verður gert stutt hlé á sýningum. 

Fjalla-Eyvindur mætir svo fjallhress aftur á fjalirnar strax í upphafi næsta árs. Þegar eru í undirbúningi sýningar í janúar 2014 á hinni frábæru Eyvindarstofu á Blönduósi. Einnig verður bætt við sýningum á Ísafirði þar sem sýnt verður í Hörmum. Sýning í Einarshúsi í Bolungarvík er einnig á sýningarplani ársins og margar fleiri m.a. sýning í heimasveit Fjalla-Eyvindar í Hrunamannahreppi. En á næsta ári eru 300 ár liðin frá því Eyvindur kom í heiminn. Það má því búast við að hinn fjallaglaði Fjalla-Eyvindur verði á ferð á milli fjalla og jafnvel uppá þeim á komandi afmælisári. 

miðvikudagurinn 6. nóvember 2013

Fjalla-Eyvindur á Þingeyri

Fjalla-Eyvindur fer yfir fjöll og alla leið í Dýrafjörð um helgina
Fjalla-Eyvindur fer yfir fjöll og alla leið í Dýrafjörð um helgina

Leikritið Fjalla-Eyvindur verður sýnt á Þingeyri núna á laugardag 9. nóvember. Sýnt verður í hinu frábæra kaffihúsi Simbahöllin. Kaffihúsið opnar kl.15 á laugardag þar sem boðið verður uppá gómsætar kökur og viðeigandi drykki með bæði heita og kalda. Leiksýningin hefst síðan klukkutíma síðar eða kl.16. Miðaverð er aðeins 2.500.- kr. Grunn- og menntaskólanemar fá miðann á sérstöku tilboðsverði aðeins 1.000.- kr. Miðasölusími er hinn sami og áður 891 7025. Einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn.

Leikritið Fjalla-Eyvindur hefur fengið afbragðs góðar viðtökur en leikurinn var frumsýndur á hátíðinni Veturnætur á Ísafirði fyrir skömmu. Enda er hér á ferðinni einstök saga um einn þekktasta útilegumann allra tíma Fjalla-Eyvind og hans konu Höllu frá Hrafnsfjarðareyri. Þó sagan sé dramatísk og all svakalega á köflum þá er hér um gamanleik að ræða. Enda er nú grínið einmitt sterkast í dramatíkinni. 

mánudagurinn 28. október 2013

Fjalla-Eyvindur í Hömrum 2. nóvember

Mikill fjöldi sótti frumsýningu á Fjalla-Eyvindi
Mikill fjöldi sótti frumsýningu á Fjalla-Eyvindi

Á laugardag kom nýr Kómedíukrói í heiminn okkar 36. Efnið var ekki að verri endanum eða sjálfur konungur útlaganna Fjalla-Eyvindur. Mikil og góð stemning var á frumsýningu sem var um margt sérstök en hún fór fram utandyra að hætti söguhetjunnar. Sýnt var í Garðinum við Húsið á Ísafirði. Áhorfendur létu þó kuldan ekki buga sig og sátu sýninguna á enda. Hafið þökk fyrir það.

Næsta sýning verður laugardaginn 2. nóvember kl.20. Að þessu sinni verður sýnt innandyra eða í hinum fína sal Tónlistarskóla Ísafjarðar, Hömrum. Forsala er þegar hafin í Vestfirzku verzluninni og stendur yfir alveg fram að sýningardegi. Einnig er hægt að panta miða í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 891 7025. 

Miðaverð er aðeins 2.500.- kr. 

laugardagurinn 26. október 2013

Frumsýning á Fjalla-Eyvindi

Fjalla-Eyvindur frumsýningur í kveld.
Fjalla-Eyvindur frumsýningur í kveld.

Það er stór dagur í Kómedíuleikhúsinu í dag því upp er runninn frumsýningardagur. Síðustu tvo mánuði hafa æfingar staðið yfir á nýju íslensku leikverki um Fjalla-Eyvind. Nú er komið að því. Leikritið Fjalla-Eyvindur verður frumsýnt í kvöld og verður að því tilefni nokk óvenjuleg sýning. Því sýningin mun fara fram utandyra. Nánar tiltekið á útisviðinu í Garðinum við Húsið á Ísafirði. Það er ekki vitlaust að mæta í nútíma útileguklæðnaði á sýninguna en samt er nú spáð mjög góðu veðri á frumsýningarkveldi. Fjörið hefst kl.20.30 og þá fá áhorfendur góða upphitun í sinn maga. Gómsæta súpu að hætti Hússins. Að sýningu lokinni verður slegið upp kántrý dansiballi með hinni vinsælu Crazy Horse.

Miðaverð fyrir allt þetta, leiksýningu, súpu og dansiball er aðeins 2.900.- kr. Forsala fer fram í Vestfirzku verzluninni og er opið þar til kl.16 í dag. Einnig er hægt að bóka miða í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 891 7025. 

Eldri færslur