fimmtudagurinn 15. nóvember 2012

Bjálfansbarnið í skólum á Norðurlandi

Það styttist í leikferð Kómedíuleikhússins með barnaleikritið vinsæla Bjálfansbarnið og bræður hans. Leikritið var frumsýnt fyrir síðustu jól og fékk frábæra dóma. Jólasveinarnir vestfirsku ætla nú að mála landið rautt því sýningar verða ekki bara fyrir vestan. Vikuna 26. - 30. nóvember verður Bjálfansbarnið og bræður hans sýnt í leik- og grunnskólum á Norðurlandi. Fjölmargir skólar fyrir norðan hafa þegar pantað sýningunatil sín en enn er hægt að bæta við nokkrum skólum. Það er auðvelt að panta sýningu sendið okkur bara tölvupóst á komedia@komedia.is eða bjallið í okkur 891 7025. 

Að lokum má geta þess að vikuna eftir eða fystu vikuna í desember munu Bjálfansbarnið og bræður hans gera allt viltaust í skólum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Sala á þeim sýningum er einnig hafin. 

fimmtudagurinn 15. nóvember 2012

Bjálfansbarnið í skólum á Norðurlandi

Bjálfansbarnið fer norður í nóvember
Bjálfansbarnið fer norður í nóvember

Það styttist í leikferð Kómedíuleikhússins með barnaleikritið vinsæla Bjálfansbarnið og bræður hans. Leikritið var frumsýnt fyrir síðustu jól og fékk frábæra dóma. Jólasveinarnir vestfirsku ætla nú að mála landið rautt því sýningar verða ekki bara fyrir vestan. Vikuna 26. - 30. nóvember verður Bjálfansbarnið og bræður hans sýnt í leik- og grunnskólum á Norðurlandi. Fjölmargir skólar fyrir norðan hafa þegar pantað sýningunatil sín en enn er hægt að bæta við nokkrum skólum. Það er auðvelt að panta sýningu sendið okkur bara tölvupóst á komedia@komedia.is eða bjallið í okkur 891 7025. 

Að lokum má geta þess að vikuna eftir eða fystu vikuna í desember munu Bjálfansbarnið og bræður hans gera allt viltaust í skólum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Sala á þeim sýningum er einnig hafin. 

laugardagurinn 27. október 2012

Baulað á frumsýningu

Frá frumsýningu í Baldurshaga á Bíldudal
Frá frumsýningu í Baldurshaga á Bíldudal

Um síðustu helgi frumsýndi Kómedíuleikhúsið nýtt íslenskt leikverk Búkolla - Ævintýraheimur Muggs. Frumsýnt var á söguslóðum í fæðingarbæ listamannsins Muggs á Bíldudal við Arnarfjörð. Þar er frábært félagsheimili sem heitir Baldurshagi og þar hafa ófáar leiksýningarnar verið sýndar í gegnum árin. Það var alveg smekkfullur salur á frumsýningu á ævintýraleiknum Búkolla - Ævintýraheimur Muggs. Áhorfendur voru greinilega að fíla ævintýrið því í lokalagi sýningarinnar tóku gestir vel undir með leikaranum þegar hann baulaði einsog naut í viðlaginu. Að sýningu lokinni buðu lærifeður og verndarar Kómedíuleikhússins þeir Ágúst Gíslason, Hannes Friðriksson og Örn Gíslason öllum leikhúsgestum uppá vöfflur og gos. Það var sannkölluð hátíðarstemning á Bíldudal þennan góða sunnudag í lok október. Haft var að orði að langt væri síðan svo margir hafi komið saman á Bíldudal.

Búkolla er nú komin á fullt span og hefur leikurinn nú þegar verið sýndur fjórum sinnum á Bíldudal, Patreksfirði, Tálknafirði og í gærdag var sýnt á Suðureyri. Í komandi viku verða tvær sýningar á Búkollu á fimmtudag verður sýnt á Flateyri og daginn eftir verður sýning fyrir leikskólann Sólborg á Ísafirði.

Ævintýraleikurinn Búkolla hefur fengið frábærar viðtökur og ljóst er að þetta ævintýri er bara rétt að byrja. Að lokum má geta þess að þetta var 31 verkið sem Kómedíuleikhúsið frumsýnir á aðeins 15 árum. Það er nú bara ævintýri útaf fyrir sig.

föstudagurinn 19. október 2012

Búkolla frumsýnd á Bíldudal og það er frítt inn

Leikmyndin í Búkollu er mikið ævintýr
Leikmyndin í Búkollu er mikið ævintýr

Það verður ævintýralegur dagur á Bíldudal á sunnudag. Þá verður ævintýraleikritið Búkolla - Ævintýraheimur Muggs frumsýnt í Baldurshaga og það er frítt inná sýninguna. Það er Vesturbyggð sem býður uppá sýninguna og ekki er þó allt talið því styrtarsjóðurinn HannesÖrnÁgúst skellir í vöfflur fyrir alla að sýningu lokinni. Leiksýningin hefst kl.16 og nú er um að gera að fjölmenna í Baldurshaga og eiga ævintýralegan dag saman. Það er Kómedíuleikhúsinu sérstök ánægja að frumsýna Búkollu - Ævintýraheim Muggs á Bíldudal þar sem listamaðurinn ólst upp. Muggur varð fyrir miklum áhrifum á æskuárunum á Bíldudal og einmitt þar heillaðist hann af þjóðsögum og ævintýrum. Því á heimili hans var gömul kona sem hafði þann starfa einan að segja börnunum sögur, nei þetta er ekki grín. Þjóðsagnaarfurinn var Muggi mjög kær í hans myndlist og margar bestu mynda hans eru einmitt þjóðsagnamyndir hans.

Búkolla - Ævintýraheimur Muggs er sannkallað ævintýr þar sem allt getur gerst. Í aðalhluverki eru úrval þjóðsagna og ævintýra sem Muggur myndskreytti. Þar ber helst að nefna Sálin hans Jóns míns, Búkolla og síðast en ekki síst hans eigið ævintýr Dimmalimm.

Fjöldi listamanna kemur að sýningunni sem eiga það allir sameiginlegt að vera Vestfirðingar og ekki bara það heldur eru allir búsettir á Vestfjörðum í dag. Feðginin listelsku Kristján Gunnarsson og Marsibil G. Kristjánsdóttir hanna og gera leikmyndina sem er ævintýralegt listaverk skreytt myndum Muggs. Bæði hafa unnið mikið fyrir Kómedíuleikhúsið og eiga stóran þátt í góðu gengi leikhússins. Guðmundur Hjaltason semur alla tónlist í verkinu og er þetta í fyrsta sinn sem hann semur fyrir Kómedíuna en líklega ekki það síðasta. Höfundur og leikari Búkollu - Ævintýraheimur Muggs er Elfar Logi Hannesson.

Nú þegar er búið að bóka fjölmargar sýningar á Búkolla -Ævintýraheimur Muggs en fyrst um sinn verða sýningar á Vestfjörðum. Á nýju ári hefjast síðan sýningar um land allt.

Síðast en ekki síst er gaman að geta þess að Menningarráð Vestfjarða styrkir sýninguna með veglegu framlagi.

miðvikudagurinn 17. október 2012

Íslensk ævintýri ný Þjóðleg hljóðbók

Nýja Þjóðlega hljóðbókin komin í verslanir um land allt
Nýja Þjóðlega hljóðbókin komin í verslanir um land allt

Út er komin ný Þjóðleg hljóðbók. Að þessu sinni eru það Íslensk ævintýri. Að vanda sækir útgáfan í hinn djúpa og gjöfula þjóðsagnaarf þjóðarinnar. Ævintýrin íslensku eru fjölmörg og á Íslensk ævintýri má finna rjómann af þeim bestu. Öll ævintýrin á hljóðbókinni eru úr safni meistara Jóns Árnasonar. Meðal ævintýra á þessari Þjóðlegu hljóðbók, Íslensk ævintýri, má nefna Búkolla, Sagan af Fóu feykirófu, Lokalygi, Flugan og uxinn, Koltrýnu saga og síðast en ekki síst Karlssonur, Lítill, Trítill og fuglarnir. Hljóðbókin fæst í verslunum um land allt og einnig hér á heimasíðunni. Verðið er það sama góða og þjóðlega aðeins 1.999.- kr. Íslensk ævintýri er önnur Þjóðlega hljóðbókin sem kemur út á þessu ári en alls hafa verið gefnar út tíu Þjóðlegar hljóðbækur.

miðvikudagurinn 26. september 2012

Kómedían í Tónlistarskólann

Kómedíuleikhúsið verður til húsa í kjallaranum í Tónlistarskólanum
Kómedíuleikhúsið verður til húsa í kjallaranum í Tónlistarskólanum

Þessa dagaana er Kómedíuleikhúsið að flytja sig um set á eyrinni á Ísafirði. Síðustu tvö ár hefur leikhúsið haft aðsetur í Listakaupstað í Norðurtangahúsinu. En allt er breytingum háð. Og nú er Kómedíuleikhúsið búið að fá inni í kjallara Tónlistarskóla Ísafjarðar. Nánar tiltekið í rýminu þar sem matreiðslan var í gamla daga og seinna smíðakennsla. Þetta er því rými með sál og hlökkum við mikið til að koma okkur þarna fyrir. Við þökkum Tónlistarskólanum kærlega fyrir að hafa boðið okkur inn og Kómedían sér bara tækifæri við þennan flutning. Kómedíuleikhúsið hefur oft sýnt í sal Tónlistarskólans, Hömrum, m.a. voru tveir af fyrstu einleikjum okkar sýndir þar. Það eru því spennandi tímar framundan í Kómedíuleikhúsinu.

þriðjudagurinn 25. september 2012

Ævintýrið hefst á Bíldudal

Ævintýrið hefst á Bíldudal
Ævintýrið hefst á Bíldudal

Æfingar á nýju íslensku leikverki eru nú í blússandi gangi í Kómedíuleikhúsinu. Um er að ræða nýtt ævintýralegt leikrit fyrir börn á öllum aldri alveg frá 2.ja til 102.ja. Ævintýraleikurinn heitir Búkolla - Ævintýraheimur Muggs og eru hér tekin fyrir nokkur ævintýri og þjóðsögur sem bílddælski listamaðurinn Muggur myndstkreytti. Í gær bárust leikhúsinu frábærar fréttir en Vesturbyggð og fyrirtæki á Bíldudal ætla að bjóða öllum bæjarbúum á frumsýningu á Búkollu - Ævintýraheimi Muggs. Frumsýnt verður í Baldurshaga á Bíldudal sunnudaginn 21. október kl.15 og eru allir bæjarbúar ekki bara á Bíldudal heldur í allri Vesturbyggð velkomnir. Að sýningu lokinni verður boðið uppá veitingar að hætti Bílddælinga. Það er sannarlega ánægjulegt að frumsýna Búkollu í heimabæ Muggs sem er án efa einn frægasti sonur Arnarfjarðar. Varla er hægt að byrja ævintýri sem þetta á betri hátt. Eftir frumsýningu á Bíldudal tekur við leikferð í grunn- og leikskóla Vestfjarða en skólar eru þegar byrjaðir að panta sýninguna til sín.

Leikrit um Sigvalda Kaldalóns verður frumsýnt á leikárinu
Leikrit um Sigvalda Kaldalóns verður frumsýnt á leikárinu

Í dag er kómískur dagur. Því í dag kynnum við leikárið okkar sem er sannarlega ævintýralegt og sögulegt. Tvö ný íslensk leikrit verða frumsýnd auk þess verða tveir góðir kómedíukunningar áfram á fjölunum. Allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi á leikárinu því úrval sýninganna er sannarlega eitthvað fyrir alla. Fyrsta frumsýning leikársins er í október þegar ævintýraleikurinn Búkolla - Ævintýraheimur Muggs. Hér er á ferðinni ævintýraleg sýning fyrir börn á öllum aldri. Hér eru gömlu góðu þjóðsögurnar og ævintýrin í aðalhlutverki. Þessir þjóðlegu gullmolar sem vestfirski listamaðurinn Muggur myndskreytti svo vel að enn eru landmönnum að góðu kunn. Gullmolarnir sem við sögu koma eru Búkolla, Sálin hans Jóns míns og perlan Dimmalimm. Sýningin er ferðasýning og verður á fjölunum um land allt. Seinni frumsýning leikársins er einnig sótt í vestfirskan sagnaarf, Sigvaldi Kaldalóns. Doktorinn og tónskáldið átti litríka ævi. Hann tók við læknisembætti í einu afskekktasta læknishéraði landsins fyrir vestan og víst var lífið þar ekki einsog í einföldum söngleik. Þrátt fyrir það samdi Sigvaldi margar af sínum helstu sönglagaperlum á Kaldalónsárunum. Það er Elfar Logi Hannesson sem mun bregða sér í hlutverk Sigvalda en með honum á sviðinu verður tónlistarkonan Dagný Arnalds sem mun sjá um músík þátt sýningarinnar. Loks eru tveir sígildir Kómedíukunningjar á fjölunum á leikárinu. Fyrst ber að nefna fornkappann Gísla Súrsson. Sú sýning hefur verið á fjölunum síðan 2005 og hefur slegið í gegn svo ekki sé meira sagt. Sýningin hefur verið á ferðinni um land allt og einnig nokkrum sinnum á erlendri grund þar sem sýningin hefur unnið til verðlauna. Gísli Súrsson er fáanlegur bæði á íslensku og ensku og er sýndur um land allt árið um kring. Loks verður jólasýningin Bjálfansbarnið og bræður hans sýnd fyrir jólin. Að þessu sinni verður farið í leikferð með sýninguna bæði norður á land og einnig verður kikkað við í höfuðborginni.

Nánari upplýsingar um allar sýningar leikársins eru hér til hliðar á síðunni. Munið sýningar okkar eru allar ferðasýningar og eru því fáanlegar um land allt.

Kómedíuleikárið 2012 - 2013 er hafið hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu um land allt.

Góða Skemmtun.

þriðjudagurinn 4. september 2012

Leikárið kynnt á morgun

Listamaðurinn með barnshjartað var frumsýndur á síðasta leikári, ætli vestfirskir listamenn komi við sögu á komandi Kómedíuári
Listamaðurinn með barnshjartað var frumsýndur á síðasta leikári, ætli vestfirskir listamenn komi við sögu á komandi Kómedíuári

Lokaundirbúningur fyrir leikárið 2012 - 2013 stendur nú yfir. Kómedíuleikárið verður sannarlega ævintýralegt með listrænu ívafi. Fimmtudaginn 13. september mun leikárið koma innum lúguna á öllum heimilum Vestfjarða. En leikárið er nú kynnt í Vestfirsku dagskránni sem kemur einmitt út vikulega hér vestra á fimmtudögum. Þó gaman væri að segja eitthvað um sýningar leikársins þá ætlum við að bíða með það þangað til á fimmtudag í næstu viku.

Sérstök kynning á leikári Kómedíuleikhússins 2012 - 2013 verður síðan laugardaginn 15. september kl.15.05 í Listakaupstað á Ísafirði. Sama dag er haldin Flóamarkaður í kaupstað listanna og því um að gera að bregða sér í kaupstað laugardaginn 15. september.

þriðjudagurinn 21. ágúst 2012

Vinsælasta leiksýning Vestfjarða 237. sýning

Verðlaunasýningin Gísli Súrsson verður sýnd á söguslóðum miðvikudaginn 22. ágúst. Leikurinn verður sýndur á ensku fyrir 100 háskólanema sem dvelja nú hér vestra. Sýnt verður á Gíslastöðum í Haukadal sem stendur við enda tjarnarinnar þar sem ísknattleikurinn frægi var háður í Gísla sögu. Vinsældir leikritisins eru hreint ótrúlegar en ekkert vestfirskt leikrit hefur verið sýnt jafn oft en sýningin á miðvikudag er númer 237. Einleikurinn um Gísla Súrsson hefur verið sýndur um land allt og einnig víða erlendis í Albaníu, Lúxembúrg og Þýskalandi. Leikurinn hefur tvívegis fengið verðlaun á erlendum leiklistarhátíðum. Gísli Súrsson er hinsvegar ekkert á leiðinni í súr því í vetur verður skólum landsins boðið að fá sýninguna til sín. Einnig geta hópar ávallt pantað sýninguna sem hentar vel fyrir mannamót af öllum gerðum og aldurinn er jú bara afstæður því sýninguna fíla allir aldurshópar. 

Eldri færslur