mánudagurinn 28. maí 2018

2 sýningar á EG í vikunni

EG slær í gegn í Einarshúsi
EG slær í gegn í Einarshúsi

Okkar 42 verk var frumsýnt í liðinni viku í Einarshúsi Bolungavík. Um er að ræða kraftmikla- og sögulega sýningu er fjallar um hugsjóna og athafnamanninn Einar Guðfinnsson, eða EG. Nú þegar hafa verið sýndar þrjár sýningar á EG við fanta fínar viðtökur og aðsókn. Í þessari viku verða tvær sýningar á EG og eru þegar örfá sæti laus á aðra þeirra. Fyrri sýningin verður á fimmtudag 31. maí kl.20.00. Seinni sýningin verður á Sjómannadag, sunnudaginn 3. júní kl.17.00. Miðasala er í blússandi gangi í Einarshúsi sími 456 7901. Sýnt verður í Einarshúsi og er rétt að geta þess að ólíkt öðrum sýningum Kómedíuleikhússins sem jafnan hafa verið ferðasýningar þá verður EG aðeins sýnt í Einarshúsi Bolungavík.

Leikari í EG er Elfar Logi Hannesson sem einnig er höfundur leiksins ásamt Rúnar Guðbrandssyni sem jafnframt leikstýrir. Magnús Arnar Sigurðarson hannar lýsingu og höfundur tónlistar er Björn Thoroddsen.

EG er 42 verkefni Kómedíuleikhússins.

þriðjudagurinn 22. maí 2018

EG uppselt á frumsýningu

Uppselt á frumsýningu en miðasala hafin á næstu sýningar
Uppselt á frumsýningu en miðasala hafin á næstu sýningar

Kómedíuleikhúsið frumsýnir brakandi ferskan og nýjan einleik, EG, miðvikudaginn 23. maí. Um er að ræða verk um hinn einstaka athafnamann Einar Guðfinnsson í Bolungarvík. Sýnt verður á söguslóðum eða í Einarshúsi í Bolungarvík. Nú þegar er orðið uppselt á frumsýninguna. En miðasala er í blússandi gangi á 2. sýningu sem verður fimmtudaginn 24. maí og einnig á 3. sýningu sunnudaginn 27. maí kl.16.00. Miðasala fer fram í Einarshúsi Bolungarvík. Miðasölusíminn er 456 7901.
EG er einstakur einleikur um athafnamanninn og föður Bolungavíkur Einar Guðfinnsson. Ungur að árum hóf Einar útgerð á sexæringi. Hugurinn hans stefndi hátt og áður en yfir lauk hafði hann byggt upp mörg fyrirtæki í útgerð og margþættum rekstri. Hér er á ferðinni kraftmikil leiksýning þar sem róið er á ýmis mið og gjarnan teflt á tæpasta vað.
Höfundar leiksins eru þeir Elfar Logi Hannesson og Rúnar Guðbrandsson. Sá fyrrnefndi er í hlutverki Einars en Rúnar leikstýrir. Höfundar tónlistar er Björn Thoroddsen en lýsingu hannaði Magnús Arnar Sigurðsson. Það er hið vestfirska Kómedíuleikhús sem setur EG á senu. 
EG er 42 verkefni Kómedíleikhússins sem var stofnað árið 1997. 

mánudagurinn 23. apríl 2018

Lokasýning á Gísla á Uppsölum

Gísli yfirgefur senuna á fimmtudag
Gísli yfirgefur senuna á fimmtudag

Þá er bara komið að því. Lokasýning á hinum vinsæla leikverki Gísli á Uppsölum verður núna í vikunni. Gísli hefur nú verið sýndur um land allt og kannski táknrænt að sýningin verði í Þorlákshöfn. Þangað fór nú söguhetjan aldrei. En betra seint en ekki. Lokasýningin á Gísla á Uppsölum verður semsagt í Versölum í Þorlákshöfn á fimmtudag 26. apríl og hefst kl.20.00.

Verður þetta 83 sýning á leiknum sem gerir hana að þeirri næst sýningarmestu í sögu Kómedíuleikhússins. Annar Gísli þessi súri á metið með 320 sýningar og er hvergi nærri hættur. Við í Kómedíuleikhúsinu erum skýjum ofar með þær viðtökur sem landsmenn hafa sýnt okkar Gísla á Uppsölum. Ykkar orð eru okkar bestu laun. Gangi ykkur allt að sólu. 

föstudagurinn 20. apríl 2018

Uppselt á Gísla á Uppsölum

Ævintýrið í kringum sýningu okkar á leikritinu Gísli á Uppsölum hefur verið með hreinum ólíkindum. Leikurinn hefur nú verið sýndur yfir 80 sinnum um land allt en nú fer fjörinu að ljúka. Næst síðasta sýning sem jafnframt er sú 82 er núna á helginni og það er uppselt. Já, ekkert öðruvísi með það maður minn, einsog vinur okkar Hemmi Gunn hefði orðað svo snildarlega. Síðasta tækifæri til að sjá sýninguna um Gísla á Uppsölum verður fimmtudaginn 26. apríl og það í Þorlákshöfn. Sýnt verður í Versölum. Eftir það tekur við nýtt leikhúsævintýri því 17. maí frumsýnum við nýjan sögulegan einleik EG. Leikurinn verður aðeins sýndur á söguslóð eða í Einarshúsi í Bolungarvík. 

föstudagurinn 13. apríl 2018

80 sýning á Gísla á Uppsölum

Gísli í 80 sinn
Gísli í 80 sinn

Leikritið vinsæla um Gísla á Uppsölum hefur sannlega slegið í gegn. Nú er Gísli kominn austur og var fyrst sýndur í Egilsbúð Neskaupstað. Núna á laugardag, 14. apríl, verður Gísli á fjölunum í Valhöll Eskifirði. Er það jafnframt 80 sýning á leiknum. Hverjum hefði nú dottið það í hug að sýningarnar yrðu svona margar og víða. 

Nú fer hver að verða síðastur að sjá þessa vinsælu sýningu því það eru aðeins tvær sýningar eftir og er uppselt á aðra þeirra. En laust á lokasýninguna sem verður í Versölum Þorlákshöfn fimmtudaginn 26. apríl kl.20.00. 

mánudagurinn 9. apríl 2018

Lokasýningar á Gísla á Uppsölum

Nokkur þúsund manns hefur sótt sýninguna
Nokkur þúsund manns hefur sótt sýninguna

Leikæntýri Gísla á Uppsölum hefur sannlega verið sögulegt. Fáa óraði fyrir því að leikurinn yrði svo víðförull yrði ekki bara sýndur í Þjóðleikhúsinu heldur og um land allt. En sú var og raunin en nú fer sýningum á Gísla á Uppsölum loks að ljúka. Lokasýningar verða núna í apríl hvar leikurinn verður sýndur á fimm stöðum á jafnmörgum stöðum.

Á helginni heldur Gísli í annan gang austur á land. Leikurinn hefst á föstudag í Egilsbúð á Neskaupstað. Daginn eftir verður Gísi mættur í Valhöll á Eskifirði. Sunnudaginn 22. apríl verður Gísli sýndur í afmælisveislu ónefnds rakara í Reykjavíkurborg. Allra síðasta sýning verður síðan 26. apríl í Versölum í Þorlákshöfn og verður það jafnframt 82 sýning á einleiknum Gísli á Uppsölum. 

Kómedíuleikhúsið vill nota tækifærið og þakka þeim nokkur þúsund áhorfenda sem hafa komið á sýningu okkar um Gísla á Uppsölum. 

þriðjudagurinn 3. apríl 2018

320 sýning á Gísla Súrssyni

320 sinnum Gísli Súrsson en samt enn ferskur
320 sinnum Gísli Súrsson en samt enn ferskur

Það er orðin gömul en þó ekkert þreytt saga að fáum leyst vel á það í upphafi þegar við ákváðum að gera leiksýningu uppúr Gísla sögu Súrssonar. Hvað þá að það ætti að vera einleikur. Engin hafði trú á því að þetta ætti eftir að virka. Leika einhverja eldgamla og afdankaða Íslendingasögu um einhvern súran víking. En er það ekki einmitt þegar fæstum lýst vel á hugmyndina sem ráð er að frankvæma hana. Það höfum við í Kómedíuleikhúsinu sannlega gjört og vitið bara hvað á morgun verður 320 sýning á einleiknum Gísli Súrsson. 

Miðvikudaginn 4. apríl verður heldur betur söguleg stund í Haukadal. Þá verður verðlaunaleikritið Gísli Súrsson sýnt í 320 sinn. Uppelst er á sýninguna sem er á ensku en til gamans má geta þess að síðustu ár höfum við mun oftar sýnt leikinn á ensku en á frummálinu. Svona er nú leikhúsið ævintýralegt og óvænt. Þú veist aldrei áður en þú leggur af stað hvert leikurinn mun leiða þig. Eina sem þú getur gert er að smæla og feta hina einstöku leikhússlóð hverju sinni. Það höfum við sannlega gert með sýningu okkar Gísli Súrsson sem hefur verið á fjölunum síðan í febrúar 2005. Við höfum verið svo lánsöm að fá að ferðast um land allt með sýninguna og mörgum sinnum útfyrir landsteinana. Gísli hefur meira að segja verið sýndur í fæðingarþorpi sínu Súrnadal í Noregi. Í dag er leikurinn langoftast sýndur á öðrum söguslóðum hins Súra nefnilega í Haukadal í Dýrafirði. Nánar tiltekið á Gíslastöðum æva gömlu félagsheimili, þó ekki þúsund ára, en hefur verið breytt svo listilega að innan í víkingaskála. 

Það er mikið framundan hjá Gísla Súra í Haukadal í sumar fjölmargir hópar eru þangað væntanlegir. Gestir munu ekki bara sjá verðlaunaleikritð heldur og feta í spor sögupersónanna. Því hver ferð endar með sögugöngu um Haukadal. 

Að sjálfsögðu stefnum við að þvi að sýna okkar Gísla Súrsson eigi sjaldnar en 400 sinnum helst oftar. Hver hefði trúað því?

þriðjudagurinn 13. mars 2018

Gísli á Uppsölum snýr aftur á Skírdag

Gísli snýr aftur á Skírdag
Gísli snýr aftur á Skírdag

Sýningum á hinum vinsæla og áhrifamikla leik Gísli á Uppsölum er hvergi nærri lokið. Á páskum hefjast leikar að nýju með sýningu á Þingeyri á Skírdag, fimmtudaginn 29. mars. Sýnt verður í Félagsheimilinu kl.20. Miðasala er þegar komin í blússandi gang og fer fram á www.tix.is. Einnig er hægt að bjalla í miðasölusímann 891 7025. 

Sýningin á Gísla á Uppsölum á Skírdag á Þingeyri er sú 78. Engum datt það í hug að leikurinn mundi fara svo víða sem raun hefur orðið og fátt annað að gjöra en að halda áfram og stefna allavega í þriggja stafa sýningartöluna. Skírdagssýningin markar einmitt upphaf af endurkomu Gísla á Uppsölum á senunni. Þegar eru tvær sýningar bókaðar í apríl sunnan lands og er nú þegar uppselt á aðra þeirra. Einnig er stefnan tekin á leikferð austur og er það í annan gang sem Gísli fer á austurlandið. 

miðvikudagurinn 31. janúar 2018

Sýningasamningur við Vesturbyggð

Kómedíuleikhúsið verður áberandi í Vesturbyggð á árinu
Kómedíuleikhúsið verður áberandi í Vesturbyggð á árinu

Kómedíuleikhúsið og Vesturbyggð hafa gjört með sér samning um kaup sveitarfélagsins á sýningum frá Kómedíuleikhúsinu fyrir sínar stofnanir. Um er að ræða alls fjórar sýningar á jafnmörgum stofnunum. Þrjár skólasýningar fyrir leik-og grunnskólana bæði á Bíldudal og Patreksfirði. Einnig verða tvær listadagskrár annars vegar fyrir eldri borgara á Bíldudal og hinsvegar fyrir eldri borgara Patreksfjarðar. Allir þessi viðburðir verða á þessu ári svo það verður sannlega fjör í listalífinu í Vesturbyggð. 

Kómedíuleikhúsið er sérlega ánægt með þennan samning sem bæði styrkir og eflir eina atvinnuleikhús Vestfjarða. Ísafjarðarbær hefur nú nokkur síðustu ár verið með verkefnasamning við Kómedíuleikhúsið og á næstunni verður undirritaður samstarfssamningur við Bolungarvík um listviðburði í þeim mæta bæ. Nú er bara spurning hvort fleiri sveitar-og bæjarfélög landsins leiti til Kómedíuleikhússins og óski eftir föstum sýningum og viðburðum frá leikhúsinu. Að vanda er Kómedíuleikhúsið endalaust til í að ferðast um landið með verk sín. Svo má nú líka geta þess að þegar gerðir eru svona flottir listasamningar um nokkra viðburði þá fæst náttúrulega besta verðið.

Áhugasamir er velkomið að hafa samband við okkur og upplagt að byrja á því að senda okkur tölvupóst komedia@komedia.is

Við svörum öllum tölvupóstum og hlökkum til að heyra í ykkur hvar sem þið eruð á landinu. 

mánudagurinn 22. janúar 2018

Okkar besta ár

Tvær nýjar  bækur og Gísli hinn uppseldi
Tvær nýjar bækur og Gísli hinn uppseldi

En hvers er að minnast og hvað er það þá,

sem helst skal í minningu geyma?

Svo orti og spurði skáldið Valdimar Briem í kvæðinu sem gjarnan er flutt við áramót. Kvæðið með svo alltof langa nafninu Nú árið er liðið við aldanna skaut. Víst getur það verið breytilegt hvað varðveitist í manns minningu. Mörgum finnst dægur og gærdagsminning of ríkjandi hér á landi t.d. varðandi verðlaunaveitingar. Það muna menn betur sem gjörðist í gær en hins sem fór fram fyrir einhverju síðan og hefur kannski varað, starfað, lengi. Samt hefur einmitt hinn skilað miklu meiru til samfélagsins. Oft vill þetta gleymast en líklega mun stundargleðin og tækifæristískan halda velli í samfélaginu og þá ekki síst í listheiminum.

Nú er ritari búinn að koma sér í all mikla klípu við að horfa einmitt yfir árið sem alveg er að kveðja og gjöra einsog dægurmennirnir velja úr það er minnast skal og vona svo að það muni í minningu geymist lengur en núið. Að vera stórtækur til orða er efitt þegar rætt er um eigið apparat. Samt má óhikað segja að alveg að verða búið árið sé hið sögulegasta og ef ekki bara besta ár Kómedíuleikhússins. Er dægur og stundargleðinn alveg búinn að ná tökum á ritara eða hvað? Aðeins eitt að gjöra. Líta yfir helstu Kómedíufréttir ársins 2017.

 

Gísli hinn uppseldi

Víst byrjaði árið með sérlega kómískum hætti og það á 13 degi ársins. Þá sýndum við Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu. Hvernig það kom til er stutt saga að segja frá. Eftir að við höfðum sýnt Gísla yfir tuttugu sinnum hér og þar um landið árið áður við góðan orðstír sendum við erindi á Þjóðleihúsið þess efnis hvort við gætum mögulega sýnt Gísla hjá þeim. Þjóðleikhússtjóri tók vel í erindið og ákveðið var að setja á einar fjórar sýningar. Víst fór nú um Kómedíuna þá. Fjórar sýningar, vahá það er eins gott að einhver mæti. Skemmst er að segja að þessar fjórar sýningar seldust upp og einnig þær næstu sem á eftir komu. Að endingu urðu sýningarnar 20 í Þjóðleikhúsinu og nánast alltaf fyrir uppseldu húis.

Annað kómískst gjörðist á þessu sýningartímabili á Gísla í Þjóðleikhúsinu. Gaggarar tóku að mæta og rita um okkur. Þetta hefði ekki gjörst síðan tvöþúsund og eitthvað. Enda höfum við aðallega verið að sýna á landsbyggðinni hvar gaggarar lítið kikka á. Ef við sýnum í borginni þá er það oftast bara ein tvær sýningar í senn. Hvað sem má segja um gagg þá hefur það mikið að segja í leikhúsinu og bara í listalífinu. Kómedíuleikhúsið þótti sérlega vænt um að fá alla þessa gaggara loksins í leikhúsið til að kikka á vor verk. Og vitið bara hvað, gaggið var almennt mjög gott og okkur í vil. Þorgeir Tryggvason, gaggari Moggans, gaf sýningunni t.d. 4 stjörnur og sagði m.a.:

 „Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.“

Eftir gott gengi í leikhúsi þjóðarinnar hélt Gísli áfram yfirferð sinni um landið en í það heila var leikurinn sýndur 55 sinnum á árinu.

 

Hin G-in tvö

Það mætti halda að það sé skilyrði að leikverk Kómedíuleihússins verði að byrja á bókstafnum G. Það er ekki bara nefndur Gísli heldur og nafni hans Súrsson sem hefur verið á fjölunum lengur en elstu menn muna eða frá 2005. Fjölmargar sýningar voru á árinu flestar á söguslóðum í Haukadal í Dýrafirði en einnig í skólum. Gísli Súrsson er lang mest sýnda leikrit Vestfjarða og þó víðar væri kikkað. Alls hefur leikurinn nú verið sýndur 318 sinnum en vitið bara hvað það er hellingur af sýningum planlagðar á komandi kómísku ári. Hve tilveran er dásamleg, stundum.

Hitt G- leikrit okkar Grettir gjörðist víðförult því í lok janúar var skundað alla leið til Hjaltlandseyja. Þar var leikurinn sýndur nokkra ganga á sérstakri víkingasögu ráðstefnu, Follow the Vikings, er  haldin var í Leirvík þar í eyju. Voru það um leið síðustu sýningar á Gretti. Sýningin gekk sannlega vel og er 4 mest sýnda leikrit Kómedíuleikhússins var fluttur 61 sinni.

 

Tvö bókverk

Kómedíuleihúsið hefur í mörg ár duddað sér nokkuð við útgáfu. Fyrst á hljóðbókum en síðustu ár höfum við hinsvegar einbeitt okkur að bókaútgáfu. Árið 2017 gáfum við út tvö bókverk. Í júní barnabókina Muggur saga af strák eftir listahjónin Elfar Loga Hannesson og Marsbil G. Kristjánsdóttur. Um er að ræða skáldaða sögu um æsku hins bílddælska listamanns Muggs, Guðmundar Thorsteinssonar. Víst hefur listamaðurinn sá verið í miklu uppáhaldi hjá okkur. Fyrsti stóri einleikur okkar var einmitt um hans ævi einnig höfum við gert tvær barnasýningar byggðar á verkum Muggs.

Talandi um einleik sem hefur jú verið okkar uppáhald þá fannst okkur vel við hæfi að gefa út Einleikjasögu Íslands. Höfndur áðurnefndur Elfar Logi og kom bókverkið út í september. Var bókin fjármögnuð á Karolina fund og er það í annan gang sem við fjármögnum bókverk á þann hátt. Aldrei að vita nema við gjörum það á nýjan leik enda höfum við fullan hug á að halda áfram að gefa út bækur og höfum þegar ákveðið að gefa út allavega eina á komandi frábæru ári.

 

Lýsandi gjöf

Nú fer þessi pistill að verða alltof langur og spurning hvort allt þetta verði geymt í varanlegri minningu. Það mun hinsvegar án efa gjöra tvær sérlega lýsandi gjafir er leikhúsið fékk á árinu. Þegar við vorum á leikferð um norðurland með Gísla á Uppsölum sýndum við m.a. á Skagaströnd. Þar býr hugsjónamaðurinn Árni Geir og að lokinni sýningu færði hann Kómedíuleikhúsinu nokkra ljóskastara að gjöf. Stuttu síðar barst okkur önnur lýsandi gjöf. Kom hún frá kollegum okkar á Akureyri, já sjálfu Leikfélagi Akureyrar sem færði okkur á annan tuga ljóskastara. Kómedíuleikhúsið er upp með sér með þessar lýsandi gjafir og sannlega má segja að við verðum vel upplýst næstu árin.

Margt fleira mætti nefna á hinum bráðum búnu 2017 í daglegum önnum Kómedíuleikhússins en látum hér nóg sagt. Kómedíuleikhúsið þakkar sínum fjölmörgum styrktaraðilum, velunnurum og síðast en ekki síst áhorfendum um land allt kærlega fyrir árið 2017. Framundan er nýtt kómískt ár og mikið sem okkur hlakkar til að eiga stefnumót við ykkur öll í leikhúsinu. Það er líka margt kómískt væntanlegt þar á meðal tveir nýjir einleikir. Annar þeirra verður frumsýndur í maí hinn í ágúst og auðvitað heldur okkar tvöfalda Gíslataka áfram.

Gangi ykkur allt í vil, verum hress og njótum þess.

Elfar Logi Hannesson, vinnumaður hjá Kómedíuleikhúsinu

Eldri færslur