Gísli orðinn fastagestur í Þjóðleikhúsinu og líkar það vel
Gísli orðinn fastagestur í Þjóðleikhúsinu og líkar það vel

Sýningar á Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu hafa gengið fyrir fullu húsi frá fyrstu sýningu. Þremur aukasýningum var bætt við og er að seljast upp á tvær þær síðustu núna á miðvikudag og fimmtudag. Því hefur verið bætt við aukaaukasýningum á helginni. Sýnt verður laugardag og sunnudag kl.17.00 báða dagana. Miðasala er þegar komin á fullt og fer fram á netinu á afþreyingarsölusíðunni www.tix.is

Einnig er hægt að panta miða í miðasölusíma Þjóðleikhússins 551 1200.

Að þeim sýningum loknum hefur Gísli verið sýndur alls 12 sinnum í Þjóðleikhúsinu en upphaflega stóð aðeins til að sýningarnar yrðu 2. Svona er nú lífið kómískt.

Kómedíuleikhúsið þakkar kærlega viðtökurnar á Gísla á Uppsölum. 

Gísli uppseldur í Þjóðleikhúsinu
Gísli uppseldur í Þjóðleikhúsinu

Það er óhætt að segja að viðtökur á leikverkinu Gísli á Uppsölum hafi verið framar öllum vonum. Núna í janúar hefur leikurinn verið sýndur í Þjóðleikhúsinu fyrir fullu húsi alls sjö sinnum. Og nú er allt að uppseljast á aukasýningarnar 3 í febrúar í leikhúsi þjóðarinnar. Kannski verður bara að bæta við aukaaukasýningum? Allavega ekki hika heldur vippaðu þér beint inna www.tix.is og bókaðu miða á Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu. 

Gagnrýnendur hafa ekki síður verið hrifnir af sýningunni. Morgunblaðið gaf sýningunni 4 stjörnur, rýnir Víðsjá á Rás eitt var einnig stórhrifinn og gaf leiknum bestu einkun, sem og rýnir Fréttablaðsins sem hafði þó stjörnurnar aðeins þrjár. Gaggarar Kastljóssins fara ávallt eigin leiðir í sínu gaggi verst hvað maður á erfitt með að skilja þá og hvað þá umjónarmanninn er hann kannski gaggarinn? 

Ekki missa af Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu í febrúar. 

mánudagurinn 23. janúar 2017

Gísli uppseldur í Þjóðleikhúsinu

Uppselt hefur verið á allar sýningarnar í Þjóðleikhúsinu
Uppselt hefur verið á allar sýningarnar í Þjóðleikhúsinu

Uppselt hefur verið að allar sýningar á Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu. Næsta sýning er á miðvikudag og það er einnig orðið uppselt á hana. Því hefur verið ákveðið að bæta við þremur aukasýningum í febrúar. Sunnudaginn 5. febrúar kl.14, miðvikudaginn 8. og fimmtudaginn 9. febrúar kl.19.30 báða dagana. Miðasala á aukasýningarnar er hafin og gengur sérlega vel þannig að nú er bara að ná sér í miða. Miðasala fer fram á www.tix.is einnig er hægt að hringja í miðasölusíma Þjóðleikhússins 551 1200.

Upphaflega stóð til að sýningar í Þjóðleikhúsinu á Gísla á Uppsölum yrðu 3 en nú eru komnar 10 á dagatalið og stefnir jafnvel í ennfleiri. Leikurinn hefur fengið afar góða dóma og gaf gagnrýnandi Morgunblaðsins sýningunni einar 4 stjörnur. 

Gaman er að geta þess að Kómedíuleihúsið hefur nú þegar þegið boð frá stöðum um land allt næstu misserin hvar Gísli á Uppsölum verður sýndur. Við hlökkum til stundarinnar um land allt. 

Gísli búinn að fylla 4 sýningar í leikhúsi þjóðarinnar
Gísli búinn að fylla 4 sýningar í leikhúsi þjóðarinnar

Hinn dásmlega föstudaginn 13. janúar hefjast sýningar á Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu. Leikurinn hefur farið sigurför um landið síðan í haust og hlotið einlæglegar viðtökur. Óhætt er að segja að mikil spenna sé í landinu enda er þetta í fyrsta sinn sem Kómedíuleikhúsið sýnir í leikhúsi þjóðarinnar. Það er mikil eftirvænting meðal áhorfenda því nú þegar er uppselt á fyrstu fjórar sýningarnar á Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu. Upphaflega stóð til að sýningar yrðu aðeins 3 en nú eru þær orðnar 6 og jafnvel verður enn bætt við sýningum. 

Miðasala fer fram á www.tix.is og í miðasölusíma Þjóðleikhússins 551 1200

 

Sýningar á Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu

1. sýning föstudaginn 13. janúar kl.19.30 UPPSELT

2. sýning sunnudaginn 15. janúar kl.14.00 UPPSELT

3. sýning miðvikudaginn 18. janúar kl.19.30 UPPSELT

4. sýning föstudaginn 20. janúar kl.19.30 UPPSELT

5. sýning sunnudaginn 22. janúar kl.14.00

6. sýning miðvikudaginn 25. janúar kl.19.30

miðvikudagurinn 28. desember 2016

Annáll ársins

Hinar kómísku tölu ársins eru 19 - 40 - 71. Bingó. Hvað á þetta eiginlega að fyrirstylla segja eflaust margir ef ekki allir og ekki skrítið en þó er kómísk merking bakvið hverja þessara talna. Þetta er 19 árið okkar, já við erum að verða tvítug bráðum, þá verður að vera allavega partý. 40 stendur fyrir að á árinu sem er alveg að verða búið frumsýndum við 40 verk okkar. Já, þau eru orðin 40 hin kómísku verk sem er líklega algjört met allavega hve varðar frumflutning. Því öll verkin nema eitt voru frumflutt af okkur, já við höfum á 19 árum skapað 19 ný íslensk leikverk. Gjörir okkur sennilega af duglegasta sjálfstæða leikhúsi landsins hvað þetta varðar. Loks er það talan 71 sem stendur fyrir þann fjölda sýninga sem við sýndum á árinu. 

Það má segja að þetta sé bara gott bingó á einu ári. Okkar 19 ár er brátt á enda runnið og rétt að gera einsog siður er við áramót að gera upp árið. 

 

Jólin rotuð sem og tvær sýningar

Hátíðir hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þá ekki síst hátíð hátíðanna sjálf jólin. Við höfum til að mynda sett upp tvö ný jólaleikrit, íslenskt að sjálfsögðu. Síðan um aldamót höfum við verið sérlegir umboðsmenn hinna vinsælu Hurðaskellis og Stúfs sem hafa sannarlega málið bæinn rauðann hér vestra síðsutu 16 jól. Þegar okkur var boðið að sjá um listræna stjórn Þrettándaskemmtunar Ísafjarðarbæjar sögðu við náttúrulega strax já. Segjum reyndar nánast alltaf já, enda lífið alltof stutt fyrir annað. Skemmtun þessi er haldin annaðhvort ár á Ísafirði en hitt árið í Bolungarvík. Þó fyrirvarinn hafi verið skammur má segja að vel hafi lukkast að rota jólin með okkar hætti. Við fengum til liðs við okkur fjölmarga listamenn og úr varð hin besta skemmtan fjölskyldunnar.

Í upphafi stóð til að jólin yrðu rotuð á hinu alltof lítið notaða Silfurtorgi á Ísafirði en þar sem veðrið var eitthvað að flýta sér varð að færa skemmtanina inn í hús. Jólasveinarnir sögðu reyndar að þetta hafi nú allt haft sínar skýringar því móðir þeirra, hún Grýla hafi bara fengið svona heiftarlega magakveisu og því hafi blásið svona úr öllum áttum. Við fengum inni í menningarhofi Vestfjarða í Edinborgarhúsinu þar sem sannarlega var kippt í alla spotta með svo skömmum fyrirvara en allt gekk þar að óskum. Það er álit manna, jólasveina og annarra vætta að þetta hafi verið sérlega vel lukkuð skemmtan. Það má því alveg búast við því að við tökum að okkur að rota jólin aftur í Ísafjarðarbæ. 

Talandi um að rota þá má geta þess að tvær leiksýningar voru rotaðar á árinu og þar með endanlega kvaddar. Þetta er ævintýraleikurinn Búkolla sem var sýndur um 50 sinnum og óbyggðaleikurinn Fjalla-Eyvindur sem var sýndur yfir 30 sinnum. Það eru bara forréttindi að ná og fá að sýna leikrit svona oft og hvað þá svo víða um landið. Nú látum vér leik lokið með þessa tvo leiki og þökkum viötökur landsmanna. 

 

Daðrað við Sjeikspír

Það eru alltaf einhver tímamót þetta árið var engin undanteking á þvi. Það var t.d. 400 ára afmæli mesta leikskálds allra tíma á árinu og því fannst okkur vert að fagna á veglegan hátt. William Shakespeare er án nokkurs vafi risinn í leikhúsinu það sanna verk hans sem eldast jafnvel og okkar ástkæru Íslendingasögur. Þar sem við erum vestfirskt leikhús og leggjum áherslu á að vinna með eigin sagnaarf þá kom ekkert annað til greina en að vinna með vestfirskar þýðingar stórskáldsins. Hinn vestfirski Matthías Jochumsson snaraði nefnilega einum 4 verkum úr smiðju Shakespeare yfir á okkar ylhýra. Þannig var grindin komin fyrir okkar tímamótaverk um ævi og feril William Shakespeare. 

Leikin nefndum við Daðrað við Sjeikspír þar sem flutt voru brot úr 4 verkum stórskáldsins og inná milli voru fléttaðir nokkrir æviþættir kappans. Kómedíuleikhúsið er þekkt fyrir margt m.a. það að setja upp einleiki en að þessu sinni var ákveðið að bæta 100 prósent við fjöldan á leiksvðinu enda tímamótin til. Leikarar voru Anna Sigríður Ólafsdóttir og Elfar Logi Hannesson. Búninga gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir og leikstjóri var Víkingur Kristjánsson sem hér stýrði sínu öðru verki hjá okkur. 

Við höfum í gegnum tíðina frumsýnt víða um okkar hérað þ.e. Vestfirðina. Allt frá Arnardals til Arnarfjarðar og allt þar á millum. Að þessu sinni var frumsýnt í Bolungarvík í Hörpu Vestfjarða á fæðingardegi Sjeikspírs 23. apríl. Eftir það var farið í leikferð um Vestfirði en alls urðu sýningar 7 talsins. 

 

Gísli á Uppölum 40 kómedían

Einsog líklega mörg önnur leikhús og ja bara listaapparöt þá eigum við okkar banka. Hugmyndabanka yfir verkefni sem gaman væri að fást við. Sífellt bætist í vorn kómíska banka og má því segja að við séum rík í því tilliti. Á þessum langa draumaverkefna lista okkar hefur lengi verið Gísli nokkur á Uppsölum. Saga hans hefur verið landanum hugleikinn allt frá þvi hann birtist fyrst á sjónvarpsskjám landsmanna. Svo hugleikinn hefur hann verið mörgum að þeir voru mun fleiri sem leist engan vegin á þau áform okkar að gera leiksýnigu um þennan einstaka mann. En það er einmitt þegar engum líst vel á þína hugmynd sem þú átt að framkvæma hana. Það á sannarlega við okkur því engum leist vel á það þegar við ákváðum að gera einleik uppúr Gísla sögu Súrssonar. Svo ef þú lesandi góður ert með hugmynd sem engum líst á þá endilega framkvæmdu hana - þetta gæti verið þitt bingó. 

Enn voru tímamót okkur hugleikin og nú okkar eigin. Því þegar hinu kómíska sýningarbókhaldi var flétt kom í ljós að næsta uppfærsla væri okkar 40. Fannst okkur vel við hæfi að hjá hinu vestfirska leikhúsi skyldi það vera saga vestfirska einbúans Gísla á Uppsölum sem er líklega mesti Vestfirðingur allra tíma. Undirbúningur fyrir þessa uppfærslu átti sér langan aðdraganda því ár leið frá því að undirbúningur hófst og þar til verkið var tilbúið til frumsýningar. Sem er svosem ekkert skrýtið hér er um einstaka sögu að ræða sem vissulega kemur við sellur okkar allra. 

Aðstandendur sýningarinnar voru allir vestfirskir nema hvað. Handrit gerðu Arnfirðingarnir Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson. Sá fyrrnefndi var einnig í hlutverki Gísla og hinn síðarnefndi leikstýrði. Höfundur tónlistar var Önfirðingurinn Svavar Knútur og ljósameistari var Patreksfirðingurinn Magnús Arnar Sigurðsson. Þar sem hér var um einstakt verkefni að ræða og um leið okkar 40 verk vildum við gera frumsýninguna á sögulegan hátt. Það var sannarlega gert með því að frumsýna í sögudalnum sjálfum í Selárdalskirkju 25. september. Eftir það hófst leikferð um landið og hafa viðtökur verið alveg einstakar. Í það heila var leikurinn sýndur 20 sinnum á árinu og á komandi ári er hellingur framundan. Það eru veruleg forréttindi að fá að flytja sögu Gísla svo víða um landið og helst vildum við sýna í hverju einasta þorpi landsins og einnig í öllum bæjum. Því saga Gísla á sannarlega erindi við okkur öll. 

 

Ár Grettis

Í fyrsta sinn síðan 2005 er nýr kappi í aðalhlutverki ársins okkar. Hinn kraftmikli Grettir átti einfaldalega árið í ár og lét Gísla bara nánast í súrinn sem var þó sýndur 6 sinnum á árinu. En Grettir hann var sýndur yfir 30 sinnum ekki bara hér heima heldur og á Spáni. Gaman er að geta þess að langflestar sýningarnar voru á ensku. Þetta er einsog svo oft áður í listinni, viðurkenningin kemur að utan.

Kómedíuleikhúsið hefur ávallt verið skotið í menningartengdri ferðaþjónustu enda finnst okkur að verk okkar falli sérlega vel að þeirri tegund ferðamennsku. Því ákváðum við að taka enn einn dansinn í sumar og bjóða uppá vikulegar sýningar á Gretti á ensku yfir sumartímann. Sýnt var í menningarhofi Vestfjarða í Edinborgarhúsinu alla miðvikudaga í júní og júlí. Vissulega var þetta einsog svo margt annað sígandi gengi og jafnvel smá lukka. Á fyrstu sýningu komu 4, næstu helmingi fleiri svo bara allt í einu 15 áhorfendur og eftir það aldrei færri en 11. Eftir því sem okkur skilst þá er þetta gott gengi verkefnis á fyrsta ári. Svo líklega leggjum við í annað ferðamannaleikár með Gretti komandi sumar.

Grettir lét ekki þar við sitja heldur náði hann einnig að selja sig um borð í skemmtiferðaskip á Ísafirði. Það lukkaðist svo vel að viðkomandi skipafélag keypti 3 sýningar til og hefur nú bókað 8 sýningar fyrir komandi sumarvertíð. Ja ef öll súlurit væru svona kómísk væri gaman að lifa. 

Ekki má svo gleyma utanför Grettis í maí. Fyrr um veturinn fengum óvenjulegt boð frá Spánverjalandi hvort við værum ekki til í að koma með þennan kraftmikla Íslendingasagna leik og sýna í skólum. Sannalega kómísk hugmynd og því sögðum við strax já. Sjáum ekki eftir því enda var þetta einn af hápunktunum í okkar siglingum með verk okkar. Það hefur meira að segja verið nefnt við okkur hvort við viljum ekki koma aftur og auðvitað sögðum við bara já. Nema hvað. 

 

71 sýning og enn fleiri þakkir

Þó Kómedíuleikhúsið sé orðið 19 ár þá erum við enn að harka. Enn að berjast við mánaðarmótin en það er þó huggun harmi gegn að við teljum okkur ekki vera ein í þeim listahópi. Það er þó ekki hægt að segja annað en við séum nokk iðin. Frumsýndum tvö ný verk á árinu. Sýndum verk okkar alls 71 sinni bæði hér heima og erlendis. Auk marga annarra minni kómískra ævintýra s.s. þrettándagleði, jólasveinaumboð, skemmtanir á 17. júní og þannig mætti lengi telja. Auðvitað hefði verið gaman að hafa gert meira en við verðum nú að eiga eitthvað eftir og hafa til einhvers að hlakka á komandi kómísku ári. 

Við áramót er rétt að þakka fyrir sig. Ástarþakkir færum við styrktaraðilum okkar og vel unnurum fyrir að hafa trú á Kómedíunni öll okkar 19 ár. Áhorfendur um land allt þökkum við komuna í leikhúsið án ykkar værum við öll. 

 

Hvað boðar kómsíkst ár

Einsog á árinu sem er alveg að verða búið má segja að árið byrji með stæl því á fyrsta mánuði ársins siglum við utan. Alla leið til Hjaltlandseyja hvar vor kraftmikli Grettir, nema hvað, verður sýndur á sérstakri víkingaráðstefnu. 

Ekki nóg með það heldur verður Gísli á Uppsölum sýndur í Þjóðleikhúsinu í janúar. Frumsýnt verður föstudaginn 13. janúar miðasala gengur frábærlega.

Undirbúningur fyrir 41 verkefni okkar er löngu hafin. Án þess að gefa of mikið upp um það má þó geta þess að hér er á ferðinni morðgátuleikverk. Ber hið kómíska nafn Morð fyrir tvo. Höfundar eru Elfar Logi Hannesson og Ragnar Jónasson, einn fremsti glæpasagnahöfundur þjóðarinnar. 

 

Vor kómíska ósk

Að lokum viljum við koma með eina kómíska ósk. Elsku RÚV viljið þið nú taka ykkur á í að fjalla um listir og menningu á landsbyggð á ykkar miðlum. Það er nefnilega þannig að ef nota á slagorð á borð við Okkar allra - verður að standa undir því og fjalla um lífið í landinu öllu. Það er alltaf tækifæri í öllum stöðum og hér er sannarlega ykkar tækifæri. Eða eigum við kannski frekar að segja betra seint en ekki. 

laugardagurinn 10. desember 2016

Gísli á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu

Gísli að fylla Þjóðleikhúsið
Gísli að fylla Þjóðleikhúsið

Hin vinsæla og áhrifamikla sýning Gísli á Uppsölum verður sýnd í Þjóðleikhúsinu í janúar. Fyrsta sýning í Þjóðleikhúsinu verður föstudaginn 13. janúar og eru aðeins örfá sæti laus á þá sýningu. Önnur sýning verður sunnudaginn 15. janúar kl.14. Miðasala á báðar sýningarnar fer fram á www.tix.is 

Sýningin um Gísla á Uppsölum hefur fengið frábærar viðtökur og var nú síðast á uppseldri senu á Selfossi. Leikurinn hefur nú þegar verið sýndur um 20 sinnum hér og þar um landið. Frumsýnt var á söguslóðum í Selárdal í lok september. Eftir það hefur leikurinn m.a. verið sýndur á Þingeyri, Hvammstanga, Ísafirði, Patreksfirði, Akureyri og Bolungarvik. 

Áhorfendur hafa orðið og hafa þeir m.a. þetta hér að segja um leiksýninguna Gísli á Uppsölum:

 

,,Stórkostlegt í einu orði sagt."

,,Þessi sýning kom við allan tilfinningaskalann."

,,Mæli hiklaust með sýningunni sem er allt frá því að vera afar sorgleg uppí bráðskemmtileg."

,,Fór á alveg brilljant leiksýningu áðan. Það var einleikurinn Gísli á Uppsölum sem um ræðir og mæli ég eindregið með henni!"

,,Það er ekki heiglum hent að túlka líf manns einsog Gísla, þannig að hvorki gæti háðs né harms úr hófi fram. En þetta tókst Elfari Loga með miklum ágætum."

miðvikudagurinn 7. desember 2016

Uppselt á Gísla á Uppsölum á Selfossi

Uppselt á Selfossi og í Bolungarvík
Uppselt á Selfossi og í Bolungarvík

Hin áhrifamikla sýning Gísli á Uppsölum verður á fjölunum á Selfossi á helginni. Nú þegar er orðið uppselt á sýninguna sem er á föstudag 9. desember. Sýnt verður í hinnu frábæra Fischersetri og hefst leikur klukkan átta. Aðeins verður um þessa einu sýningu að ræða á Selfossi að þessu sinni. 

Gaman er að geta þess að ein sýning verður á Gísla fyrir jól og það er einnig uppselt á hana. Sú sýning verður í Bolungarvík 14. desember. Verður það jafnframt 20 sýningin á leiknum sem var frumsýndur á söguslóðum í Selárdal í lok september liðnum. 

Eftir áramót hefjast sýningar á Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu. Aðeins örfá sæti eru nú laus á fyrri sýninguna sem er föstudaginn 13. janúar. Önnur sýning verður sunnudaginn 15. janúar. Miðasala á báðar sýningarnar í Þjóðleikhúsinu fer fram hér

 

https://tix.is/is/buyingflow/tickets/3433/

 

 

þriðjudagurinn 29. nóvember 2016

Gísli á Uppsölum á Ísafirði

Gísli loksins sýndur á Ísafirði
Gísli loksins sýndur á Ísafirði

Leikritið vinsæla um Gísla á Uppsölum hefur verið sýnt svo gott sem í hverri viku síðustu tvo mánuði.Sýningar hafa verið víða um landið allt frá Selárdals til Siglufjarðar og allt þar á millum og í kring. Nú er röðin komin að Ísafirði. 

Gísli á Uppsölum verður sýndur á fullveldisdegi þjóðarinnar fimmtudaginn 1. desember kl.20. Sýningarstaðurinn er um margt mangaður og einstakur. Um er að ræða hið reislulega hús í Hæstakaupstað á Ísafirði þar sem m.a. var starfrækt líkkistusmiðja í áraraðir. Aðeins verður um þessa einu sýningu á Ísafirði að ræða, allavega í bili. 

Miðasala er löngu hafin og gengur mjög vel. En rétt er að geta þess að aðeins 50 sæti eru í boði og því um að gera að panta strax í dag. Miðasölusíminn er sá sami gamli góði 891 7025. Einnig er hægt að panta með því að senda tölvupóst á komedia@komedia.is 

föstudagurinn 18. nóvember 2016

Gísli á Uppsölum á norðurlandi

Gísli hefur verið á ferð og flugi um landið og enn er lagt í hann
Gísli hefur verið á ferð og flugi um landið og enn er lagt í hann

Leikferð Kómedíuleikhússins með hið vinsæla leikrit Gísli á Uppsölum heldur áfram og áfram og já bara alveg út árið. Um aðra helgi verður lagt af stað norður og er það önnur leikferð á það svæði með leikinn. Áður hefur Gísli verður sýndur fyrir norðan á Akureyri, Blönduósi og Hvammstanga. Tvær sýningar voru á Akureyri önnur þeirra var uppseld og hin svo gott sem líka því þá er ekkert annað í stöðunni en að koma bara aftur. Hin norðlenska leikferð komandi viku hefst á Siglufirði. Sýnt verður fimmtudaginn 24. nóvember í Alþýðuhúsinu. Daginn eftir verður aukasýning á Akureyri einsog síðar verður sýnt í hinni einstöku Hlöðu Litla-Garði. Leikferðinni lýkur síðan á Sauðárkrók á sunnudag þar sem sýnt verður í Mælifelli. 

Allar sýningar hefjast kl.20.00 og er miðasala á sýningarnar í blússandi gangi í síma: 891 7025. Einnig er hægt að panta miða með því að senda tölvupóst á netfangið komedia@komedia.is Rétt er að geta þess að hópar fá að sjálfsögðu einstakt tilboð á sýninguna. Hvað er skemmtilegra en að brjóta skammdegið soldið upp og taka saumaklúbbinn eða vinnufélagana með sér í leikhús. Leitið tilboða við finnum eitthvað alveg sérstakt fyrir hópinn þinn. 

Leikritið um Gísla á Uppsölum hefur fengið standandi góðar viðtökur og svo gott sem fullt hefur verið á allar 14 sýningar leiksins. Sagan hefur sannarlega snert hjörtu áhorfenda um land allt enda er óhætt að segja að Gísli sé þjóðinni enn minnisstæður og ekki síður kær. 

Í lok nóvember verður Gísli á Uppsölum sýndur á Ísafirði og síðasta sýning fyrir jól verður á Selfossi. Svo gott sem uppselt er á sýninguna þar en enn eru örfá sæti laus á Ísafirði. Ekki heldur panta miða strax í dag. 

Að síðustu má svo geta þess að Gísli á Uppsölum verður sýndur í Þjóðleikhúsinu í janúar. Miðasala á þær sýningar er hafin og gengur frábærlega vel á www.tix.is 

mánudagurinn 7. nóvember 2016

Gísli á Uppsölum í Bolungarvík

Gíslataka um land allt
Gíslataka um land allt

Hið áhrifamikla leikrit Gísli á Uppsölum hefur algjörlega slegið í gegn og verið sýnt víða um landið við frábærar viðtökur. Nú þegar hefur leikurinn verið sýndur 13 sinnum á átta stöðum. Næsta sýning á Gísla verður í Einarshúsi Bolungarvík sunnudaginn 13. nóvember kl.20. Miðasala gengur mjög vel og sætum fækkar hratt. Miðasölusíminn er 456 7901.

Sýningar halda svo áfram bæði fyrir vestan og norðan í nóvember. Rétt er að minna sérstaklega á laugardaginn 19. nóvember. Því þá verður sannkölluð veisla bæði í list og mat. Um er að ræða veislukveld í Skrímslasetrinu á Bíldudal. Kveldið hefst með sýningu á Gísla á Uppsölum. Að leik loknum verður boðið uppá hangiket og uppstúf. Þar á eftir verða tónleikar með hinni einstöku listakonu Lay Low. Aðeins eru 80 sæti í boði í þessa einstöku veislu og því um að gera að panta strax í dag í síma 891 7025. 

Eldri færslur