föstudagurinn 26. desember 2014

Annáll Kómedíuleikhússins 2014

Nýtt íslenskt leikverk, Halla, var frumsýnt á árinu
Nýtt íslenskt leikverk, Halla, var frumsýnt á árinu

Árið 2014 var sannarlega kómískt. Nýtt íslenskt leikrit var frumsýnt og við gáfum út kennslubókina Leikræn tjáning. Síðast en ekki síst settum við nýtt met. Sýningarmet. Já, aldrei áður höfum við sýnt jafnmargar sýningar á árinu eða alls 81 talsins. Sannarlega kómískt og enn kómískara er að segja að þrátt fyrir allar þessar góðu fréttir þá gengur dæmið ekki upp. Við náum ekki endum saman. Ljóst er að breyta þarf miklu í rekstri Kómedíuleikhússins og leita nýrra leiða. Það verkefni býður okkar nú við áramót og ljóst er að árið 2015 verður ár breytinganna hjá okkur. Nóg af komandi ævintýri hugum frekar af því sem er að kveðja.

Kómedíuleikhúsið er líklega duglegast allra leikhúsa á Íslandi við að frumflytja ný íslensk leikverk. Enn eitt bættist við á árinu Halla byggt á samnefndri sögu eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Frumsýnt var 12. apríl í Safnahúsinu Ísafirði. Eftir það var sýnt víða um land m.a. í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði og í skólum fyrir vestan, norðan og austan. Alls urðu sýningar 11 talsins. Höfundar leikgerðar Elfar Logi Hannesson og Henna-Riikka Nurmi. Þau sáu einnig um leik og dans. Tónlist samdi Guðmundur Hjaltason og Marsibil G. Kristjánsdóttir sá um leikmynd, búninga og leikstjórn.

Við vorum víðförul í ár og höfum aldrei sýnt jafnmargar sýningar á einu ári eða 81. Sú sýning sem oftast var sýnd eða 33 sinnum var verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson. Til stóð að hætta með sýninguna nú í haust en það hefur alfarið verið sett á ís því við erum þegar búin að bóka margar sýningar á komandi ári. Sýningarnar á Gísla eru nú orðnar 291 og fyrst við erum að nálgast þriðja hundraðið þá er alveg óhætt að taka hundrað í viðbót, eða þar um bil.

Hinn útlaginn okkar, Fjalla-Eyvindur, var einnig í fanta stuði og á fleygiferð um landið. Alls var hinn gamansami fjallaleikur sýndur 24 sinnum. Loks má geta hinnar vinsælu jólasýningar Bjálfansbarnið og bræður hans sem var sýnd 7 sinnum núna fyrir jól. Hinum vestfirsku jólasveinum hefur nú verið skuttlað aftur í helli inn og skellt lokunni fyrir. Enda hafa þeir málað bæinn rauðann síðustu fjögur ár. Kannski eftir einhver ár opnum við helli jólasveinanna að nýju. Nokkrir góðkunningjar Kómedíu voru og sýndir á leikárinu. Svo alls enduðum við í 81 sýningu á leikárinu sannarlega kómískt.

Kómedíuleikhúsið réðst í það þarfaverk að gefa út kennslubók um leiklist á árinu. Mikill skortur er á þess háttar bókum á hinum íslenska markaði sem er sannarlega synd. Því leiklistin hefur einmitt verið að hasla sér völl í skólum landsins síðustu ár og er það bara frábært. Bókin nefnist einfaldlega Leikræn tjáning og er eftir Kómedíuleikarann Elfar Loga Hannesson. Drengurinn sá hefur kennt leiklist um land allt í um tvo áratugi og miðlar hér af reynslu sinni. Bókin Leikræn tjáning er í raun æfingabanki í leiklist sem nýtist kennurum í faginu á öllum stigum listarinnar. Efnið er fjölbreytt allt frá leikjum til spuna og leikhússlagsmála. Það er ekki auðvelt að gefa út bækur á Íslandi og því þarf að leita leiða til að ná fyrir ævintýrinu ná þessu fræga núlli sem verið erum alltaf að berjast fyrir í listinni. Fyrir nokkru kom góð leið fyrir okkur litlu spámennina í listinni. Það er apparat að nafni Karolinafund.com. Þetta er síða á alnetinu þar sem notendur geta fjárfest í verkefnum og komið þeim þannig á koppinn. Þessa leið fórum við og náðum okkar markmiði svo bókin Leikræn tjáning komst alla leið úr prentvélum og í hendur notenda um land allt.

Ár Kómedíuleikhússins hefur sannarlega verið kómískt og sögulegt. Það verður þó að segjast að þrátt fyrir allar góðu fréttirnar þá gengur reksturinn ekki vel. Við náum ekki endum saman. Ljóst er að við verðum að breyta miklu til að ná áttum og tryggja okkar brothættu stoðir. Það er verkefni komandi árs og hlökkum við til að takast á við verkefnið.

Árið 2015 verður sannarlega ár breytinga hjá Kómedíuleikhúsinu og í því felast bara tækifæri, ekkert gaman að vera alltaf að gera það sama. Lífið er jú kómedía þegar öllu er á botninn hvolft.

þriðjudagurinn 23. desember 2014

Gleðilega hátíð

Jólin eru að koma og vestfirsku jólasveinanna hlakkar svo til
Jólin eru að koma og vestfirsku jólasveinanna hlakkar svo til

Kómedíuleikhúsið er komið í jólaskap. Partur af okkar undirbúningi hátíðarinnar er að rita voran Kómíska annál. Verður hann birtur hér á heimasíðunni um hátíðarnar. 

Kómedíuleikhúsið þakkar fólkinu sínu kærlega fyrir frábært samstarf á árinu. Áhorfendum þökkum við komuna í leikhúsið um land allt og kæru styrktaraðilar án ykkar erum vítt fátt eitt. 

Njótum jólanna með fjölskyldu og vinum. 

föstudagurinn 5. desember 2014

Leikræn tjáning komin út

Loksins er komin út kennslubók á íslensku í leiklist
Loksins er komin út kennslubók á íslensku í leiklist

Kómedíuleikhúsið hefur gefið út kennslubókina Leikræn tjáning. Hún fæst í verslunum um land allt m.a. í Eymundsson, Hagkaup, Mál og menningu, Heimkaup og Bókabúðinni á Selfossi. Einnig er hægt að panta bókina beint hjá útgefanda í síma: 891 7025.

Leikræn tjáning er kennslubók í leiklist fyrir alla aldurshópa. Mjög lítið er til af kennsluefni í leiklist á íslensku og er því bókin mikið fagnaðarefni fyrir alla sem stunda leiklistina. Leikræn tjáning er í raun stór banki af efni er hentar til kennslu í leiklist fyrir alla. Við erum að tala um leiki, spuna, slökunaræfingar, trúðalistir, látbragð og meira að segja leikhússlagsmál. Höfundur bókarinnar er Elfar Logi Hannesson, stofnandi Act alone og Kómedíuleikhússins, hann hefur kennt leiklist um land allt í um tvo áratugi og miðlar hér af reynslu sinni. Leikræn tjáning er ríkulega myndskreytt af ljósmyndaranum Hlyni Kristjánssyni þar sem ungir vestfirskir leikarar spreyta sig á listinni. 

fimmtudagurinn 27. nóvember 2014

Leikræn tjáning kemur út á helginni

Á helginni kemur bókin Leikræn tjáning út hjá Kómedíuleikhúsinu. Hér er um að ræða kennslubók í leiklist fyrir fólk á öllum aldri. Höfundur bókarinnar er kómedíuleikarinn Elfar Logi Hannesson sem kennt hefur leiklist um land allt í um tvo áratugi. Bókin Leikræn tjáning verður fáanleg í verslunum um land allt. Í verslunum Pennans/Eymundsson, Hagkaupum og í Mál og menningu. Einnig er hægt að panta bókina beint hjá Kómedíuleikhúsinu í síma: 891 7025.

Nýstárleg leið var farin í að fjármagna útgáfu á bókinni Leikræn tjáning en einsog margir vita þá er oft erfitt að ná endum saman í svona ævintýrum. Vefurinn karolinafund.com er einmitt vettvangur fyrir svona ævintýri. Þar geta notendur allsstaðar í heiminum fjárfest í verkefninu. Margir kostir voru í boði í okkar tilfelli þannig var hægt að fjárfesta að andvirði einnar bókar og allt þar til þú varst að fá fyrir peninginn heilt leiklistarnámskeið. Mikil spenna er þó í þessu ævintýri því ef þú nærð ekki því markmiði sem þú setur þér í upphafi þá færðu ekkert. Við náðum markmiðinu svona líka vel og berum miklar þakkir í hjarta til allra þeirra sem höfðu trú á okkur og fjárfestu í okkur.

Leikærn tjáning kemur vestur á helginni og fer síðan í dreifingu um land allt. 

mánudagurinn 3. nóvember 2014

Æfingar hafnar á Gretti

37. verkefni Kómedíuleikhússins er í fæðingu
37. verkefni Kómedíuleikhússins er í fæðingu

Æfingar á nýju íslensku leikverki Grettir hófust í dag í herbúðum Kómedíuleikhússins vestfirska. Um er að ræða einleik byggðan á þessari vinsælu Íslendingasgögu um Gretti son Ásmundar. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson og Víkingur Kristjánsson leikstýrir. Stefnt er að frumsýningu um miðjan janúar 2015 á söguslóðum Grettis.

Ætli megi ekki taka svo stórt til orða og segja: Þar kom að því. Eða bara loksins verður Grettissaga að einleik. Kappinn sá er vafa einn mesti útlagi og vandræðagemsi þjóðarinnar. Strax í æsku þótti hann vera ódæll mjög. Fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum en fríður maður sýnum. Mikill kappi á velli og svo sterkur að hann bar naut á herðum sér. Lagði hann og bjarndýr sem berserki og meira að segja drauginn Glám.

Æfingar á einleiknum Gretti standa yfir allan nóvembermánuð og alveg fram í miðjan janúar á næsta ári. Einsog fyrr sagði verður Grettir frumsýndur í upphafi næsta árs á söguslóðum kappans. Nánar verður greint frá því þegar nær dregur. Svo fylgist vel með. 

föstudagurinn 24. október 2014

Fer Leikræn tjáning í prentun?

Eitt er víst það verður partý ef við náum í 40 prósent á ellefu dögum. Kómískt partý.
Eitt er víst það verður partý ef við náum í 40 prósent á ellefu dögum. Kómískt partý.

Nú er heldur betur mikil spenna í herbúðum Kómedíuleikhússins. Síðustu daga hefur bókin okkar Leikræn tjáning verið í fjármögnun á hinum magnaða vef karolinafund.com Þessi vefur hefur sannarlega komið einsog orkusprengja inní íslenskt menningaríf. Hér er komin vettvangur þar sem listamenn geta fjármagnað verkefni sín og allir hagnast. Því allir þeir sem fjárfesta í verkefninu fá eitthvað í staðinn. Þannig getur þú fjárfest í bókinni okkar Leikræn tjáning fyrir litlar 3.000.- krónur og færð áritaða bók í staðinn sem og nafn þitt á þakkarlistann. Þú getur líka fjárfest enn betur. Með því að fjárfesta fyrir 76.500.- krónur færðu hvorki meira né minna en heilt leiklistarnámskeið og tíu bækur af Leikræn tjáning. 

Nú eru aðeins ellefu dagar eftir og okkur vantar 40 prósent til að ná markmiðinu. Ef ekki þá verður ekkert úr verkefniu. Já, þetta er bara svona.

Svo nú er bara að bæta við prósentum því sannarlega telur allt í þessu verkefni. Það er lika staðreynd að list er ein besta fjárfestingin í dag. Hér fjárfestir þú í Leikræn tjáning

https://www.karolinafund.com/project/view/620

 

Kíkið á smá myndband sem að við gerðum frá einu námskeiði þar sem kennt er upp úr bókinni:

miðvikudagurinn 22. október 2014

Ókeypis leiklistarnámskeið

Á morgun, fimmtudag, verður ókeypis leiklistarnámskeið á Vestfjörðum. Námskeiðið er fyrir 8. - 12. ára og verður haldið í Tónlistarskólanum á Ísafirði og hefst kl.15. Það eru Kómedíuleikhúsið og Ísafjarðarbær sem bjóða uppá námskeiðið en það er einmitt liður í árlegri hátið í bænum er nefnist Veturnætur og hefst einmitt á fimmtudag. 

Kennari á námskeiðinu er Elfar Logi Hannesson, leikari og leikhússtjóri Kómedíuleikhússins. Hann hefur kennt leiklist í tvo áratugi um land allt. Gaman er að geta þess að Kómedíuleikhúsið er einmitt að fjármagna kennslubók í leiklist eftir Kómedíuleikarann. Fjármögnunin fer fram á karolinafund.com og þegar þetta er ritað vantar aðeins 41 prósent í að bókin fái frjámögnun. Það er því við hæfi að benda áhugasömum fjárfestum á að kikka á bókina Leikræn tjáning þarna fá allir fjárfestar eitthvað fyrr sinn snúð. Allt fer þetta eftir hve mikla peninga þú setur í verkefnið hve mikið þú færð fyrir peninginn. Ef þú fjárfestir fyrir 3.000.- kr færðu áritað eintak af bókinni Leikræn tjáning. Þú getur líka haft töluna hærri. Fyrir 15.400.- krónur færðu átta árituð eintök af bókinni og fyrir 76.800.- króna fjármögnun í dæminu færðu heilt leiklistarnámskeið og 10 eintök af Leikræn tjáning. 

Ókeypis leiklistarnámskeiðið verður fimmtudaginn 23. október kl.15 til 16 fyrir krakka á aldrinum 8. - 12. ára. Námskeiðið fer fram í Tónlistarskólanum á Ísafirði, gengið inn fyrir aftan Harma í portinu.  

miðvikudagurinn 22. október 2014

Ókeypis leiklistarnámskeið

Það er leikur að leika
Það er leikur að leika

Á morgun, fimmtudag, verður ókeypis leiklistarnámskeið á Vestfjörðum. Námskeiðið er fyrir 8. - 12. ára og verður haldið í Tónlistarskólanum á Ísafirði og hefst kl.15. Það eru Kómedíuleikhúsið og Ísafjarðarbær sem bjóða uppá námskeiðið en það er einmitt liður í árlegri hátið í bænum er nefnist Veturnætur og hefst einmitt á fimmtudag. 

Kennari á námskeiðinu er Elfar Logi Hannesson, leikari og leikhússtjóri Kómedíuleikhússins. Hann hefur kennt leiklist í tvo áratugi um land allt. Gaman er að geta þess að Kómedíuleikhúsið er einmitt að fjármagna kennslubók í leiklist eftir Kómedíuleikarann. Fjármögnunin fer fram á karolinafund.com og þegar þetta er ritað vantar aðeins 41 prósent í að bókin fái frjámögnun. Það er því við hæfi að benda áhugasömum fjárfestum á að kikka á bókina Leikræn tjáning þarna fá allir fjárfestar eitthvað fyrr sinn snúð. Allt fer þetta eftir hve mikla peninga þú setur í verkefnið hve mikið þú færð fyrir peninginn. Ef þú fjárfestir fyrir 3.000.- kr færðu áritað eintak af bókinni Leikræn tjáning. Þú getur líka haft töluna hærri. Fyrir 15.400.- krónur færðu átta árituð eintök af bókinni og fyrir 76.800.- króna fjármögnun í dæminu færðu heilt leiklistarnámskeið og 10 eintök af Leikræn tjáning. 

Ókeypis leiklistarnámskeiðið verður fimmtudaginn 23. október kl.15 til 16 fyrir krakka á aldrinum 8. - 12. ára. Námskeiðið fer fram í Tónlistarskólanum á Ísafirði, gengið inn fyrir aftan Harma í portinu.  

þriðjudagurinn 14. október 2014

Leikferð um Norðurland

Búkolla fer norður ásamt útlögunum Kómísku
Búkolla fer norður ásamt útlögunum Kómísku

Það er líf og fjör í Kómedíuleikhúsinu á nýbyrjuðu leikári. Þegar höfum við farið í leikferð með barnaleikritið Höllu bæði Vestur, Norður og Austur. Leikárið okkar kom út um daginn í glæsilegum bæklingi og núna í nóvember hefjast æfingar á Gretti. En næst á dagskránni er leikferð um Norðurland.

Kómedíuleikhúsið sendir nú á flakka þrjá af sínum vinsælustu leikjum Gísla Súrsson, Fjalla-Eyvind og Búkollu. Sýnt verður í skólum og allsstaðar þar sem fólk kemur saman vikuna 27. - 31. október. Erum þegar byrjuð að bóka sýningar þannig lítur bæði fimmtudagurinn 30. og föstudagurinn 31. október mjög vel út.

Svo nú er bara að panta sýningu fyrir hópinn þinn í síma: 860 6062 og leiksýningin er þín. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfang Kómedíuleikhússins komedia@komedia.is Hlökkum til að heyra í ykkur. 

fimmtudagurinn 2. október 2014

Leikár Kómedíuleikhússins 2014 - 2015

Grettir nýtt verk úr smiðju Kómedíuleikhússins
Grettir nýtt verk úr smiðju Kómedíuleikhússins

Hann er lentur leikársbæklingur okkar. Leikárið verður sannarlega kómískt alls verða sjö verk á fjölunum og þar af eitt brakandi nýtt og ferskt. Við erum að tala um Gretti. Já, hinn sama Gretti sterka son Ásmundar. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson en leikstjóri er Víkingur Kristjánsson. 

Útlagar hafa verið sérlega vinsælir hjá Kómedíuleikhúsinu og munu tveir aðrir vinsælir útlagaleikir vera á fjölunum á leikárinu. Fyrst ber að nefna öldunginn en samt ávallt í fullu fjöri sjálfur Gísli Súrsson. Leikurinn hefur verið sýndur um 300 sinnum og verður enn á ferðinni um land allt. Kollegi hans Fjalla-Eyvindur verður einnig sýndur víða á leikárinu. 

Kómedíuleikhúsið hefur ávallt boðið uppá vandaðar sýningar fyrir æskuna enda er það miklvægt ef leikhúsið á að lifa og eflast. Ef æskan kynnist ekki leikhúsinu í æsku þá er nú ekkert víst að þau komi í leikhúsið enda þeim ókunnugt. Þrjár leiksýningar verða fyrir æskuna. Barnaleikritið Halla sem er byggt á ljóðabók Steins Steinarrs. Ævintýraleikurinn Búkolla sem hefur verið sýndur um 40 sinnum um land allt og loks jólaleikritið vinsæla Bjálfansbarnið og bræður hans. Jólaleikurinn sá hefur notið mikilla vinælda og eru þetta fjórðu jólin sem leikurinn er á fjölunum. 

Síðast en ekki síst tekur Kómedíuleikhúsið upp sýningar á verkinu Sigvaldi Kaldalóns. Hér er á ferðinni áhrifamikil sýning um einn dáðasta listamann þjóðarinnar. 

Allar sýningar Kómedíuleikhússins eru ferðasýningar sem henta við öll tækifæri. Leikársbæklingurinn er aðgengilegur á netinu og er slóðin hér að neðan: 

 

issu.com/komediuleikhusid/docs/leikar_14-15nomarks?fb_action_ids=359234347578140&fb_action_types=og.shares 

Eldri færslur