Búkolla í Súðavík
Mánudaginn 9. nóvember sýnir Kómedíluleihúsið ævintýraleikinn vinsæla Búkolla í grunnskóla Súðavíkur. Sýningin er partur af samningi leikhússins við Súðavíkurhrepp um valdar uppákomur og viðburði í sveitarfélaginu á árinu.
Búkolla hefur notið mikilla vinsælda og er sýningin í Súðavík sú 43 á leiknum. Enda er hér á ferðinni sannkallaður ævintýraleikur byggður á völdum þjóðsögum og ævintýrum. Sögurnar og ævintýrin eiga það þó sameiginlegt að myndlistarmaðurinn Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, myndskreytti þau öll. Muggur sem er Bílddælingur var mikill unnandi íslenskra þjóðsgana og ævintýra einsog sjá má á verkum hans. Þannig myndskreytti hann þjóðsagnagersemi á borð við Búkollu, Sálina hans Jóns míns og Klippt eða skorið. Hann samdi einnig ævintýri sem er án efa eitt það vinsælasta hér á landi. Nefnilega Dimmalimm.
Muggur hefur komið nokkuð við sögu Kómedíuleikhússins enda er bæði saga hans og ferill ævintýrum líkust. Þannig var fyrsti stóri einleikur okkar um hans ævi og nefndist einfaldlega Muggur. Leikurinn um Mugg var frumsýndur á fæðingarstað söguhetjunnar á Bíldudal árið 2002. Eftir það var sýnt bæði á Ísafirði og í Borgarleikhúsinu. Árið 2006 frumsýndi síðan Kómedíuleikhúsið nýja leikgerð á ævintýrinu Dimmalimm. Sú sýning sló algjörlega í gegn og var sýnd um 80 sinnum bæði hér heima og erlendis. Búkolla er því þriðja leikverkið sem Kómedíuleikhúsið gerir og tengist Mugg á einn eða annan hátt. Eigi er uppgefið hvort Muggs leikverkin verði fleiri því í leikhúsinu veit maður aldrei hvað getur gerst. Þetta er einsog í ævintýrunum.