ţriđjudagurinn 13. mars 2018

Gísli á Uppsölum snýr aftur á Skírdag

Gísli snýr aftur á Skírdag
Gísli snýr aftur á Skírdag

Sýningum á hinum vinsæla og áhrifamikla leik Gísli á Uppsölum er hvergi nærri lokið. Á páskum hefjast leikar að nýju með sýningu á Þingeyri á Skírdag, fimmtudaginn 29. mars. Sýnt verður í Félagsheimilinu kl.20. Miðasala er þegar komin í blússandi gang og fer fram á www.tix.is. Einnig er hægt að bjalla í miðasölusímann 891 7025. 

Sýningin á Gísla á Uppsölum á Skírdag á Þingeyri er sú 78. Engum datt það í hug að leikurinn mundi fara svo víða sem raun hefur orðið og fátt annað að gjöra en að halda áfram og stefna allavega í þriggja stafa sýningartöluna. Skírdagssýningin markar einmitt upphaf af endurkomu Gísla á Uppsölum á senunni. Þegar eru tvær sýningar bókaðar í apríl sunnan lands og er nú þegar uppselt á aðra þeirra. Einnig er stefnan tekin á leikferð austur og er það í annan gang sem Gísli fer á austurlandið. 

miđvikudagurinn 31. janúar 2018

Sýningasamningur viđ Vesturbyggđ

Kómedíuleikhúsiđ verđur áberandi í Vesturbyggđ á árinu
Kómedíuleikhúsiđ verđur áberandi í Vesturbyggđ á árinu

Kómedíuleikhúsið og Vesturbyggð hafa gjört með sér samning um kaup sveitarfélagsins á sýningum frá Kómedíuleikhúsinu fyrir sínar stofnanir. Um er að ræða alls fjórar sýningar á jafnmörgum stofnunum. Þrjár skólasýningar fyrir leik-og grunnskólana bæði á Bíldudal og Patreksfirði. Einnig verða tvær listadagskrár annars vegar fyrir eldri borgara á Bíldudal og hinsvegar fyrir eldri borgara Patreksfjarðar. Allir þessi viðburðir verða á þessu ári svo það verður sannlega fjör í listalífinu í Vesturbyggð. 

Kómedíuleikhúsið er sérlega ánægt með þennan samning sem bæði styrkir og eflir eina atvinnuleikhús Vestfjarða. Ísafjarðarbær hefur nú nokkur síðustu ár verið með verkefnasamning við Kómedíuleikhúsið og á næstunni verður undirritaður samstarfssamningur við Bolungarvík um listviðburði í þeim mæta bæ. Nú er bara spurning hvort fleiri sveitar-og bæjarfélög landsins leiti til Kómedíuleikhússins og óski eftir föstum sýningum og viðburðum frá leikhúsinu. Að vanda er Kómedíuleikhúsið endalaust til í að ferðast um landið með verk sín. Svo má nú líka geta þess að þegar gerðir eru svona flottir listasamningar um nokkra viðburði þá fæst náttúrulega besta verðið.

Áhugasamir er velkomið að hafa samband við okkur og upplagt að byrja á því að senda okkur tölvupóst komedia@komedia.is

Við svörum öllum tölvupóstum og hlökkum til að heyra í ykkur hvar sem þið eruð á landinu. 

mánudagurinn 22. janúar 2018

Okkar besta ár

Tvćr nýjar  bćkur og Gísli hinn uppseldi
Tvćr nýjar bćkur og Gísli hinn uppseldi

En hvers er að minnast og hvað er það þá,

sem helst skal í minningu geyma?

Svo orti og spurði skáldið Valdimar Briem í kvæðinu sem gjarnan er flutt við áramót. Kvæðið með svo alltof langa nafninu Nú árið er liðið við aldanna skaut. Víst getur það verið breytilegt hvað varðveitist í manns minningu. Mörgum finnst dægur og gærdagsminning of ríkjandi hér á landi t.d. varðandi verðlaunaveitingar. Það muna menn betur sem gjörðist í gær en hins sem fór fram fyrir einhverju síðan og hefur kannski varað, starfað, lengi. Samt hefur einmitt hinn skilað miklu meiru til samfélagsins. Oft vill þetta gleymast en líklega mun stundargleðin og tækifæristískan halda velli í samfélaginu og þá ekki síst í listheiminum.

Nú er ritari búinn að koma sér í all mikla klípu við að horfa einmitt yfir árið sem alveg er að kveðja og gjöra einsog dægurmennirnir velja úr það er minnast skal og vona svo að það muni í minningu geymist lengur en núið. Að vera stórtækur til orða er efitt þegar rætt er um eigið apparat. Samt má óhikað segja að alveg að verða búið árið sé hið sögulegasta og ef ekki bara besta ár Kómedíuleikhússins. Er dægur og stundargleðinn alveg búinn að ná tökum á ritara eða hvað? Aðeins eitt að gjöra. Líta yfir helstu Kómedíufréttir ársins 2017.

 

Gísli hinn uppseldi

Víst byrjaði árið með sérlega kómískum hætti og það á 13 degi ársins. Þá sýndum við Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu. Hvernig það kom til er stutt saga að segja frá. Eftir að við höfðum sýnt Gísla yfir tuttugu sinnum hér og þar um landið árið áður við góðan orðstír sendum við erindi á Þjóðleihúsið þess efnis hvort við gætum mögulega sýnt Gísla hjá þeim. Þjóðleikhússtjóri tók vel í erindið og ákveðið var að setja á einar fjórar sýningar. Víst fór nú um Kómedíuna þá. Fjórar sýningar, vahá það er eins gott að einhver mæti. Skemmst er að segja að þessar fjórar sýningar seldust upp og einnig þær næstu sem á eftir komu. Að endingu urðu sýningarnar 20 í Þjóðleikhúsinu og nánast alltaf fyrir uppseldu húis.

Annað kómískst gjörðist á þessu sýningartímabili á Gísla í Þjóðleikhúsinu. Gaggarar tóku að mæta og rita um okkur. Þetta hefði ekki gjörst síðan tvöþúsund og eitthvað. Enda höfum við aðallega verið að sýna á landsbyggðinni hvar gaggarar lítið kikka á. Ef við sýnum í borginni þá er það oftast bara ein tvær sýningar í senn. Hvað sem má segja um gagg þá hefur það mikið að segja í leikhúsinu og bara í listalífinu. Kómedíuleikhúsið þótti sérlega vænt um að fá alla þessa gaggara loksins í leikhúsið til að kikka á vor verk. Og vitið bara hvað, gaggið var almennt mjög gott og okkur í vil. Þorgeir Tryggvason, gaggari Moggans, gaf sýningunni t.d. 4 stjörnur og sagði m.a.:

 „Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.“

Eftir gott gengi í leikhúsi þjóðarinnar hélt Gísli áfram yfirferð sinni um landið en í það heila var leikurinn sýndur 55 sinnum á árinu.

 

Hin G-in tvö

Það mætti halda að það sé skilyrði að leikverk Kómedíuleihússins verði að byrja á bókstafnum G. Það er ekki bara nefndur Gísli heldur og nafni hans Súrsson sem hefur verið á fjölunum lengur en elstu menn muna eða frá 2005. Fjölmargar sýningar voru á árinu flestar á söguslóðum í Haukadal í Dýrafirði en einnig í skólum. Gísli Súrsson er lang mest sýnda leikrit Vestfjarða og þó víðar væri kikkað. Alls hefur leikurinn nú verið sýndur 318 sinnum en vitið bara hvað það er hellingur af sýningum planlagðar á komandi kómísku ári. Hve tilveran er dásamleg, stundum.

Hitt G- leikrit okkar Grettir gjörðist víðförult því í lok janúar var skundað alla leið til Hjaltlandseyja. Þar var leikurinn sýndur nokkra ganga á sérstakri víkingasögu ráðstefnu, Follow the Vikings, er  haldin var í Leirvík þar í eyju. Voru það um leið síðustu sýningar á Gretti. Sýningin gekk sannlega vel og er 4 mest sýnda leikrit Kómedíuleikhússins var fluttur 61 sinni.

 

Tvö bókverk

Kómedíuleihúsið hefur í mörg ár duddað sér nokkuð við útgáfu. Fyrst á hljóðbókum en síðustu ár höfum við hinsvegar einbeitt okkur að bókaútgáfu. Árið 2017 gáfum við út tvö bókverk. Í júní barnabókina Muggur saga af strák eftir listahjónin Elfar Loga Hannesson og Marsbil G. Kristjánsdóttur. Um er að ræða skáldaða sögu um æsku hins bílddælska listamanns Muggs, Guðmundar Thorsteinssonar. Víst hefur listamaðurinn sá verið í miklu uppáhaldi hjá okkur. Fyrsti stóri einleikur okkar var einmitt um hans ævi einnig höfum við gert tvær barnasýningar byggðar á verkum Muggs.

Talandi um einleik sem hefur jú verið okkar uppáhald þá fannst okkur vel við hæfi að gefa út Einleikjasögu Íslands. Höfndur áðurnefndur Elfar Logi og kom bókverkið út í september. Var bókin fjármögnuð á Karolina fund og er það í annan gang sem við fjármögnum bókverk á þann hátt. Aldrei að vita nema við gjörum það á nýjan leik enda höfum við fullan hug á að halda áfram að gefa út bækur og höfum þegar ákveðið að gefa út allavega eina á komandi frábæru ári.

 

Lýsandi gjöf

Nú fer þessi pistill að verða alltof langur og spurning hvort allt þetta verði geymt í varanlegri minningu. Það mun hinsvegar án efa gjöra tvær sérlega lýsandi gjafir er leikhúsið fékk á árinu. Þegar við vorum á leikferð um norðurland með Gísla á Uppsölum sýndum við m.a. á Skagaströnd. Þar býr hugsjónamaðurinn Árni Geir og að lokinni sýningu færði hann Kómedíuleikhúsinu nokkra ljóskastara að gjöf. Stuttu síðar barst okkur önnur lýsandi gjöf. Kom hún frá kollegum okkar á Akureyri, já sjálfu Leikfélagi Akureyrar sem færði okkur á annan tuga ljóskastara. Kómedíuleikhúsið er upp með sér með þessar lýsandi gjafir og sannlega má segja að við verðum vel upplýst næstu árin.

Margt fleira mætti nefna á hinum bráðum búnu 2017 í daglegum önnum Kómedíuleikhússins en látum hér nóg sagt. Kómedíuleikhúsið þakkar sínum fjölmörgum styrktaraðilum, velunnurum og síðast en ekki síst áhorfendum um land allt kærlega fyrir árið 2017. Framundan er nýtt kómískt ár og mikið sem okkur hlakkar til að eiga stefnumót við ykkur öll í leikhúsinu. Það er líka margt kómískt væntanlegt þar á meðal tveir nýjir einleikir. Annar þeirra verður frumsýndur í maí hinn í ágúst og auðvitað heldur okkar tvöfalda Gíslataka áfram.

Gangi ykkur allt í vil, verum hress og njótum þess.

Elfar Logi Hannesson, vinnumaður hjá Kómedíuleikhúsinu

fimmtudagurinn 11. janúar 2018

Janúarútsala

Frí heimsending. Allir sem kaupa ţrjú eintök fá eitt gjafaeintak ađ eigin vali
Frí heimsending. Allir sem kaupa ţrjú eintök fá eitt gjafaeintak ađ eigin vali

Nýtt ár, ný tækifæri og vel byrjar það. Í janúar verður sérstök útsala á öllum útgefnum verkum Kómedíuleikhússins. Bæði bókum og hljóðbókum. Frí heimsending og verðið er bara kómískt. Einleikjasaga Íslands er t.d. á 1.500.- krónur en var á 3.499.- kómískar krónur og hin vinsæla barnabók Muggur saga af strák fæst á litlar 1.000.-krónur var áður á 2.499.- krónur. Eigi má gleyma hljóðbókunum okkar en nú er hver að verða síðastur að eignast síðustu eintökin. Já, þær eru allar að verða uppseldar hjá okkur og verða ekki framleiddar aftur. Drakúla fæst t.d. á 1.000.krónur var á 2.999. - krónur og ein af okkar allra vinsælustu hljóðbókum Þjóðsögur á Bolungarvík er á 1.000.- kallinn. Nú er bara að vinda sér í verslun okkar hér á heimasíðunni og gera kaup ársins. 

 

komedia.is/verslun_baekur_og_hljodbaekur/

 

Allir sem kaupa þrjú eintök fá eitt gafaeintak að eigin vali úr verslun okkar.

Pantanir sendist á komedia@komedia.is 

Góða verslun. 

sunnudagurinn 31. desember 2017

Einlćgar ţakkir fyrir áriđ

Ţökkum einlćglega fyrir okkur
Ţökkum einlćglega fyrir okkur

Kómedíuleikhúsið þakkar landsmönnum einlæglega fyrir árið sem er alveg að verða búið. Bestu þakkir til styrktaraðila og velgjörðamanna okkar. Enn betri kveðjur til áhorfenda um land allt. Hlökkum til að sjá ykkur sem oftast í leikhúsinu á komandi ári. Framundan er sannkallað Kómedíu ár því við munum frumsýna tvö ný leikverk á árinu. Í maí verður það Einars leikur Guðfinnssonar og í haust barnaleikritið Valhöll. 

Annáll Kómedíuleikhússins verður birtur í blaðinu Vestfirðingur 18. janúar 2018.

 

Gangi ykkur allt í vil, verum hress og njótum vel.

miđvikudagurinn 20. desember 2017

Einleikjasagan og Muggur á jólatilbođi

Einstakt jólatilbođ fyrir ţig og alla hina
Einstakt jólatilbođ fyrir ţig og alla hina

Jólin eru að koma. Já, svo sannlega og af því tilefni bjóðum við sérstakt bókajólatilboð. Tvær bækur á verði einnar. Já, við sögðum það þetta er sannkallað jólatilboð rétt fyrir jól. En hvaða bækur eru þetta? 

Við erum að tala um öndvegisverkið Einleikjasaga Íslands og barnabókina Muggur saga af strák. Báðar saman á 3.000.- krónur. Til að bæta um betur þá er frí heimsending innifalin. 

Ekki hika heldur panta strax í dag með því að senda tölvupóst á komedia@komedia.is 

 

Tilboðið gildir til og með Þorláksmessu. 

sunnudagurinn 10. desember 2017

Muggur í Heiđmörk í dag

Elfar Logi ćtlar ađ lesa uppúr barnabókinni Muggur saga af strák
Elfar Logi ćtlar ađ lesa uppúr barnabókinni Muggur saga af strák

Í hinni dásamlegu Heiðmörk við borgarmörkin er starfræktur einstakur jólamarkaður Skóræktarfélags Reykjavíkur. Allar helgar fyrir jól stendur félagið fyrir hugljúfri jólastund í skóginum. Hvar gestir geta verslað sér jólatré og fjölbreytt jólahandverk. Eigi má gleyma listinni því boðið er uppá veglega dagskrá allar helgar. Í dag, sunnudaginn 10. desember, verður barnabókin Muggur saga af strák í aðalhlutverki. Klukkan 14.00 mun höfundur bókarinnar, Elfar Logi Hannesson, lesa uppúr bókinni í Rjóðrinu svonefnda í Heiðmörkinni fögru. 

Svo nú vita allir hvað er upplagt að gera í dag. Skella sér í Heiðmörkina, versla sér jólaglingur og jafnvel tré og hlusta svo á upplestur úr barnabókinni Muggur saga af strák. Að sjálfsögðu verður bókin á sérstöku tilboðsverði í Rjóðrinu í Heiðmörkinni. 

miđvikudagurinn 6. desember 2017

Gísli Súrsson fyrir framtíđina

Í dag var Gísli Súrsson sýndur fyrir framtíðina í Árbæjarskóla. Nánar tiltekið fyrir elsta stigið. Var þetta jafnframt 315 sýning á leiknum sem er löngu orðið bæði Kómedíu, Vestfjarða og allskonar met. Á morgun verður Gísli sýndur í Öldutúnsskóla og á föstudag verða tvær sýningar fyrir framtíðina í Árborg. Verða sýningarnar í hinu stórskemmtilega Fischersetri á Selfossi. 

Engum datt nokkurn tíman í hug að vinsældir einleiksins Gísla Súrssonar urðu svona dásamlegar. Leikurinn var frumsýndur í febrúar árið 2005 og hefur verið á fjölunum allar götur síðan en þó með nokkrum hléum. Strax fyrsta sumarið, 2005, var leikurinn frumsýndur á ensku og í dag eru miklu fleiri sýningar á ensku en á íslensku. Það er engin leið að hætta og heldur engin ástæða til þegar vel gengur. Komandi sumar verður leikurinn reglulega á fjölunum á söguslóð nánar nefnt á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði og verður m.a. sýndur fyrir skemmtiferðaskipagesti. 

miđvikudagurinn 29. nóvember 2017

Jólagjöf leikarans

Jólagjöf leikarans er Einleikjasaga Íslands
Jólagjöf leikarans er Einleikjasaga Íslands

Allir fá þá eitthvað fallegt og hvað er betra en að gefa leikaranum leiklistarbók. Einleikjasaga Íslands er þá sannarlega málið alveg einstakt bókverk sem á engan sinn líkan. Kómedíuleikhúsið gaf í haust út Einleikjasögu Íslands eftir einleikarann Elfar Loga Hannesson. Bókin fæst í verslunum Eymundsson um land allt. Einnig er hægt að panta bókina hjá okkur á sérstöku tilboðsverði aðeins 3.000.- krónur og þú þarft ekki einu sinni að greiða sendingargjaldið. Við sjáum um það. Gefðu leikaranum þínum Einleikjasögu Íslands. 

 

Einleikjasagan er alveg einstök og miklu lengri en margur heldur. Sem listform hefur líklega formið ávallt verið til, eða alveg frá því að leikur taldist til lista. Sama á við um einleikjasögu Íslands, og þó hér sé sagan sögð frá 19. öldinni með hinum einstöku farandleikurum, þá er næsta víst að lelikurinn hófst mun fyrr. Án efa bara strax í landnámi þegar blessað fólkið sat í skálum sínum í skammdeginu.

Í þessu einstaka bókverki segir einleikarinn Elfar Logi Hannesson sögu einleiksins á Íslandi. Allt frá landnámi til farandleikara og loks inní sjálft leikhúsið sem hefur  verið heimavöllur einleiksins síðustu hundrað árin eða svo. Vel má segja að ritari sé á heimavelli, því síðustu tvo áratugi hefur hann fátt annað gert en að elika einn, hver svo sem ástæðan er fyrir því. Ýmsir telja það vera vegna þess að hann sé bara svona lélegur leikari. 

miđvikudagurinn 25. október 2017

Gísli fyrir sunnan á helginni

Gísli útum allt á helginni
Gísli útum allt á helginni

Sýningar á hinu vinsæla leikverki Gísli á Uppsölum eru hafnar að nýju. Núna á helginni er margt um að vera ekki bara kosningar heldur og einar þrjár sýningar á Gísla á Uppsölum fyrir sunnan. Leikurinn hefst á föstudag í Hveragerði hvar sýnt verður í Skyrgerðinni kl.20.00. Miðasala er í blússandi gangi í síma 483 4000. Daginn eftir á kosningadag verður Gísli í Garðabæ. Sýnt verður í sal Leiksmiðjunnar Frigg sem er staðsett á Garðatorgi 1. Miðsala gengur sérlega vel og stendur yfir í síma: 868 5789. Daginn eftir á sunnudag verður Gísli í Mosfellsbæ. Sýnt verður í Hlégarði og hefst leikur kl.16.00. Miðasölusími er 896 9908. 

Nú vita allir hvar þeir eiga að vera á helginni. 

Eldri fćrslur