sunnudagurinn 29. nóvember 2020

Vorið boðar nýtt leikár

Gjafakort Kómedíuleikhússins er komið í sölu
Gjafakort Kómedíuleikhússins er komið í sölu

Mikið verður nú gaman í vor því þá hefst leikárið okkar í Haukadal. Það verður sannlega fjölbreytt með sex föstum sýningum auk gestasýninga. Nú er hægt að kaupa gjafakort í leikhúsið sem er tilvalið í jólapakkann. Svo má líka bara kaupa gjafakort fyrir sjálfan sig, það má alveg. Því fleiri miðar sem þau kaupir þeim mun betri kjör. Hægt er kaupa allt frá 2ja til 8 miða gjafakort. Gjafkortið gildir á allar sýningar í Kómedíuleikhúsið Haukadal og rennur aldrei út.

Pantanasími er 891 7025. Einnig er hægt að panta með því að senda tölvupóst á komedia@komedia.is 

 

Sex fastar leiksýningar og fjöldi gestasýninga

Leikár Kómedíuleikhússins í Haukadal hefst í vor með frumsýningu á nýju barnaleikriti, Bakkabræður. Um er að ræða bráðfjöruga brúðuleiksýningu fyrir börn á öllum aldri. Höfundur brúðanna og ævintýraheimssins er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Höfundur tónlistar er Björn Thoroddsen, Sigurvald Ívar Helgason er ljósahönnuður, leikari er Elfar Logi Hannesson og Sigurþór A. Heimisson leikstýrir. Bakkabræður verður sýnt um helgar í vor og fram á sumar eða alveg jafnlengi og aðsókn gefur. 

Í kjölfarið á Bakkabræðrum hefjast sýningar á ný á nýjustu sýningu okkar Beðið eftir Beckett. Sannkölluð Gíslataka verður í sumar þegar Gíslanir tveir, Gísli á Uppsölum og Gísli Súrsson yfirtaka leikhúsið í Haukadal. Báðar sýningarnar hafa verið sýndar samanlagt nærri 450 sinnum og notið fádæma vinsælda mörg þúsund áhorfenda. Fimmta sýning ársins verður Listamaðurinn með barnshjartað sem verður nú sýnd fyrsta sinni í Haukadal. Í september hefjast svo sýningar á hinni ástsælu brúðusýningu Dimmalimm. Allar þessar sex sýningar verða sýndar í leikhúsinu í Haukadal út árið eða einsog aðsókn gefur.

Það verður einnig mikill listamannagestagangur í Haukadal á leikárinu. Við fáum brúðuleiksýningu frá vinaleikhúsi okkar Handbendi og svo munu hinir einstöku tónlistarmenn Siggi Björns og Franziska Günter vera með tónleika. En það verða fleiri listagestir á leikárinu bæði leiksýningar og konsertar og verður það kynnt þegar nær vorar.

Nú er eina vitið að ná sér í gjafakort Kómedíuleikhússins og byrja að hlakka til vorsins í Haukadal.