mánudagurinn 29. júlí 2013

Vinsælustu leikritin

Vinsælasta leikrit allra tíma Gísli Súrsson
Vinsælasta leikrit allra tíma Gísli Súrsson

Það má segja að nú sé eiginleg áramót leikhúsa. Allir eru að pakka sínu liðna leikári saman og um leið ljúka við að undirbúa komandi leikár. Á slíkum tímamótum er vinsælt að líta um öxl og kikka soldið á hvernig hafi gengið. Leikhúsrekstur er svosem ekkert öðruvísi en hvert annað fyrirtæki hvort heldur það er olíufélag, banki, fataverslun og eða bara prentsmiðja. Stundum gengur vel og stundum ekki eins vel. Sumar vörur seljast meðan aðrar fara minna. Þannig er þessu einnig varið í leikhúsinu. Sumar sýningar ganga meðan aðrar falla ekki í kramið. Maður veit jú aldrei fyrirfram í þessum bransa hvernig króinn eigi eftir að dafna eina sem maður getur gert er að halda áfram hvernig sem gengur. Eða bara einsog sagt: Þeir fiska sem róa. 

Meðan við pökkum og þökkum fyrir liðið leikár sem sannarlega var kómískt og svona áður en við kynnum nýtt leikár þá birtum við hér lista yfir vinsælustu leikrit allra tíma í vorum leikhúsbúðum. Kómedíuleikhúsið var stofnað árið 1997 og frá þeim tíma höfum við sett upp 32 sýningar. Er þá allt talið bæði leikrit í fullri lengd sem og leikþættir. Það þarf svosem ekki að koma á óvart hvert vermir hið Kómíska toppsæti. Leikritið um Gísla Súrsson hefur notið gífurlegra vinsælda auk þess sem verkið hefur hlotið nokkur verðlaun á erlendum leiklistarhátíðum. Dimmalimm er í öðru sæti á topp lista Kómedíuleikhússins yfir vinsælustu leiksýningar allra tíma. Þar á eftir kemur hápólitíski gamanleikurinn Heilsugæslan. Talan 31 er sérlega kómísk tala í okkar sýningarbókhaldi því alls hafa þrjár sýningar verið sýndar það oft. Hér er topp tíu listinn í heild sinni yfir vinsælustu leikrit allra tíma hjá Kómedíuleikhúsinu.

 

    Leikrit Sýningarfjöldi 

 

1. Gísli Súrsson 251

2. Dimmalimm 74

3. Heilsugæslan 36

4-6.  Bjarni á Fönix 31

4-6. Jólasveinar Grýlusynir 31

4-6. Pétur og Einar 31

7. Jón Sigurðsson - Strákur að vestan 24

8. Búkolla - Ævintýraheimur Muggs 21

9.  Bjalfansbarnið og bræður hans 20

10.  Náströnd: Skáldið á Þröm 19