mánudagurinn 10. júní 2013

Skrímslasögur

Úr sýningunni okkar Skrímsli sem var sett upp fyrir nokkrum árum
Úr sýningunni okkar Skrímsli sem var sett upp fyrir nokkrum árum

Skrímsli hafa sannarlega verið ,,inni" einsog nútímamaðurinn segir þegar eitthvað er í tísku. Ætli þetta æði hafi ekki byrjað með Skrímsli ehf frá Disney samsteypunni. Hér á landi hafa bækur um skrímsli notið mikilla vinsælda undanfarin ár og meira að segja hefur verið opnað sérstakt skrímslasafn á Bíldudal en Arnarfjörður ku vera mekka skrímsla á Íslandi.

Gömlu góðu íslensku þjóðsögurnar geyma stórkostlegan sjóð af krassandi skrímslasögum. Nú höfum við safnað saman úrvali af þessum sögnum og lesið inná hljóðbók sem er væntanleg núna í júní. Sögurnar eru sóttar í hin ýmsu þjóðsagnasöfn og þá einkum frá þeim meisturum Jóni Árnasyni og Sigfúsi Sigfússyni. Víst eru skrímslin fjölbreytt einsog mannfólkið en flest koma þau úr sjó og vötnum. Á hljóðbókinnni Skrímslasögur eru margar magnaðar sögur af skrímslum má þar nefna Lagarfljótsorminn og Krosseyrarskrímslið. 

Hljóðbókin Skrímslasögur kemur út um og eftir Þjóðhátíðardag og mun fást hér á heimasíðunn sem og í verslunum um land allt.