mánudagurinn 25. apríl 2016

Sjeikspír fagnað og leikferð framundan

Sjeikspír fer á flakk um Vestfirði á helginni
Sjeikspír fer á flakk um Vestfirði á helginni

Á helginni frumsýndi Kómedíuleikhúsið nýtt verk um ævi og verk skáldjöfursins William Shakespare. Á laugardag voru 400 ár liðin frá því skáldið hélt á önnur svið og því var vel við hæfi að minnast hans með veglegum hætti. Leikritið heitir Daðrað við Sjeikspír og er sett saman af Elfari Loga Hannessyni, hinum kómíska. Í leiknum er fjallað um ævi skáldsins og inná milli eru flutt brot úr 4 a hans vinsælustu verkum. Þau eiga það eitt sameiginlegt að vestfirska skáldið Matthías Jochumsson þýddi þau öll. Allir listamenn sýningarinnar eru ekki bara Vestfirðingar líka heldur og búsettir hér vestra, við verðum jú að styrkja og efla okkar eigið hagkerfi. Leikarar eru þau Anna Sigríður Ólafsdóttir og Elfar Logi Hannesson. Búninga gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir og leikjstjórn er í höndum Víkings Kristjánssonar.

Frumsýningin á Daðrað við Sjeikspír var í Félagsheimilinu í Bolungarvík, sem gárungarnir kalla Hörpu Vestfjarða, og það var smekkfullur salur. Daðrað við Sjeikspír er sýning að hætti kaffileikhúsa og sitja því gestir við borð og margir höfðu eitthvað svalandi við hönd. Mæltist þetta vel fyrir. Rétt er að geta þess að Kómedíuleikhúsið var eina leikhús landsins sem minntist skáldnestorsins William Shakepeare sérstaklega í leikhúsinu. Enda var nú ekki annað hægt maðurinn var jú snillingur. 

Kómedíuleikhúsið ætlar að fara í leikferð um Vestfirði á komandi helgi. Fyrsti áfangastaður er Patreksfjörður nánar tiltekið hið glæsilega Fosshótel þar í bæ. Sýnt verður á föstudag 29. apríl og hefst leikurinn kl.20. Daginn eftir verður skudað yfir á Bíldudal þar sem sýnt verður í hinu magnaða Skrímslaseti. 1. maí verður síðan haldin hátíðlegur á Hólmavík þar sem Daðrað við Sjeikspír verður sýnt á Café Riis. Eftir sem áður verður sýningin að hætti kaffileikhúsa og því ætti engin að þurfa að fara þyrstur heim hvorki andlega né líkamlega. Allar sýningarnar hefjast kl.20. Miðasala er í síma 891 7025 en einnig er hægt að kaupa miða á hvurjum sýningarstað fyrir sig. Miðaverð er aðeins 3.500.- kr. 

 

Kómedíuleikhúsið færir yður Sjeikspír sem er ávallt ferskur á og ætíð erindi eigi síst í dag.