fimmtudagurinn 2. október 2014

Leikár Kómedíuleikhússins 2014 - 2015

Grettir nýtt verk úr smiðju Kómedíuleikhússins
Grettir nýtt verk úr smiðju Kómedíuleikhússins

Hann er lentur leikársbæklingur okkar. Leikárið verður sannarlega kómískt alls verða sjö verk á fjölunum og þar af eitt brakandi nýtt og ferskt. Við erum að tala um Gretti. Já, hinn sama Gretti sterka son Ásmundar. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson en leikstjóri er Víkingur Kristjánsson. 

Útlagar hafa verið sérlega vinsælir hjá Kómedíuleikhúsinu og munu tveir aðrir vinsælir útlagaleikir vera á fjölunum á leikárinu. Fyrst ber að nefna öldunginn en samt ávallt í fullu fjöri sjálfur Gísli Súrsson. Leikurinn hefur verið sýndur um 300 sinnum og verður enn á ferðinni um land allt. Kollegi hans Fjalla-Eyvindur verður einnig sýndur víða á leikárinu. 

Kómedíuleikhúsið hefur ávallt boðið uppá vandaðar sýningar fyrir æskuna enda er það miklvægt ef leikhúsið á að lifa og eflast. Ef æskan kynnist ekki leikhúsinu í æsku þá er nú ekkert víst að þau komi í leikhúsið enda þeim ókunnugt. Þrjár leiksýningar verða fyrir æskuna. Barnaleikritið Halla sem er byggt á ljóðabók Steins Steinarrs. Ævintýraleikurinn Búkolla sem hefur verið sýndur um 40 sinnum um land allt og loks jólaleikritið vinsæla Bjálfansbarnið og bræður hans. Jólaleikurinn sá hefur notið mikilla vinælda og eru þetta fjórðu jólin sem leikurinn er á fjölunum. 

Síðast en ekki síst tekur Kómedíuleikhúsið upp sýningar á verkinu Sigvaldi Kaldalóns. Hér er á ferðinni áhrifamikil sýning um einn dáðasta listamann þjóðarinnar. 

Allar sýningar Kómedíuleikhússins eru ferðasýningar sem henta við öll tækifæri. Leikársbæklingurinn er aðgengilegur á netinu og er slóðin hér að neðan: 

 

issu.com/komediuleikhusid/docs/leikar_14-15nomarks?fb_action_ids=359234347578140&fb_action_types=og.shares