fimmtudagurinn 6. október 2011

Kómedíuleikhúsið í Danmörku

Kómedíuleikhúsið brá sér til Köben og sýndi tvö af sínum vinsælustu verkum í Jónshúsi í byrjun október. Sýndir voru leikirnir Jón Sigurðsson strákur að vestan og Bjarni á Fönix. Verkin hafa verið sýnd um land allt við miklar vinsældir enda er hér um að ræða vandaðar og sögulegar leiksýningar sem tengjast skemmtilega. En líklegt er talið að þeir Jón Sigurðsson og Bjarni Þorlaugarson séu hálfbræður þó ekkert sé reyndar fullsannað um það. Leikferðin til Danmerkur gekk glimrandi vel og var sýningin vel sótt. Sýnt var í samstarfi við Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn sem vildi þannig heiðra minningu Jóns Sigurðssonar en í ár eru 200 ár frá fæðingu kappans. Vel var við hæfi að sýna í Jónshúsi í Kaupmannahöfn þar sem Jón Sigurðsson bjó um áraskeið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kómedíuleikhúsið fer til útlanda með leikverk sín en til þessa höfum við sýnt í Albaníu, Lúxembúrg og tvívegis í Þýskalandi og nú hefur Danmörk bæst í landakort Kómedíu. Leikhúsið þakkar Íslendingafélaginu í Kaupmannahöfn kærlega fyrir frábærar móttökur og gott samstarf.