mánudagurinn 2. júní 2014

Hemma Gunn stund í Haukadal

Hemmi með Lubbu og Unni fóstru sinni í Haukadal
Hemmi með Lubbu og Unni fóstru sinni í Haukadal

Á fimmtudaginn verður sérstök Hemma Gunn stund á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði. Sýnt verður verðlaunaleikritið Gísli Súrsson og er aðgangur ókeypis. Sýningin hefst kl.20 og er megintilgangur kveldsins að koma saman,hafa gaman og síðast en ekki síst hlæja saman að hætti Hemma Gunn.

Hemmi Gunn var mikill Haukdælingur. Hjá fóstru sinni, Unni á Húsatúni, átti hann margar góðar stundir fyrst þegar hann var lítill púki og fór þangað í sveit. Allt eftir það koma hann mikið í Haukadal vetur sem sumar enda er þar gott að vera. Hemmi Gunn var mikill vinur okkar og söknum við hans mikið í Haukadalnum. Við viljum því heiðra minningu okkar Hemma Gunn með leiksýningu á Gísla Súrssyni á Gíslastöðum sem er í hjarta Haukadals.

Til gamans má geta þess að Hemmi sagðist einmitt hafa verið Gísli Súrsson í fyrra lífi. Það er ábyggilega alveg satt. 

Verið velkomin í Haukadal og höfum gaman saman.