fimmtudagurinn 1. ágúst 2013
Gullkistan í Djúpinu frumsýnd um helgina
Um helgina verða Inndjúpsdagar haldnir þriðja árið í röð í Djúpinu. Nánar tiltekið í Heydal í Mjóafirði. Kómedíuleikhúsið hefur frá upphafi Inndjúpsdaga tekið þátt í hátíðinni. Sérstakur leikþáttur var saminn fyrir hátíðina á upphafsári hennar er fjallaði um Björn Jórsalafara. Var þeim leik afar vel tekið og leikurinn endurtekinn í fyrra. En í ár verður nýr leikur úr smiðju Kómedíuleikhússins frumsýndur er tengist hinu sögulega Inndjúpi.
Leikurinn nefnist Gullkistan í djúpinu og verður frumsýndur á Inndjúpsdögum í Heydal á laugardag 3. ágúst kl.17.30. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson en leikstjóri er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Gullkistan í Djúpinu fjallar um hina einstöku og sögulegu eyju Borgarey sem stendur við höfuðbólið Vatnsfjörð. Það er óhætt að segja að margt merkilegt hafi gerst á þessari eyju þó hún sé ekki nema eins kílómetra löng og hálfrar kílómetra breið. Enda skiptir stærðin nú sjaldan máli líkt og hinni betri helmingur mannkyns er ávallt að benda á. Fjölmargar persónur koma við sögu í þessum leik um Borgarey er jafnan er kölluð Gullkistan í Djúpinu. Meðal þeirra sem segja sögu Gullkistunnar má nefna ónefndan prakkaraprestson úr Vatnsfirði, danskur bókhaldari, mannlegur sauður, ónefndur húsmaður og loks sjálfur Sigvaldi Kaldalóns. Einsog sjá má á þessum fjölbreytta lista persóna má búast við miklu ævintýri á Inndjúpsdögum í Heydal á laugardag.
Sjáumst þá.
19.10.2021 / 11:32
Leiksýningar til sölu
Vantar þig leiksýningu fyrir hátíðina, hópinn, fyrirtækið eða mannamótið. Við höfum úrval leiksýninga í boði fyrir þig og sýnum um land allt. Nánari upplýsingar í síma: 891 7025 eða á komedia@komedia.is Kómedíuleikhúsið - leikhúsið í vestri Bakkabræður - Dimmalimm -... Meira10.09.2021 / 11:06