sunnudagurinn 15. maí 2016

Grettir fer til Spánar

Grettir siglir enn og nú til Spánar
Grettir siglir enn og nú til Spánar

Það hefur verið góður gangur á leiksýningunni Gretti allt frá því að leikurinn var frumsýndur fyrir rúmu ári síðan. Síðan eru liðnar á þriðja tug sýninga víða um land við hinar bestu viðtökur. Síðasta haust var leikurinn þýddur yfir á ensku og í kjölfarið var farið í sérlega vel lukkaða leikferð til Kanada. Aftur er komið að utanför með Gretti og að þessu sinni verður leikherjað á Spán. Leikferðin er unnin og skipulögð af miklum Kómedíuvini, Jóni Sigurði Eyjólfssyni, sem er búsettur á Malaga á Spáni. Hefur hann staðið í ströngu við að bóka sýningar á Gretti og víst er að það verður nóg að gera. Sýnt verður í nokkrum grunnskólum og í einum framhaldsskóla á stór Malaga svæðinu. Einnig verður opin sýning í Almedinilla leikhúsinu í Cordóa héraði föstudaginn 27. maí. 

Sölumaður okkar í Spánverjalandi áður nefndur Jón Sigurður Eyjólfsson er mikill áhugamaður um Íslendingasögur og auk þess hinn ritfærasti maður. Lætur okkur reglulega taka bakföll að hætti Ómars Ragnarssonar þegar við lesum hans Bakþanka í Fréttablaðinu. Jón mun flytja erindi um Gretti og Íslendingasögurnar fyrir hverja sýningu okkar í þessari Spánarför. Hann gerir gott betur en það því einnig mun hann vera með sérstakt Íslendingasagnanámskeið á bókasafninu í Almedinilla. Kómedíuleikhúsið hefur fundið það á sýningum sýnum á Gísla Súrssyni og nú Gretti útí heimi að áhugi á Íslendingasögunum er gífurlega mikill. Það er því alveg geggjað að geta farið með þessa kappa út fyrir landsteinana og segja þeirra sögu með töfrum leikhússins. 

Segja má að þessi leikför til Spánar sé gott upphaf á leikvertíð Grettis á ensku. Leikurinn verður nefnilega sýndur alla miðvikudag í allt sumar í Edinborgarhúsinu Ísafirði. Fyrsta sýning verður miðvikudaginn 1. júní og er miðasala þegar hafin hjá Vesturferðum Ísafirði.