laugardagurinn 29. desember 2018

Annáll hins kómíska árs

Einleikurinn EG var frumsýndur á árinu
Einleikurinn EG var frumsýndur á árinu

Þegar það er gaman í vinnunni þá flýgur tíminn sannlega áfram. Það er góður og gegn siður að lita á lokaspretti hins dálaglega árs yfir eigin verk. Víst var árið okkur sérlega annasamt þar sem talan 2 var í aðalhlutverki. Því bæði frumsýndum við tvö verk og gáfum út jafnmargar bækur. Gíslatakan hélt áfram um land allt með þeim Gíslum á Uppsölum og þess Súra. Margt fleira mætti nefna af kómískum tíðindu ársins og því ekkert annað að gera en að greina frá því helsta.

 

EG 

Hinn vestfirski saganarfur hefur verið okkar mesta, besta og dýrmætasta yrkisefni á leiksviðinu. Á árinu bættust tveir nýjir leikir í vort leikjagallerý þó annar væri enduruppfærsla. Í upphafi árs fengum við stórskemmtilega pöntun úr Bolungavík frá bæjarstjóra þess mæta bæjar. Að búa til leikverk um föður bæjarins Einar hugsjónamann Guðfinnsson. Við fengum til liðs við okkur leikstjórann Rúnar Guðbrandsson sem setti í handrit ásamt leikara og leikhússtjóra vorum Elfari Loga Hannessyni. Leiknum gáfu þeir hið margræða nafn EG. Rúnar annaðist leikstjórn og að vanda var Elfar á senunni, já þetta er enn einn einleikurinn. Aðrir listamenn sýningarinnar voru Björn Thoroddsen er gaf verkinu viðeigandi músík og okkar ljósameistari Magnús Arnar Sigurðarson lýsti upp ævintýrið. Tæknimaður var Natan Elí Finnbjörnsson. Styrktaraðilar EG voru afkomendur söguhetjunnar, Bolungavíkurkaupstaður, Orkubú Vestfjarða og Uppbyggingasjóður Vestfjarða. 

EG var frumsýnt á söguslóðum í Einarshúsi Bolungavík 23. maí og er 42. verkefni Kómedíuleikhússins. Alls voru 15 sýningar í Einarshúsi á árinu og ein í Reykjavík. Sýningar halda áfram á komandi kómísku ári. 

 

Sigvaldi Kaldalóns

Í febrúar 2013 frumsýndum við leikrit um Sigvalda Kaldalóns. Um var að ræða leik fyrir leikara og tónlistarkonu sem sýndur var víða um land við afrabragðs góðar viðtökur. Það var ávallt okkar draumur að færa þennan leik upp að nýju enda var sýningum hætt fyrir fullu húsi. Betra seint en ekki sagði einhver og loksins árið 2018 létum við þau áform rætast. Sami leikari og var í frumuppfærslunni var í hlutverki Kaldalóns okkar Elfar Logi. Tónlistarkonan var að þessu sinni Sunna Karen Einarsdóttir. Leikstjórn annaðist Þröstur Leó Gunnarsson og er þetta í annað sinn sem hann leikstýrir hjá okkur. Leikmynd og búninga hannaði Marsibil G. Kristjánsdóttir og Magnús Arnar Sigurðarson hannaði lýsingu. 

Sigvaldi Kaldalóns var frumsýnt 4. október í Hannesarholti. Í framhaldinu voru fjölmargar sýningar bæði á frumsýningarstað sem og fyrir vestan og norðan. Í það heila urðu sýningar 12 og enn verður bætt í á komandi ári. 

 

Geisli og Allir dagar

Kómedíleikhúsið hefur í gegnum árin gefið út bæði hljóðbækur sem bækur og hélt þeirri yðju áfram á árinu. Í júní kom út 7 bókverk Kómedíuleikhússins sem vitanleg tengist Vestfjörðum nema hvað. Við erum atvinnuleikhús Vestfjarða og sinnum fyrst og fremst okkar eigin sagnaarfi. Á árunum 1946 - 1960 var gefið út á Bíldudal dulítið en stórmerkilegt blað er bar heitið Geisli. Ritstjóri var séra Jón Kr. Ísfeld. Geisli var safnaðarrit en í hverju blaði voru fjölbreyttar fréttir og fróðleikur um þorpið. Það eru einmitt þessar einstöku fréttir og fróðleikur sem fylla bók okkar Geisli Bíldudal 1946 - 1960. Hér er sannlega fjölbreytt saga þorps sem aldrei hefur verið sögð áður. 

Í nóvember sendum við svo frá okkur aðra bók og enn var leitað í hinn vestfirska sagnaarf. Að þessu sinni í ljóðin. Allir dagar eiga kvöld heitir bókverkið og er ljóðaúrval skáldsins frá Hólmavík Stefáns Sigurðssonar. Er kenndi sig við Hvítadal. Hér er á ferðinni sérlega vegleg myndskreytt útgáfa þar sem myndskreytarnir koma allir úr sama ranni. Móðir, dætur og barnabörn. Stefán er án nokkur vafa eitt af okkar albestu og áhrifamesu ljóðskáldum. Ljóð hans hafa hinsvegar ekki verið aðgengileg á bókverki um langa hríð og var því sannlega komin tími á að bæta úr því. Útgáfu bókarinnar var enda fagnað víða m.a. í Sauðfjársetrinu á Ströndum þar sem ungir sem aldnir lásu úrval ljóða úr Allir dagar eiga kvöld. Í nóvember tókum við þátt í árlegri Bókamessu í Hörpu var við kynntum útgáfu ársins. 

Bækur okkar fást í Eymundsson um land allt. Einnig í Bóksölu stúdenta og Mál og menningu. 

 

Gíslatakan hélt áfram

Það er óhætt að mikil Gíslastaka hafi verið í gangi í Kómedíuleikhúsinu og það í 14 ár. Já, árið 2005 frumsýndum við einleik um Gísla Súrsson sem hefur verið á fjölunum öll árin síðan. Árið 2016 bætt svo enn í Gíslatöku vora þegar við frumsýndum einleik um Gísla á Uppsölum. Báðir þessir leikir hafa verið sýndir víð fádæma miklar vinsældir um land allt og sá Súri farið oftsinnis til úttlanda unnið til verðlauna og það oftar en einu sinni. Gísi á Uppsölum var sýndur víða á árinu alveg frá Þingeyri til Eskifjarðar og allt þar í millum og kring. Sýningum lauk þó á árinu en í það heila var þetta áhrifa verk sýnt 83 sinnum þar af 20 sinnum í Þjóðleikhúsinu. Er Uppsala Gísli næst mest sýnda verk okkar hitt er vitanlega hinn Gíslinn. 

Hinn Gíslinn er þó engan vegin kominn í neinn súr. Öðru nær því leikurinn var sýndur bæði á söguslóðum í Haukadal í Dýrafirði, á Ísafirði og bara útum allt. Hið kómíska er þó að Gísli Súrsson er langoftast sýndur á ensku í dag. Alls hefur Gísli Súrsson verið sýndur 327 sinnum. 

 

Allt að sólu

Margt fleira var brallað á árinu. Við sáum í upphafi árs um heljarmikla Þrettándagleði á Ísafirði í samstarfi við hóp listafólks og jólavætta sem sveina. Við buðum æsku Ísafjarðarbæjar uppá skemmtun á 17. júní sem og jólaljóðadagskrá í Safnahúsinu Ísafirði. Við lásum uppúr vestfirskum bókum á Hlíf Ísafirði og víðar um landið. 

En allt þetta hefðum við eigi geta gjört án okkar kæru styrktar- og samstarfsaðila. Ber þar sérstaklega að nefna Uppbyggingasjóð Vestfjarða sem hefur verið okkar stærsti bakhjarl síðustu ár. Sem og Ísafjarðarbær sem hefur verið með styrktar og samstarfssamning við Kómedíuleikhúsið mörg undanfarin ár. Áhorfendur um land allt hafa svo gert ævintýri ársins að veruleika því án þeirra er leikhúsið ekkert. Kómedíuleikhúsið vill nota tækifærið og þakka stuðning ykkar og samstarf mörg undanfarin ár. Þökk fyrir að hafa trú og um leið áhuga á okkar starfi. 

Við erum samt ekkert að hætta ef eitthvað ætlum við bara að bæta í. Það eru fjölmörg verkefni væntanleg á komandi frábæru ári 2019. Nefnum þessi helstu hér:

Valhöll, goðafræðileikur fyrir börn á flestum aldri frumsýndur í febrúar

Gísli Súrsson sýndur á ensku sem íslensku um land allt

Listamaðurinn með barnshjartað sýndur í Selárdal í sumar

EG sýnt í Bolungavík sem Reykjavík

Sigvaldi Kaldalóns sýndur um landið

Leiklist á Þingeyri nýtt bókverk

 

Enn og aftur þakkir til ykkar kæru landsmenn og hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu á komandi kómísku ári. Vegni ykkur allt að sólu. 

Þess óskar áhöfn Kómedíuleikhússins.