mánudagurinn 31. desember 2012

Annáll Kómedíuleikhússins 2012

1 af 2

Tíminn hefur sannarlega teymt okkur til nýrra og óvæntrar ævintýra á árinu 2012. Það er við hæfi að líta aðeins um Kómedíuöxlina og rifja upp það helsta sem hefur gerst á Kómedíuárinu sem aldrei kemur til baka. Margt var brallað, við héldum áfram að frumsýna ný íslensk verk. Hvorki fleiri né færri en fjögur verk voru frumflutt á árinu. Þó við getum ekkert fullyrt þá er ekki ólíklegt að Kómedíuleikhúsið sé duglegasta leikhús landsins við að frumflytja íslensk leikverk. Já, ætli þetta sé ekki bara Íslandsmet. Eldri verk voru enn á fjölunum og að vanda var verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson sýndur víða. Tvær nýjar hljóðbækur voru gefnar út. Farið var í leikferð um landið og margt fleira. En svona var Kómedíuárið 2012.

 

Fjögur ný íslensk leikverk

Kómedíuleikhúsið hefur einbeitt sér að því að vinna úr hinum gjöfula sagnaarfi Vestfjarða enda erum við vestfirskt leikhús og því eðlilegt að vinna með okkar sögu. Fyrsta frumsýning ársins var á leikverkinu Náströnd - Skáldið á Þröm. Frumsýnt var í mars á söguslóðum nánartiltekið á Suðureyri við Súgandafjörð. Leikurinn fjallar um ævi Magnúsar Hj. Magnússonar sem margir þekkja sem Skáldið á Þröm. Leikgerð gerðu Ársæll Níelsson og Elfar Logi Hannesson og byggðu á dagbókum skáldsins. Sá fyrrnefndi lék en Elfar Logi leikstýrði. Tónlist gerði Jóhann Friðgeir Jóhannsson og nafni hans Daníelsson hannaði lýsingu. Sýningar gengu framar öllum vonum og var leikurinn sýndur hátt í 20 sinnum á Suðureyri og einnig á Act alone sem var nú haldin á Suðureyri í fyrsta sinn. Í haust voru einnig nokkrar sýningar í höfuðborginni. 

Fyrsta maí frumsýndi Kómedíuleikhúsið vestfirska verkalýðsleikritið Í vinnufötum og slitnum skóm. Leikurinn er byggður á bók Sigurðar Péturssonar Vindur í seglum. Höfundur og leikari var Elfar Logi Hannesson en Marsibil G. Kristjánsdóttir leikstýrði. Skömmu síðar eða þann 7. júlí var sérlega velheppnuð frumsýning. Í Selárdal í Arnarfirði var haldin sérstök Sambahátíð til að heiðra minningu alþýðulistamannsins Samúels í Selárdal. Að því tilefni gerði Kómedíuleikhúsið leikritið Listamaðurinn með barnshjartað en það var Sambi einmitt kallaður. Sýnt var utandyra á túni Samba á Brautarholti í Selárdal innan um öll einstöku listaverk og byggingar hans. Einstök stemning var á sýningunni og þótti sýningin afar vel heppnuð.

Fjórða og síðasta frumsýning ársins var einnig í hinum göldrótta Arnarfirði. Nánartiltekið í Baldurshaga á Bíldudal þar sem flutt var ævintýraleikritið Búkolla - Ævintýraheimur Muggs. Verkið fjallar einmitt um list frægasta sonar þorpsins Guðmudar Thorsteinssonar eða Muggs einsog hann er nefndur. Leikurinn var frumsýndur í mars og hefur þegar verið sýndur um 20 sinnum á Vestfjörðum. Á komandi ári verður síðan farið í leikferð um landið. 

Eldri verk Kómedíuleikhússins voru einnig á fjölunum og þar fór fremstur í flokki útlaginn Gísli Súrsson. Vinsældir þessa sýningar eru endalausar og var alveg helling af sýningum á verðlaunaleiknum á árinu. Sýnt var bæði á íslensku og ensku oftast á söguslóðum í Haukdal í Dýrafirði en einnig í Geirþjófsfirði og víðar um landið.

Hljóðbókaútgáfa Kómedíuleikhússins hefur gengið framar öllum vonum. Á árinu bættust tvær hljóðbækur í sarpinn Galdrasögur og nú í haust kom út tíunda hljóðbók okkar sem hetir Íslensk ævintýri. Á komandi ári er stefnt að því að tvöfalda hljóðbókaútgáfu okkar auk þess hefur verið stofnaður Hljóðbókaklúbburinn þinn og má lesa allt um þann góða klúbb á heimasíðunni okkar. 

Áður en við lokum Kómedíuárinu 2012 er rétt að geta þess að leikhúsið flutti á árinu. Síðustu tvö ár höfum við haft aðsetur í Listakaupstað á Ísafirði. Þessi einstaki félagsskapur gaf upp öndina á árinu og þar með misstum við okkar Kómedíuhreiður. Allt leit út fyrir að við enduðum á götunni því erfitt gekk að finna nýtt hreiður. En við erum heppinn. Sigríður Ragnarsdóttir skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar sem hefur oftar en einu sinni rétt Kómedíuleikhúsinu hjálparhönnd og verið mikill stuðningur til handa listum á Ísafirði og bauð okkur húsnæði. Um er að ræða tvo litla sali í kjallara Tónlistarskóla Ísafjarðar og þar erum við til húsa í dag. 

Margt fleira hefur gerst á Kómedíuárinu en við látum nú staðar numið og gerum okkur klár fyrir komandi Kómedíuár. Það er margt spennandi framundan og við horfum mjög Kómískum augum á 2013. Að lokum þökkum við öllum þeim sem hafa lagt okkur lið á árinu. Áhorfendum, styrktaraðilum, listamönnum og landsmönnum öllum.

Megi árið 2013 verða okkur öllum Kómískt og sérlega gott.