þriðjudagurinn 22. desember 2015
Annáll Kómedíuleikhússins
Okkar 18 ár er nærri á enda og við samt rétt að byrja. Það er í raun alveg kómískt að hið litla krúttlega Kómedíuleikhús verði 19 ára á næsta ári. Eitt er víst þetta hefði aldrei tekist nema ef áhorfendur hefðu ekki verið svona duglegir að mæta í leikhús landsins og horfa á okkar sýningar. Leikhús landsins já. Það er alveg óhætt að segja að Kómedíuleikhúsið sé leikhús landsbyggðarinnar. Styrktaraðilar hafa einnig sýnt okkur mikinn skilning og áhuga. Ef þeirra hefði ekki notið við væru uppfærslurnar ekki orðnar 38 heldur kannski frekar bara einsog í kvæðinu 1 og átta. Alltof langt mál væri að telja upp alla styrktaraðila okkar og því í staðinn sendum við einstakar þakkar kveðjur til ykkar allra. Þið eruð frábær.
Það er mikilvægt við hver áramót að gera skil á sínum verkum og því setjum við hér í einn Kómedíuleikhús annál. Með því að segja: Svona var árið 2015.
Frumsýning í Minnsta óperuhúsi heims
Árið 2015 byrjaði snemma í herbúðum Kómedíuleikhússins. Á öðrum degi ársins var æfing á nýju íslensku leikverki Grettir, byggt á samnefndri Íslendingasögu. Æfingar höfðu þó staðið tvo síðustu mánuði síðasta árs og nú var komið að lokasprettinum. Þetta verkefni hafði verið á okkar óskalista mörg liðin ár og nú loksins var komið að glímu við kappann Gretti. Höfundur og leikari Grettis er Elfar Logi Hannesson. Búninga og leikmynd gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir, höfundur tónlistar Guðmundur Hjaltason og leikstjórn annaðist Víkingur Kristjánsson. Gaman er að geta þess að allir þessir listamenn eru búsettir á Vestfjörðum.
Þar sem hvert leikverk er nú bara frumsýnt einu sinni þá er mikilvægt að gera eitthvað kómískt í tilefni dagsins. Kómedíuleikhúsið hefur tileinkað sér það í gegnum árin og því var ákveðið að frumsýna Gretti á söguslóðum. Nánar tiltekið í Vatnsfirði en þar dvaldi Grettir um tíma í útlegð sinni. Þar í firði er hið einstaka Minnsta óperuhús heims. Þann 17. janúar Grettir þar frumsýndur og var það okkar 38 uppfærsla á 18 árum. Gott ef það gerir ekki bara 2,1 leikverkakrói á ári.
Leikferð til Kanada
Að frumsýningu lokinni var bara eitt að gera. Bíða og vona að hinn nýji kómíski krói fái fætur. Það hefur hann sannarlega gert því nú í lok árs eru sýningar orðnar 25 talsins. Það er ekkert slappt. Sýnningar hafa verið um land allt alveg frá Selfossi til Öngulstaða fyrir norðan og allt þar á millum og kring. Við tókum einnig upp samstarf við skáldið Einar Kárason og buðum uppá sérstaka Grettisstund. Skáldið flutti erindi um Gretti og eftir einn kaffisopa stundum var boðið uppá sterkara þá var einleikurinn Grettir fluttur. Grettisstundirnar urðu þó nokkrar bæði fyrir sunnan, vestan og austan.
Um vorið fengum við síðan tilboð frá Kanada. Hvort Grettir væri ekki til í að fara í víking á nýjan leik og taka land í Vesturheimi. Að vanda var okkar svar það sama: Já takk. Sama og við segjum við öllum góðum erindum. Eitt fylgdi þó hinu góða tilboði og það var að sýningin yrði á ensku. Allt í fínu við reddum því.
Sá kómíski alltaf svo jákvæður og snöggur til. Við fengum vorn góða leikstjóra Víking Kristjánsson til að snara verkinu yfir á enskuna. Já, það þýðir ekkert að fá neina aukvissa í verkið sem er sannarlega vandasamt eða einsog maðurinn segir. Maður getur ekkert látið Gúgúl gera allt.
Haustið hjá hinum kómíska fór að mestu í að nema hið enskaða handrit og hafði það af rétt fyrir brottför af landinu bláa. 21. október var síðan Grettir frumsýndur á ensku í leikhúsinu í Gimli í Kanada. Í lok leiks gerðist það sem allir leikhúslistamenn þrá að leik loknum. Það var klappað. Og klappað. Svo var slegið upp veislu þar sem boðið var uppá sjö laga vínartertu og pönnukökur. Gaman var að spjalla við gesti að sýningu lokinni enda veitingarnar frábærar. Gott ef íbúar Vesturheims eru ekki bara meiri Íslendingar en við sem þar búum. Væntum þykjan og einlægnin var einstök. Þó höfðu sumir aldrei átt heima á Íslandi.
Grettir var sýndur í annan gang í Gimli og einnig var ein sýning í háskólanum í Manitoba. Segið svo að leikhúsið geti ekki líka verið góð kynning á landinu einsog rokk og rólið.
Gufupönk einleikur
Við sögðum mörg fleiri já á árinu. Hugsjónamenn (og er þá átt við bæði kynin) eru margir. Einn þeirra er Ingimar Oddsson sem hefur byggt upp sértaka Gufupönkhátíð í Bíldalíu. Hátíðin var fyrst haldin 2014 og þá sögðum við líka já og tókum þátt með stuttum leik. Nú var óskað eftir nýjum einleik er væri sóttur í smiðju eins aðal átrúnaðargoð gufupönkara, nefnilega hið framsýna skáld Jules Verne. Þar er í sérstöku uppáhaldi skipstjórinn Nemó. Getið þið ekki gert Nemó leikrit fyrir okkur? Jú, sögðum við og klóruðum okkur svo lengi í höfðinu.
Á sumarsólstöðum 21. júní frumsýndum við einleikinn Nemó á Gufupönkhátíð Bíldalíu. Sýnt var á hinu flotta Skrímslasafni en þó mættu aðeins mannlegar verur á sýninguna og gerðu góðan róm af.
Ekki svo súr belja
Það er mikilvægt hverju apparati að eiga góða mjólkurkú. Það eigum við sem betur fer í okkar Gísla Súrssyni. Mest sýnda leikrit Vestfjarða og þó víðar væri leitað. Á árinu náðum við þeim einstaka árangri að sýna þann Súra í 300 sinn. Það var þó um mitt sumar og síðan eru sýndar margar sýningar.
Þó mörgum detti í hug að við eigum aðra mjólkurkú í ævintýrasýningunni Búkollu þá hefur hún ekki alveg náð eins góðum nytum og Gísli. Þó voru sýndar um 10 sýningar á árinu og í heildina komnar 44. Það er nú bara ágætt.
Bókin Leiklist á Bíldudal
Kómedíuleikhúsið þarf einsog flest önnur fyrirtæki að leita allra leiða til að gera enn betur og tryggja sína tilveru. Auk þess að setja upp leiksýningar þá höfum við staðið talsvert í útgáfu. Fyrst vorum við aðallega í hljóðbókaútgáfu en höfum nú fært okkur meira til upprunans í bækurnar. Í haust gáfum við út bókina Leiklist á Bíldudal eftir okkar Elfar Loga Hannesson. Margir héldu nú að þessi saga mundi bara rúmast í einhverjum bæklingi en svo er aldeilis ekki. Einsog þeir sjá sem handleika verkið því það er tæpar 200 blaðsíður enda var byrjað að leika í þorpinu árið 1894. Sagan segir að Bílddælingar geri meira af því að skemmta sér en að vinna. Meðan íbúar næsta þorps geri akkúrat öfugt.
Leiklist á Bíldudal hefur fengið afbragðs góðar viðtökur því hún er alveg að verða uppseld hjá okkur. Það er því alveg ljóst að við munum gefa út fleiri bækur og það strax á komandi ári.
Margt fleira gjörðist á hinu frábæra ári 2015 hjá okkur en við látum nú staðar numið. Þó fyrr hefði verið segja kannski flestir lesendur. Enda margt að lesa og hvað þá á þessum tíma.
Kómedíuleikhúsið þakkar áhorfendum, velunnurum og styrktaraðilum um land allt kærlega fyrir kómískt gott ár. Hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu á komandi ári.
19.10.2021 / 11:32
Leiksýningar til sölu
Vantar þig leiksýningu fyrir hátíðina, hópinn, fyrirtækið eða mannamótið. Við höfum úrval leiksýninga í boði fyrir þig og sýnum um land allt. Nánari upplýsingar í síma: 891 7025 eða á komedia@komedia.is Kómedíuleikhúsið - leikhúsið í vestri Bakkabræður - Dimmalimm -... Meira10.09.2021 / 11:06