sunnudagurinn 5. ßg˙stá2012

S÷gulegu leikßri loki­

Óhætt er að segja að vel hafi gengið hjá atvinnuleikhúsi Vestfjarða á liðnu leikári. Alls voru frumsýnd þrjú ný íslensk leikverk . Fyrsta frumsýning leikársins var í lok nóvember 2011. Þar var á ferðinni bráðfjörugt jólaleikrit Bjálfans barnið og bræður hans sem fjallar um vestfirsku jólasveinana. Leikurinn var sýndur í Listakaupstað á Ísafirði og var þetta jafnframt fyrsta leikverkið sem er sýnt þar. Sýningin fékk frábærar viðtökur og var sýnd alls 12 sinnum í kaupstaðnum fyrir fullu húsi. Næsta verk var frumsýnt í lok mars og að vanda var sótt í vestfirskan saganaarf. Nástönd - Skáldið á Þröm nefnist leikurinn og fjallar um alþýðuskáldið Magnús Hj. Magnússon. Sýnt var á söguslóðum á Suðureyri við Súgandafjörð. Sýningar voru alls níu og auk þess verður leikurinn sýndur á Act alone leiklistarhátíðinni um næstu helgi. Þriðja og síðasta frumsýning leikársins fjallaði einnig um alþýðulistamann á Vestfjörðum. Enn var sýnt á söguslóðum og nú í Selárdal í Arnarfirði. Þar er sannkölluð ævintýraveröld sem Samúel Jónsson reisti sem er þekktur undir gælunafninu Listamaðurinn með barnshjartað. Sýnt var á sérstakri Sambahátíð og fékk sýningin mjög góðar viðtökur. Margt fleira var brallað á leikárinu. Farið var í sérstaka haustleikferð með sögulegu einleikina Bjarni á Fönix og Jón Sigurðsson strákur að vestan. Sýnt var á 16 stöðum á jafnmörgum dögum. Vinsælasta sýning Vestfjarða Gísli Súrsson var að vanda sýndur en gaman er að geta þess að flestar sýningarnar voru á ensku. Loks var miðaldaleikurinn Jórsalafarinn sýndur um Verslunarmannahelgina í Heydal. Semsé sérlega kómískt og sögulegt leikár.

Nú stendur yfir undirbúningur fyrir næsta Kómedíuleikár 2012 - 2013. Ekkert er gefið uppi ennþá um hvað mun vera á fjölunum en þó má lofa því að ný íslensk leikverk verða á efnisskránni og efnið verður sótt í hinn gjöfula vestfirska sagnaarf.

Kómedíuleikhúsið þakkar áhorfendum sínum um land allt fyrir leikárið sem var að líða. Hlökkum til að sjá ykkur öll og miklu fleiri á komandi Kómedíuleikári.