fimmtudagurinn 8. maí 2014

Fjalla-Eyvindur á Bíldudal í kveld

Fjalla-Eyvindur mættur á Bíldudal
Fjalla-Eyvindur mættur á Bíldudal

Gamanleikurinn vinsæli Fjalla-Eyvindur verður sýndur í Baldurshaga á Bíldudal í kveld, fimmtudag, kl.21. Miðaverð er aðeins 2.000.- kr og það er posi á staðnum. Gaman er að geta þess að öllum nemendum grunnskóla Bíldudals er boðið á sýninguna. 

Leikritið um Fjalla-Eyvind hefur notið mikilla vinsælda frá því það var frumsýnt í lok síðasta árs. Leikurinn hefur verið sýndur víða um land og hvarvetna hlotið góðar viðtökur. Enda er hér á ferðinni einstök saga um einn mesta útlaga allra tíma á Íslandi. Höfundur og leikari sýningarinnar er Bílddælingurinn Elfar Logi Hannesson. Guðmundur Hjaltason semur tónlistina í leiknum og Marsibil G. Kristjánsdóttir leikstýrir auk þess að sjá um búninga og leikmynd.

Gaman er svo að geta þess að Fjalla-Eyvindur verður loksins sýndur í Reykjavík í lok mánaðarins. Verður reyndar ekki einn á för því í fyrsta sinn munu útlagarnir Gísli Súrsson og Fjalla-Eyvindur mætast á leiksviðinu í sannkallaðri útlagatvennu. Sýnt verður í hinu frábæra leikhúsi Gamla bíói og verða báðar sýningarnar sýndar saman sama kveldið. Fyrsta sýning á þessari útlagatvennu í Gamla bíó verður fimmtudaginn 29. maí kl.20. Miðasala verður á midi.is auk þess er hægt að panta miða í miðasölusíma Gamla bíós 563 4000. Næstu sýningar í Gamla bíó verða sunnudaginn 8. júní og mánudaginn 16. júní kl.20 báða dagana.