fimmtudagurinn 26. desember 2013

Annáll Kómedíuleikhússins 2013

Sigvaldi Kaldalóns sló í gegn
Sigvaldi Kaldalóns sló í gegn

Sextán bráðlega sautján. Já, litli króinn er að verða lögráða. Kómedíuleikhúsið atvinnuleikhús Vestfjarða hefur vissulega farið í gegnum ýmislegt á þessum sextán árum líkt og í lífi hvers og eins. Árið 2013 hefur verið sérlega kómískt og viðburðaríkt. Síðasta tala ártalsins hefur verið í aðalhlutverki á árinu því við frumsýndum einmitt þrjú ný íslensk leikverk og gáfum út þrjár nýjar hljóðbækur. Skulum ekkert vera að orðlengja formála þessa annáls neitt frekar heldur greina frá verkefnum ársins sem senn er að kveðja.

Fyrsta frumsýning Kómedíuleikhússins á hinu hreint ágæta ári 2013 fjallaði um einn dáðasta listamann þjóðarinnar. Til samstarfs þessarar uppfærslu fengum við í liðið hina einstöku listakonu Dagný Arnalds. Úr varð einstök, falleg og einlæg sýning um tónskáldið og lækninn Sigvalda Kaldalóns. Leikurinn fjallaði um ár Sigvalda í Ármúla í Ísafjarðardjúpi einu afskekktasta læknishéraði þessa lands. Þar dvaldi hann í ellefu ár og vissulega voru þetta viðburðarík ár. Ekki bara í læknastarfinu heldur og ekki síður í listinni því þarna urðu fjölmargar söngperlur hans til. Höfundur leiksins Elfar Logi Hannesson var einnig í hlutverki Sigvalda. Dagný Arnalds var í hlutverki danskrar hjúkrunarkonu auk þess að sjá um allan undirleik og söng. Leikstjórn annaðist Marsibil G. Kristjánsdóttir. Leikritið Sigvaldi Kaldalóns var frumsýnt í Hömrum á Ísafirði og var afar vel tekið. Alls urðu sýningar 11 ekki aðeins í Hömrum heldur og á Þjóðlagahátíð á Siglufirði sem og í næsta nágrenni Ármúla eða á Dalbæ á Snæfjallaströnd. Stefnt er að því að taka leikritið upp á komandi ári og fara þá jafnvel alla leið í höfuðborgina og taka þar upp sýningar.

Önnur frumsýning ársins fór fram í Heydal í Mjóafirði. Um var að ræða einleik um Borgarey í Ísafjarðardjúpi og fékk heitið Gullkistan í Djúpinu. Þessi nafngift er ekki útí hött því eyjan hefur einmitt hlotið þetta viðurnefni. Þó Borgarey sé ekki stór þá hefur margt sögulegt þar gerst. Frumsýningin var á árlegri Miðaldahátíð í Heydal og er þetta þriðja árið sem Kómedíuleikhúsið sýnir á þessari einstöku hátíð. Höfundur og leikari var hinn kómíski leikari Elfar Logi Hannesson og hans betri helmingur, Marsibil G. Kristjánsdóttir, sá um leikstjórn. Gaman er að geta þess að sýningin var hluti af verkefnasamningi sem leikhúsið gerði við Súðavíkurhrepp. Ekki var bara þetta góða verkefni þar á blaði heldur og fleiri sýningar í hreppnum. Samningur sem þessi er afskaplega góður fyrir báða aðila og gekk samstarfið vel. Nú er verið að skoða hvort penninn verði ekki tekinn upp að nýju og párað undir annan samning við Súðavíkurhrepp. Samskonarsamningur var og gerður við Vesturbyggð á árinu.

Þriðja og síðasta frumsýning ársins var einnig söguleg enda hefur sagan verið í sérstöku uppáhaldi hjá Kómedíuleikhúsinu allt frá upphafi, sérlega allt sem tengist okkar eigin sagnahéraði sem eru Vestfirðir allir. Nú var tekin fyrir saga eins frægasta útlaga allra tíma sjálfs Fjalla-Eyvindar. Sú saga er heldur betur merkileg og ef ekki bara kómísk. Þar er það ekki bara lítill neisti sem verður að miklu báli heldur virðist hin góða mjólkurafurð ostur hafa í sér samskonar verkun. Frumsýning leikritsins Fjalla-Eyvindur var sérlega einstök en þó vel við hæfi að hætti þessa mikla konungs hinna íslensku fjalla. Já, frumsýningin fór fram undir berum himni nánar tiltekið í Garðinum við Húsið á Ísafirði. Frumsýningin bar upp á hinni árlegu hátíð Veturnætur á Ísafirði í lok október. Enn og aftur var það Elfar Logi sem sá um handrit og leik. Höfundur tónlistar var Guðmundur Hjaltason og Marsibil G. Kristjánsdóttir leikstýrði. Verkið var sýnt tvívegis á Ísafirði og svo var ein sýning á Þingeyri. Nú þegar hafa verið bókaðar nokkrar sýningar á Fjalla-Eyvindi á komandi ári. Strax 15. janúar 2014 verður Fjalla-Eyvindur á fjölunum á Holti í Önundarfirði á árlegri hátíð sem þar er haldin í tilefni af afmælisdegi önfirska skáldsins Guðmundar Inga Kristjánssonar. Fjalla-Eyvindur mun fara yfir mun fleiri fjöll á árinu m.a í hans fæðingarhrepp á sérstakri hátíð sem haldin verður í tilefni af því að árið 2014 verða 300 ár liðin frá fæðingu kappans.

Eldri góðkunningjar kómískir voru einnig á fjölunum árið 2013. Hinn sívinsæli Gísli Súrsson fór mikinn að vanda og var sýndur bæði á íslensku og ensku. Þó allar sýningarnar hafi verið ánægjulegar þá stóð uppúr að sýningin var sýnd á æskuslóðum söguhetjunnar nefnilega Súrnadal í Noregi. Alls hafa nú verið að sýndar 258 sýningar á þessum margverðlaunaða verki. Þegar hafa verið bókaðar margar sýningar á komandi ári og þá einkum á ensku sem er sérlega ánægjulegt og sýnir að listin er orðinn mikilvæg í okkar sístækkandi ferðaþjónustu. Ævintýraleikurinn Búkolla – Ævintýraheimur Muggs fór og víða m.a. í fæðingarbæ Muggs á Bíldudal. Loks var jólasýning okkar vinsæla Bjálfansbarnið og bræður hans sýnd og er þetta þriðja árið í röð sem verkið er á jólafjölunum.

Einsog í öllum alvöru uppgjörum er svo rétt að koma hér með einhverjar samlagðar tölur í þetta uppgjör. Þó ekki verði farið yfir í monnípeninga uppjörið enda er það að vanda kómískt. Alls sýndi Kómedíuleikhúsið 64 sýningar árið 2013. Við erum mjög ánægð með þessar tölur og erum sérlega þakklát okkar fjölmörgu áhorfendum um land allt sem hafa gert þessa tölu svo háa. Sú velvild sem við höfum fundið frá landsmönnum er alveg einstök án ykkar væri þessu ævintýri löngu lokið og komið útí mýri. Enn stöndum við þó og stefnum að því að gera enn betur á nýju spennandi ári.

Loks er rétt að geta hér ævintýris sem hófst fyrir nokkrum árum. Hugmyndina átti listakonan Marsibil G. Kristánsdóttir þegar hún gaukaði að leikhússtjóranum hvort væri ekki sniðugt að gefa út einsog eitt stykki hljóðbók. Nú eru hljóðbækur okkar orðnar þrettán. Þúfan orðin að stórum hól sem endar kannski bara á fjalli. Árið 2013 gáfum við út þrjár hljóðbækur. Þjóðlegi sagnaarfurinn hefur ávallt verið í aðalhlutverki hljóðbókaútgáfu okkar. Tvær nýjar hljóðbækur í þeirri seríu bættust við á árinu. Í vor komu út Skrímslasögur og fyrir jólin voru það Álfa- og jólasögur. Lítið hliðarskref frá hinu þjóðlega stefi var tekið í upphafi árs þegar við gáfum út hina umdeildu íslensku þýðingu á sögu Bram Stoker Drakúla. Sala hljóðbóka okkar hefur gengið vel og viljum við sérstaklega þakka sölustöðum okkar um land allt fyrir það. Síðast en ekki síst hlustendum okkar en sífellt stækkar hópurinn enda er svo notalegt að láta lesa fyrir sig.

Á árinu gáfum við út lítið jólaljóðakver Um jólin. Hér er á ferðinni fjölbreytt ljóð um jólin og er víða komið við. Ort er um jólabaksturinn, um Þorlák helga sem Þorláksmessa er kennd við, um vestfirsku jólavættina, skötuna og margt fleira. Ljóðin eru eftir Þórarinn Hannesson, forstöðumann ljóðaseturs Íslands, en Marsibil G. Kristjásdóttir myndskreytti. Um jólin var mjög vel tekið og er fyrsta upplag bókarinnar á þrotum.  

Einsog þú lesandi góður hefur þegar áttað þig á þá hefur árið 2013 verið sérlega kómískt. Margt fleira mætti nefna sem gerðist á þessu sextánda ári Kómedíuleikhússins en förum nú að ljúka þessu. Við þökkum styrktaraðilum okkar fyrir að hafa trú á okkur og vonumst til að þið séuð einnig ángæð með okkur. Áhorfendur góðir um land þið eruð öll frábær og takk fyrir frábærar stundir í leikhúsinu í gegnum árin.

Rétt er að hætta nú að horfa í baksýnisspegilinn og horfa fram á veginn. Hér eru nefnd nokkur kómísk verkefni sem hleypt verður útí lífið árið 2014:

Halla, barnaleikrit byggt á samnefndri ljóðabók Steins Steinarrs.

Þrjár þjóðlegar hljóðbækur koma út þar á meðal ein á ensku.

Og svo margt annað kómískt sem of snemmt er að segja frá.

 

Óskum ykkur öllum frábærs nýs árs og hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu á nýju kómísku ári.